Ungern barón var fæddur í Austurríki en fjölskylda hans flutti búferlum til Eistlands þegar hann var barn. Hann gekk í herskóla árið 1906, barðist í fyrri heimsstyrjöldinni og kleif metorðastigann af miklum móð. En mestan áhuga hafði hann á málefnum Austur-Asíu og sérstaklega Mongólíu. Ungern leit mikið upp til Genghis Khan og heimsveldis hans frá 13. öld.
Árið 1911 hóf Bogd Khan uppreisn sína í Mongólíu gegn Kínverjum sem réðu svæðinu og var Ungern sífellt að biðja yfirmenn sína um að senda sig að landamærum Rússlands og Mongólíu.
Þegar Nikulási keisara var steypt árið 1917 og bolsévíkar komust skömmu síðar til valda gekk hann ekki til liðs við hvítliða þrátt fyrir að vera mjög hliðhollur keisaranum. Þess í stað fór hann austur til Síberíu þar sem hann barðist með flokki hermanna við bolsévíka á eigin forsendum, studdur af Japönum.
Margir af þeim hermönnum sem börðust með Ungern barón voru Mongólar. Riðu Ungern og hans menn um héruð á hestum, líkt og herir Genghis Khan fyrrum, og lögðu byggðir í eyði. Heimsmynd Ungerns var óvanaleg fyrir 20. aldar Evrópumann. Hann var búddisti og einræðissinni sem fyrirleit lýðræðið. Þess voru þá merki þess að Ungern hafi verið byrjaður að líta á sig sem Genghis Khan endurfæddan og hefði því rétt til að stýra Mongólíu.
Árið 1920 sá Ungern sér leik á borði þar sem Rússland var í molum og Kínverjar voru að hörfa frá Mongólíu. Þann 1. október riðu menn hans yfir landamærin og í átt að höfuðborginni Urga (nú Ulan Bataar) þar sem hann mætti Kínverjum í bardaga. Ungern notaði þá gamalt herbragð úr smiðju Khan, að kveikja elda í hæðunum í kringum borgina til að herlið hans virtist stærra en það var í raun. Ungern hafði aðeins um 1.500 menn á meðan Kínverjar höfðu 7.000.
Í lok janúar árið 1921 náðu sveitir Ungerns að frelsa Bogd Khan sem var þá í stofufangelsi. Þann 4. febrúar náðu þeir Urga á sitt vald. Í apríl hörfuðu Kínverjar úr landinu eftir misheppnaða tilraun til að ná Urga aftur á sitt vald.
Bogd Khan varð konungur (khagan) Mongólíu en Ungern réð samt öllu. Hann hataði gyðinga og þess vegna voru þeir miskunnarlaust teknir af lífi. Kínverjar fengu einnig að finna fyrir því sem og rússneskir bolsévíkar.
Bolsévíkastjórnin í Rússlandi var að eflast sumarið 1921 og stutt í að Sovétríkin yrðu stofnuð. Lenín leit á Mongólíu sem kjörið tækifæri til að koma á stóru leppríki í Asíu og því voru sendar þar inn hersveitir í byrjun júní. Margir úr liði Ungerns snerust gegn honum og þann 6. júlí féll Urga í hendur bolsévíka.
Ungern flúði til norðurhéraðanna og barðist áfram en eftir einn ósigurinn, þann 20. ágúst var hann handsamaður. Eftir sex klukkutíma réttarhöld, þann 15. september, var brjálaði baróninn leiddur fyrir aftökusveit. Sovétmenn náðu landinu og fékk Bogd Khan að vera konungur áfram, að nafninu til, til dauðadags árið 1924. Þá var formlega komið á kommúnistaríki sem hélt velli til ársins 1992.