Þann 8. nóvember var ljósunum komið fyrir. Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri og Einar B. Pálsson verkfræðingur fylgdust vel með á gatnamótum Laugavegar og Skólavörðustígs. Margir vegfarendur hópuðust einnig að.
Voru ljósin talin „hin sanngjörnustu og stöðva engan lengur en bráðnauðsynlegt er til að viðhalda góðri reglu á umferðinni“ eins og segir í frétt Morgunblaðsins.
Var brýnt fyrir öllum ökumönnum að fylgja götuvitunum skilyrðislaust. Undan því voru þó þegnir slökkviliðsbílar, lögreglubílar og bifhjól. Í Vísi sagði:
„Annars er mikil prýði að ljósunum, er rökkva tekur, þau setja nýjan og skemmtilegan svip á bæinn, og óhætt er að fullyrða, að menn myndu sakna þeirra, er þau hyrfu.“