Blaðamenn Morgunblaðsins fylgdust með stökkinu og þegar þeir komu að var Eiríkur Kristinsson, flugumferðarstjóri og fallhlífarstökkskennari, að gefa Björgu síðustu leiðbeiningarnar. „Mundu nú að telja,“ sagði Einar og Björg virtist ókvíðin.
Vélin tók á loft og hringsólaði nokkra hringi yfir útbreiddu marki. Björg stökk út og fimm sekúndum síðar opnaðist hlífin. Töluverður vindur var á Sandskeiði og Björg sveif nokkuð frá markinu en eftir tveggja mínútna svif lenti hún heilu og höldnu.
„Þetta var stórkostlegt,“ sagði Björg eftir lendinguna. Sagði hún blaðamanni að hún hefði aldrei komið auga á markið en jafnframt að hún hefði aldrei orðið hrædd. „Það var enginn tími til slíks.“
Björg sagðist ætla að halda áfram og gæti vart beðið eftir næsta stökki. Hún sagði að áhuginn hefði kviknað eftir að faðir hennar stökk ári áður. Þá hafi hún strax byrjað að læra sjálf. Hún stóð við stóru orðin og stökk fjórum sinnum á tveimur árum.