1909-1998
Björn var liðsmaður Waffen SS og sonur Sveins Björnssonar, fyrsta forseta lýðveldisins. Björn kynntist nasismanum eftir að hann flutti til Hamborgar árið 1930 en þar starfaði hann hjá Eimskipum.
Þegar seinni heimsstyrjöldin hófst starfaði hann sem fréttaritari á austurvígstöðvunum en síðan var hann sendur í áróðursdeild í Kaupmannahöfn þar sem hann starfaði bæði við blaðaútgáfu og útvarp. Í stuttan tíma var honum treyst til að stýra danska ríkisútvarpinu.
Birni var einnig treyst til að sitja í dómarasæti í einstökum málum. Í einu slíku máli árið 1945 dæmdi hann danskan fyrrum SS liða til dauða fyrir liðhlaup og þjófnað. Óvíst er hvort að dómnum var framfylgt þar sem Þjóðverjar gáfust upp degi seinna.
Björn gaf sig fram eftir uppgjöfina og sat í fangelsi í Danmörku til ársins 1946 þegar honum var sleppt vegna þrýstings frá Íslandi. Sveinn var þá orðinn forseti. Eftir það bjó Björn ýmist á Íslandi, Argentínu eða Þýskalandi og vann ýmis störf. Meðal annars seldi hann alfræðiorðabækur og kenndi tónlist.