fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Banvænar busavígslur

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 15. september 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Bandaríkjunum eru margir af bestu háskólum heims, lærðar og virtar stofnanir. En bræðralagsmenning nemenda, sem nær aftur til nítjándu aldar, er alræmd fyrir óhóf og ofbeldi. Busavígslur hafa þótt sérstaklega varasamar þar sem ungmenni í ölæði eru neydd til að framkvæma lífshættulega gjörninga. Hundruð busa hafa látist í slíkum vígslum eða aðdraganda þeirra.

Sofandi á lestarteinum

Eitt óhugnanlegasta dauðsfall af slíkum toga átti sér stað þann 28. október árið 1905 í Ohio-fylki. Nýneminn Stuart L. Pierson innritaðist í Kenyon-háskólann og vildi ganga til liðs við bræðralagið Delta Kappa Epsilon eins og faðir hans, auðjöfurinn Newbold Pierson.

Newbold ætlaði að vera viðstaddur busavígsluna en tafðist og Stuart missti svefn af áhyggjum. Bræðralagsmennirnir fóru með hann inn í skóg eitt kvöldið og skildu hann eftir. Morguninn eftir fannst hann látinn á lestarteinum eftir að lest hafði keyrt yfir hann.

Sagt hefur verið að Stuart hafi verið bundinn við teinana en engar sannanir eru fyrir því. Að öllum líkindum hefur hann einfaldlega sofnað á teinunum. Lestarstjórinn sem keyrði yfir hann sá ekkert í myrkrinu og varð aldrei var við neitt óvenjulegt.

Mikið var skrifað um málið í dagblöðum þess tíma og bræðralagsmenn úthrópaðir sem morðingjar. En enginn var kærður og sannleikurinn mun sennilega aldrei koma í ljós. Í dag er Pierson minnst með bálkesti í námunda við dánarstaðinn.

 

Raflost í blautum nærbuxum

Hinn nítján ára gamli Nolte McElroy lést í busavígslu í Texas-háskóla í Austin þann 30. september árið 1928. McElroy, sem talinn var efnilegur ruðningsleikmaður, gekk undir vígslu hjá bræðralaginu Delta Kappa Epsilon.

Búin var til þrautabraut fyrir nýnemana og voru þeir aðeins klæddir í blaut nærföt. Ein þrautin fólst í því að skríða undir dýnugorma sem tengdir voru við rafmagn. Bræðralagsmennirnir töldu þetta óhætt þar sem nærri tvö hundruð busar höfðu skriðið þarna undir yfir fimmtán ára tímabil.

McElroy komst hins vegar í snertingu við gormana og fékk í sig mikinn straum. Hlæjandi áhorfendurnir þögnuðu þegar McElroy féll í dá og lést hann fimmtán mínútum síðar. Eldri bræðralagsmenn Delta Kappa Epsilon lofuðu að hætta með slíkar þrautir í framtíðinni.

 

Barinn til dauða

Í bræðralagsvígslum hefur það verið til siðs að berja busana í heljarviku og í busavígslunum sjálfum, oft með kylfum eða árum. Oft eru þeir barðir á rass eða læri en stundum annars staðar á líkamann.

Michael Davis, nemi í Southeast Missouri-háskólanum, var laminn til dauða þann 14. febrúar árið 1994 þegar hann gekkst undir vígslu hjá bræðralaginu Kappa Alpha Psi.

Davis var laminn alls staðar á líkamann þar til hann missti meðvitund. Þá var hann hins vegar ekki færður á sjúkrahús heldur heim til sín og lagður í rúmið. Davis vaknaði aldrei úr rotinu og lést af völdum áverkanna. Hann var marinn á öllum búknum og höndunum, rifbeinsbrotinn, með skaddaða lifur og heilablæðingu.

 

Fannst á botni stöðuvatns

Hinn átján ára Chad Smith lést í busavígslu bræðralagsins Kappa Sigma í Miami-háskóla þann 4. nóvember árið 2001. Þar var til siðs að láta busa stökkva út í stórt stöðuvatn í námunda við borgina.

Chad drakk mikið magn áfengis, eins og gengur og gerist í slíkum vígslum, og stökk síðan út í ískalt og djúpt vatnið. En eldri bræðralagsmenn vildu ekki leyfa honum að synda strax að landi heldur neyddu þeir hann til að synda lengra út á stöðuvatnið.

Hann var mjög drukkinn og þegar hann var kominn um tíu metra út á vatnið fann hann fyrir miklum svima og kallaði á hjálp en fékk engin svör. Hann hvarf í vatnið og drukknaði.

Chad fannst á botni vatnsins næsta dag og fjölskylda hans lögsótti bræðralagið. Kappa Sigma var dæmt ábyrgt fyrir dauða Chads og var gert að greiða fjölskyldunni rúmlega tólf milljónir dollara, eða næstum einn og hálfan milljarð króna.

Matthew Carrington

Féll í krampakasti

Ein busun sem fór úr böndunum var í California State-háskólanum 2. febrúar árið 2005. Vikan fyrir vígslu er kölluð heljarvika af nemendum enda eru nýnemar þá látnir gera miður skynsamlega og heilsusamlega hluti.

Matthew Carrington vildi komast inn í Chi Tau-bræðralagið og ein áskorunin í heljarviku var að gera armbeygjur í kjallara bræðralagshússins. Ískalt var í kjallaranum og gólfið flóði í óhreinu vatni. Að auki voru Carrington og aðrir nýnemar neyddir til að drekka mikið magn vatns úr stórum brúsum og köldu lofti var blásið á þá með viftum.

Eftir nokkra stund byrjuðu nýnemarnir að æla og misstu þeir stjórn á þvaglátum sínum. Að lokum féll Carrington í gólfið í miklu krampakasti en eldri bræðralagsmenn brugðust ekki við. Carrington féll loks í dá og lést vegna mikilla bólgna í heila og lungum.

Eftir andlát Carringtons voru sett lög í Kalforníu, nefnd lög Matts, sem gera saksóknurum kleift að lögsækja bræðralagsmenn sem valda dauða eða alvarlegum slysum með busavígslu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Cher afhjúpar skuggahliðar hjónabandsins – Íhugaði að kasta sér fram af svölum

Cher afhjúpar skuggahliðar hjónabandsins – Íhugaði að kasta sér fram af svölum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja