Merkið var ekki endurtekið og síðari tilraunir til að finna það báru ekki árangur. Á þessum tíma var Big Ear útvarpssjónaukinn notaður til að leita að merkjasendingum frá vitsmunaverum utan jarðarinnar en enginn hafði búist við að sjá neitt í líkingu við þetta merki og það heyrðist aldrei aftur í Big Ear. Þar sem fleiri merki bárust ekki var ómögulegt að segja mikið um merkið og það var líka erfitt að rekja uppruna þess, hvaðan það var sent, vegna þess hversu skammvinnt það var. Það virtist koma frá Bogmannsmerkinu en ekki var hægt að segja til um það með fullri vissu.
Stjörnufræðingurinn Jerry R. Ehman tók eftir merkinu nokkrum dögum síðar þegar hann var að fara yfir gögn sem Big Ear hafði numið. Hann skrifaði þá WOW! með rauðum penna á útprentun á merkinu og gerði hring utan um það. Það varð síðan þekkt sem WOW! merkið.
Ehman og fleiri stjörnufræðingar reyndu ítrekað að nema merkið aftur og bera kennsl á það og uppruna þess. Reiknað var með að merkið myndi heyrast með þriggja mínútna millibili í móttökuhornum útvarpssjónaukans en það gerðist ekki. Ehman reyndi í marga mánuði að finna merkið aftur eftir að Big Ear nam það fyrst en án árangurs.
1987 og 1989 leitaði Robert H. Gray að merkinu með því að nota META loftnetssamstæðuna í Oak Ridge Observatory en hann fann það ekki. Það sama var uppi á teningnum 1995 þegar H. Paul Shuch, forstjóri SETI (sem er verkefni sem snýst um að leita að vitsmunalífi utan jarðarinnar), gerði nokkrar tilraunir með 12 metra útvarpssjónauka hjá National Radio Astronomy Observatory í Green Bank í Vestur-Virginíu. Hann gerði aðra tilraun, sem stóð frá 1995 til 1996, og notaði þá Very Large Array, sem er miklu nákvæmari en Big Ear en niðurstaðan var sú sama, ekkert heyrðist.
Árið 2012 voru 35 ár liðin frá því að WOW! merkið heyrðist. Til að halda upp á það var straumur stafrænna merkja sendur frá Arecibo stjörnuathugunarstöðinni í átt að upptakasvæði merkisins. Sendingin samanstóð af um 10.000 Twitter-skilaboðum sem voru samin sérstaklega af þessu tilefni af National Geographic Channel og var myllumerkið #Chasing UFOs notað en það var um leið kynning á samnefndri þáttaröð sjónvarpsstöðvarinnar. Einnig fylgdu með stutt myndskeið þar sem frægt fólk flutti stutt skilaboð.
Margar kenningar hafa verið settar fram í gegnum tíðina um uppruna merkisins. Því hefur verið varpað fram að það hafi átt náttúruleg upptök. Aðrir hafa haldið því fram að það hafi verið af völdum vitsmunavera. En þær skýringar sem voru settar fram skýrðu merkið ekki og áratugum saman var það talið sterkasti möguleikinn á að við hefðum numið merkjasendingu frá vitsmunaverum utan jarðarinnar.
Eins og gefur að skilja höfðu vísindamenn og áhugamenn um rannsóknir á himingeimnum velt þessu máli fyrir sér í gegnum tíðina. Það var síðan á síðasta ári sem vísindamenn töldu sig hafa fundið skýringuna á uppruna hins dularfulla WOW! merkis. Þá stigu vísindamenn við the Centre of Planetary Science fram og sögðust hafa skýringu á hugsanlegum uppruna merkisins. Þeir sögðust telja að merkið hafi komið frá halastjörnu sem ekki hafi verið þekkt 1977 þegar merkið barst til Big Ear. Nánar tiltekið sögðu þeir að merkið hafi komið frá vetnisskýi sem fylgdi halastjörnunni. Þeir sögðu að hreyfingar halastjörnunnar skýrðu af hverju merkið hafi aldrei heyrst aftur. Tvær halastjörnur voru á ferð um himingeiminn, á því svæði sem talið er að Big Ear hafi numið merkið frá, 1977 en á þeim tíma var ekki vitað um tilvist þeirra. Þær birtust aftur á himinhvolfinu frá nóvember 2016 þar til í febrúar 2017 og þá höfðu vísindamenn tækifæri til að prófa kenningu sína. Að þeirra sögn pössuðu merkin sem bárust frá þeim við WOW! merkið sem Big Ear útvarpssjónaukinn nam 40 árum áður. Til að staðfesta þetta enn betur rannsökuðu þeir merki frá þremur halastjörnum til viðbótar og fengu svipaðar niðurstöður. Vísindamennirnir segja að þeir geti ekki sagt til um með fullri vissu að WOW! merkið hafi borist frá þessum tveimur halastjörnum en geti með nokkuð mikilli vissu sagt að það hafi átt uppruna sinn hjá einhvers konar halastjörnu.