fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

TÍMAVÉLIN: Neitaði að gefast upp og barðist í 29 ár til viðbótar

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 19. ágúst 2018 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir halda að sagan af japanska hermanninum sem barðist í frumskógum Filippseyja í áratugi eftir seinni heimsstyrjöld sé flökkusaga. En hún er dagsönn. Hiroo Onoda gafst ekki upp með keisaranum í ágústmánuði árið 1945 heldur hélt hann sinni stöðu í 29 ár til viðbótar uns fyrrverandi yfirmaður hans ferðaðist til Filippseyja árið 1974 til þess að leysa hann undan skyldu sinni.

Douglas MacArthur herforingi

Til fjalla!

Árið 1937 hófst stríðið milli Japana og Kínverja en Japanir höfðu nokkrum árum áður hernumið Mansjúríuhérað í norðausturhluta Kína. Onoda var aðeins átján ára gamall þegar hann skráði sig í her keisarans árið 1940 og um tíma starfaði hann sem njósnari á vegum hersins.

Hart var barist á Filippseyjum í stríðinu en eyjarnar voru nýlenda Bandaríkjanna áður en Japanir náðu þeim á sitt vald árið 1942. Eftir risavaxna sjóorrustu við Leyte-flóa hófu Bandaríkjamenn að ná eyjunum aftur á sitt vald og þá kom Onoda við sögu. Annan dag jóla árið 1944 var hann sendur til eyjarinnar Lubang til að taka þátt í að verja hana fyrir árásum Bandaríkjamanna með öllum ráðum. Meðal annars átti hann að eyðileggja flugvöllinn og bryggjuna á eyjunni. Hann mátti alls ekki gefast upp eða fremja sjálfsvíg.

Agi hafði verið lykilatriði í velgengni japanska hersins í stríðinu fram að þessu og Onoda fylgdi skipunum í einu og öllu. Þegar hann kom til Lubang voru þar hins vegar hærra settir yfirmenn og því gat hann ekki framkvæmt það sem hann vildi gera. En eftir árás Bandaríkjamanna 28. febrúar voru aðeins örfáir japanskir hermenn eftir lifandi og hann orðinn hæst settur. Hann skipaði þeim þremur mönnum sem eftir voru upp í fjöllin til að stunda skæruhernað. Þar héldu þeir til næstu mánuði án mikilla samskipta við umheiminn.

 

Taldir af

Í október árið 1945 fundu þeir dreifimiða sem á stóð að Japanir hefðu gefist upp í ágúst og að stríðinu væri lokið. Margir japanskir hermenn voru þá í felum í frumskógum víðs vegar um fyrrverandi yfirráðasvæði þeirra. En Onoda og menn hans treystu ekki miðanum, hann hlyti að vera áróður Bandamanna. Þeir stóðu því áfram sína plikt.

Einn af þeim, Yuichi Akatsu, ákvað að gefa sig fram haustið 1949. Fjölskyldur þeirra vissu af þeim og reyndu að fá þá heim. Flugvélar flugu yfir næstu árin og dreifðu skilaboðum og fjölskyldumyndum. En þeir létu Bandamenn ekki plata sig svo auðveldlega.

Í júní árið 1953 lentu þeir í skotbardaga við sjómenn og einn af þeim, Shoichi Shimada, var skotinn í annan fótlegginn. Ári seinna lést hann eftir annan skotbardaga við leitarflokk. Tveir voru þá eftir, Onoda og óbreytti hermaðurinn Kinshichi Kozuka, en þeir mynduðu gott teymi og vörðu sitt svæði í næstum tvo áratugi til viðbótar.

Þann 19. október árið 1972 voru félagarnir að brenna hrísgrjónauppskeru fyrir bændum á eyjunni þegar lögreglan kom að. Lauk þeirri viðureign með því að Kozuka var skotinn til bana. Onoda var einn eftir en ekki á því að gefast upp.

Á þessum tíma var Onoda orðinn að goðsögn og ekki allir sannfærðir um að hann væri í raun og veru til. Í Japan voru hann og Kozuka skráðir látnir mörgum árum áður því að þeir gætu ekki hafa lifað svo lengi í frumskóginum. Þegar lík Kozuka var sent til Japan þurftu stjórnvöld að endurmeta þá skoðun og margir fóru að leita að Onoda en án árangurs.

Suzuki og Onoda

Í tættum herklæðum með riffil og sverð

Ungur japanskur ævintýramaður, Norio Suzuki, var staðráðinn í að hafa uppi á Onoda og fann hann loksins í febrúar árið 1974. Onoda var veðraður, í tættum herklæðum, vopnaður sverði og riffli og þeim kom vel saman. Onoda neitaði hins vegar að láta af hernaðinum þar sem að hann hafði ekki fengið neina skipun frá yfirmanni sínum um að gera það. Suzuki sneri heim til Japan með ljósmyndir af þeim félögunum til sönnunar því að Onoda væri enn á lífi. Japönsk stjórnvöld höfðu þá uppi á fyrrverandi yfirmanni Onoda, Yoshimi Taniguchi, sem starfaði þá sem bóksali. Þann 9. mars flaug Taniguchi til Lubang-eyju, hitti Onoda og leysti hann undan skyldu sinni. Onoda hafði vissulega drepið menn og framið skemmdarverk á árunum 1945 til 1974 en Marcos, einræðisherra á Filippseyjum, náðaði Onoda og vísaði til þess að hann hefði trúað að stríðinu væri ekki lokið.

Onoda varð stjarna í Japan þegar hann kom heim. Gerð var um hann heimildamynd og hann skrifaði ævisögu sína sem hét Engin uppgjöf: Mitt þrjátíu ára stríð. Margir vildu að hann byði sig fram til japanska þingsins en hann undi allri þessari athygli illa. Um tíma ræktaði hann nautgripi í Brasilíu en seinustu árin rak hann skóla í Japan. Onoda lést árið 2014, 91 árs að aldri.

Fleiri hermenn neituðu að gefast upp eftir stríðið og héldu til í frumskógum víða um Asíu. Vitað er um einn sem hélt út lengur en Onoda, taívanska hermanninn Teruo Nakamura sem fannst fyrir tilviljun í frumskógum Indónesíu í nóvember árið 1974.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife