fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Ótrúleg ævi Íslandsvinarins Hasso

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 9. september 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bílaleigan Hasso hefur verið starfrækt á Íslandi í yfir tvo áratugi og heitir hún eftir stofnandanum þýska, Hasso Schutzendorf, sem lifði ævintýralífi svo vægt sé til orða tekið. Hasso, sem lést árið 2003, var kallaður „Konungur Mallorca“ og var mikill Íslandsvinur. Á sinni ævi var hann dæmdur til dauða af nasistum í fjórgang, stýrði smyglhring í Austur-Þýskalandi og varð einn ríkasti maður Evrópu á því að leigja bíla á Mallorca.

 

Bjargað í bakarofni

Hasso Schutzendorf fæddist í borginni Dusseldorf árið 1924 en ólst upp í hafnarborginni Hamborg. Ævintýri Hasso hófust strax í móðurkviði en móðir hans reyndi að enda þungunina með því að stökkva af húsgögnum. Hún vildi alls ekki eiga hann. Hasso var aðeins nokkurra mánaða gamall þegar móðir hans skildi hann eftir úti á svölum í frosti en faðir hans, Eugen, bjargaði honum að sögn með því að setja hann í bakarofn. Þetta var ekki í síðasta skipti sem Eugen bjargaði Hasso.

Eugen og fjórir bræður Hasso sungu saman í hljómsveit og tónlist var allt í öllu í fjölskyldulífinu. Þegar nasistar komust til valda starfaði Eugen fyrir öryggismálastofnun þriðja ríkisins í Berlín.

Sjálfur hafði Hasso mikinn áhuga á djasstónlist og sem ungur maður vildi hann ekki gera neitt annað en að hlusta á djass og stunda partí. Allra síst fara í stríð og hugðist flýja til Svíþjóðar þegar seinni heimsstyrjöldin braust út. En landið var lokað og Hasso komst ekki burt.

 

Liðhlaupi á austurvígstöðvum

Djass var bannaður í þriðja ríki Hitlers og aðeins sextán ára var Hasso handtekinn af leynilögreglunni Gestapo og yfirheyrður fyrir landráð fyrir það eitt að hlusta á tónlistina. Árið 1941 var hann leiddur fyrir rétt og dæmdur til vistar í Neuengamme-þrælkunarbúðunum í útjaðri Hamborgar.

Stríðsbrölt Þjóðverja krafðist mannafla og því var Hasso sendur á austurvígstöðvarnar til að berjast við Sovétmenn. Einn daginn, þegar herdeild hans var stödd við borgina Odessu við Svartahaf, gerðist hann liðhlaupi og flúði vestur. Hasso komst hins vegar ekki lengra en til Rúmeníu þar sem hann var handtekinn af lögreglunni og í kjölfarið færður þýska hernum á ný. Þá var hann leiddur fyrir herrétt og dæmdur til dauða en faðir hans bjargaði honum úr snörunni.

Út stríðið hélt Hasso áfram að flýja herþjónustu og alls þurfti faðir hans að bjarga honum í fjórgang úr gálganum. Árið 1944 munaði aðeins örfáum mínútum að Hasso yrði tekinn af lífi í Vínarborg.

 

Óvinur Austur-Þýskalands númer eitt

Eftir stríðið innritaðist Hasso í læknanám en samfara náminu kom hann upp smyglhring á milli Vestur- og Austur-Þýskalands. Hasso flutti mat, áfengi, tóbak, skrifstofuvörur, ýmiss konar þýfi og flóttamenn á milli austurs og vesturs árin 1950 til 1954 og hagnaðist vel. Þá var hann loks handsamaður, blessunarlega fyrir hann, í vesturhlutanum, og fékk eins árs fangelsisdóm fyrir. Smyglhringur Hasso fór ekki fram hjá austurþýskum yfirvöldum og var gerð um hann heimildamynd þar í landi þar sem honum var lýst sem óvini landsins númer eitt.

Refsivistin reyndist ekki vera betrunarvist því að eftir að Hasso var laus úr fangelsi flutti hann til Berlínar og hélt áfram að smygla. Hann færði hins vegar út kvíarnar og fór að smygla varningi í gegnum Vestur-Þýskaland og til Spánar og Suður-Ameríku. Árið 1959 gerði lögreglan mikla rassíu og handtók 80 manns sem hlutu sumir langa dóma. En Hasso komst undan og flúði til eyjarinnar Mallorca, þar sem hann var með hluta af sinni starfsemi. Mallorca var þá smám saman að breytast í alvöru ferðamannastað og Hasso ákvað að nýta sér það.

 

Óhóf og vellystingar

Hasso reyndi fyrst fyrir sér með sjóskíðaleigu en það gekk illa og árið 1961 opnaði hann loks bílaleigu, Hasso Rent a Car. Um þetta leyti kynntist hann Sigurði S. Bjarnasyni, sem var þá ungur maður í ævintýraleit. Sigurður starfaði hjá Hasso í tvö ár og náði hagstæðum samningum við stærstu bílaleiguna á staðnum um að leigja á umboðslaunum. Sigurður hætti þá störfum en þeir héldu vinskap eftir það.

Bílaleigan gekk vel og Hasso fitnaði eins og púkinn á fjósbitanum. Hann fékk viðurnefnið „kóngurinn af Mallorca“ og lifði samkvæmt því, í vellystingum og óhófi. Hasso varð eldri og eldri en eiginkonur hans voru alltaf á sama aldri. Alls var hann kvæntur sex sinnum. Eitt sagði hann: „Konur yfir þrítugt lykta bara ekki vel.“

Hasso varð milljarðamæringur og fjárfesti í bönkum í Þýskalandi og á Spáni. Hann fór að kalla sig Hasson von Schutzendorf og lét hanna skjaldarmerki fyrir sig. Hann safnaði framandi dýrum, stórum sem smáum og hélt þau í glæsihýsi sínu í Palma. Popparar og Hollywood-stjörnur voru daglegir gestir á heimili hans. En Hasso var einnig gjafmildur og studdi við ýmiss konar góðgerðarstarfsemi á eyjunni sem hafði gert hann svo ríkan.

Hasso elskaði Ísland og kom hingað til lands margoft í frítíma sínum. Hann var einn af þeim heimsfrægu mönnum sem renndu fyrir lax á Íslandi. Í dagblöðum var hann titlaður sérstakur Íslandsvinur og um tíma fengu allir Íslendingar að leigja bíla frítt hjá honum á Mallorca. Einnig bauð hann Íslendingum á Mallorca að koma og dvelja hjá sér í vellystingum í Palma. Árið 1995 stofnaði hann útibú fyrir bílaleigu sína hér á landi og varð Sigurður, gamli vinur hans, framkvæmdastjóri.

Íslendingar velkomnir í glæsihýsi Hasso, Eyjafréttir 31. ágúst 1995

Á Íslandi með lífvörð

Á efri árum lenti Hasso margoft í erfiðum málum og uppákomum tengdum fjölskyldu hans. Í apríl árið 1994 hvarf tíu ára sonur hans, Alberto, af heimilinu í Palma og gerði lögreglan á Spáni og í Þýskalandi mikla leit að honum. Kom þá í ljós að móðir drengsins, og fjórða eiginkona Hasso, Maria del Carmen, hafði tekið drenginn. Íslenska útlendingaeftirlitinu var gert viðvart um málið þar sem talið var að Maria gæti hafa komið hingað með drenginn. Seinna kom í ljós að Maria hefði átt að hafa umsjá með drengnum og fékk hún það staðfest fyrir rétti.

Árið 1993 giftist Hasso kólumbískri konu að nafni Astrid og eftir það beindust augu þarlendra glæpasamtaka að honum. Hótanir og fjárkúgun fylgdu og í eitt skiptið var brotist inn á heimili hans í Palma. Í ágústmánuði árið 1996 kom Hasso til Íslands í fylgd með lífverði en hann hafði aldrei sést í slíkri fylgd hér áður. Í það skiptið dvaldi hann á Íslandi í mánuð til að ná upp heilsu eftir lungnabólgu. Ítalska mafían hafði einnig í hótunum við hann vegna þess að hann neitaði að greiða svokallað verndargjald.

Árið 2001 réðust tveir grímuklæddir menn á Hasso á heimili hans þar sem hann var í fótanuddi. Þeir lömdu hann, hótuðu honum og rændu bæði peningum og skartgripum. Sjálfur taldi Hasso að þeir hefðu verið á vegum Astrid en hún var þá tekin saman við lífvörð Hasso og beið eftir skilnaði. Sambandið var hins vegar ekki verra en svo að hún var við hlið hans þegar hann lést ári seinna í Palma. Sirkus Hasso Schutzendorf var hins vegar ekki lokið því að erfðadeila milli Astrid og fjögurra sona Hasso stóð yfir í mörg ár.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona er einfalt mataræði og morgunmatur Victoriu Beckham 

Svona er einfalt mataræði og morgunmatur Victoriu Beckham 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leikarastéttin flykktist á óhugnanlega frumsýningu

Leikarastéttin flykktist á óhugnanlega frumsýningu