fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

14. maí 1948 – Dagurinn sem gjörbreytti Miðausturlöndum – Stríðin sem fylgdu í kjölfarið

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 5. ágúst 2018 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Klukkan 16 þann 14. maí 1948 tók David Ben-Gurion, forseti þjóðráðs gyðinga í Palestínu, til máls í litlu listasafni við Rothschild Boulevard í Tel Aviv. Hann las upp yfirlýsingu um stofnun og sjálfstæði Ísraelsríkis. Það tók hann 20 mínútur að lesa yfirlýsinguna en 200 manns voru viðstaddir en auk þess var henni útvarpað á nýrri útvarpsstöð „Voice of Israel“ sem sendi út frá Tel Aviv. Um klukkan 16.30 sagði hann: „Ísraelsríki hefur verið stofnað. Fundi er slitið.“ Í dagbók sína skrifaði hann að hann hefði fengið fyrirboða.

Með yfirlýsingunni rættust tæplega 2.000 ára gamlir draumar gyðinga um að þeir gætu dag einn snúið aftur til landsins sem Rómverjar ráku þá frá. Helför nasista gegn gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni varð til að styrkja gyðinga í þessum fyrirætlunum sínum. Degi eftir yfirlýsingu Ben-Gurion drógu Bretar sig frá Palestínu en þeir höfðu farið með yfirráð yfir landsvæðinu síðan í fyrri heimsstyrjöldinni. Arabaríkin brugðust ókvæða við stofnun Ísraelsríkis og og sýrlenskar, egypskar, jórdanskar og írakskar hersveitir réðust á hið nýstofnaða ríki og hófst þá stríð Araba og Ísraela. Arabarnir voru staðráðnir í að gera út af við landnám og byggðir gyðinga í Palestínu. Sameinuðu þjóðirnar reyndu að miðla málum en án árangurs. Þrátt fyrir að vera með miklu minna herlið náðu Ísraelsmenn að hrinda árásinni og tryggja stofnun ríkis gyðinga. Arabaríkin neyddust til að semja um vopnahlé við Ísrael 1949.  Ísraelski herinn var vel búinn vopnum sem höfðu komið frá Tékkóslóvakíu og Frakklandi og átti það auðvitað sinn þátt í að hann gat tekist á við herlið Arabaríkjanna. Á hebresku er þetta stríð nefnt Sjálfstæðisstríðið en á arabísku er það nefnt Hörmungarnar.

Samkvæmt bresku Balfour-yfirlýsingunni frá 1917 þá átti að stofna þjóðríki gyðinga í Palestínu en um leið átti að vernda „almenn og trúarleg“ réttindi þeirra sem ekki voru gyðingar í Palestínu. Bretum tókst ekki að koma á sáttum á milli hinna ólíku hópa í landinu áður en þeir yfirgáfu það.

Aðeins 11 mínútum eftir að stofnun Ísraelsríkis var lýst yfir lýsti Truman, forseti Bandaríkjanna, því yfir að Bandaríkin viðurkenndu tilvist Ísraels og voru Bandaríkin fyrsta ríki heims til að viðurkenna stofnun ríkisins.

Stríðið á Sínai 1956

Gyðingar streymdu í þúsundatali til Ísraels í kjölfar stofnunar ríkisins en þrátt fyrir mikla fólksfjölgun stóð ríkið frammi fyrir utanaðkomandi ógnum. Árið 1956 ákváðu Ísraelsmenn að ráðast á palestínska skæruliða sem stunduðu skæruhernað frá Egyptalandi og reyna að aflétta hafnbanni Egypta á hafnarborgina Eilat. Leynilegur samningur var gerður við Frakka og Breta sem hugðust ráðast inn í Egyptaland til að ná stjórn á Súesskurðinum. Ísraelsher átti að ráðast inn í Sínaieyðimörkina og í kjölfarið ætluðu Frakkar og Bretar að ráðast inn í Egyptaland undir því yfirskyni að þeir væru að taka sér stöðu á milli Ísraels og Egyptalands. Innrás Ísraelshers gekk vel en Frakkar og Bretar neyddust til að draga sig til baka vegna þrýstings frá Bandaríkjunum og Sovétríkjunum. Í kjölfarið urðu Ísraelsmenn að draga sig til baka. En stríðið sýndi umheiminum hversu öflugur ísraelski herinn var og að Ísrael væri reiðubúið til að ráðast á önnur ríki að fyrra bragði til að verjast.

Sex daga stríðið 1967

Eftir átökin á Sínai var ísraelski herinn markvisst byggður upp og efldur. Þegar Nasser Egyptalandsforseti bað Sameinuðu þjóðirnar um að kalla eftirlitssveitir sínar frá Sínai og sendi egypskar hersveitir þangað, setti hafnbann á Eilat á nýjan leik og hvatti Arabaríkin til aðgerða gegn Ísrael töldu Ísraelsmenn það jafngilda stríðsyfirlýsingu. Þeir gerðu harðar loftárásir á Egyptaland og Sýrland í júní og réðust síðan á Jórdaníu. Stríðinu lauk á aðeins sex dögum þar sem Ísraelsher var miklu öflugri en herir hinna ríkjanna þriggja. Að stríðinu loknu hafði Ísraelsher náð Sínai á sitt vald auk Gasa, Vesturbakkans, Gólanhæða og Jerúsalem. Hafði landsvæði Ísraels þá tvöfaldast. En þetta leiddi ekki til lausnar á deilum Ísraels við nágrannaríkin og Palestínumenn. Í ályktun öryggisráðs SÞ númer 242 er hvatt til brotthvarfs Ísraelsmanna frá „svæðum sem voru hernuminn í nýlegum átökum“ og til þess að öll ríki á svæðinu „lifi í friði innan öruggra og viðurkenndra landamæra“. Ísraelsmenn höfnuðu því að láta öll hernumdu svæðin af hendi og innlimuðu Austur-Jerúsalem og settu upp herstjórnir á herteknu svæðunum. Ísraelsmenn sögðust mundu skila skila Gasa, Vesturbakkanum, Gólanhæðum og Sínai ef Arabaríkin viðurkenndu tilverurétt Ísraels og ábyrgðust að ekki yrði ráðist á Ísrael í framtíðinni. Leiðtogar Arabaríkjanna, særðir eftir ósigrana fyrir Ísrael, hittust í ágúst til að ræða framtíð Miðausturlanda. Þeir samþykktu að fallast ekki á frið við Ísrael, að semja ekki við Ísrael, að viðurkenna ekki tilverurétt Ísraels og gerðu áætlun um að verja réttindi Palestínuaraba á herteknu svæðunum ötullega.

Friðarsamkomulag við Egypta

Síðar klufu Egyptar sig út úr þessu samkomulagi og sömdu um frið við Ísrael en fyrst kom til átaka á milli ríkjanna í október 1973. Egyptar gerðu þá óvænta árás yfir Súesskurðinn á Yom Kippur, á heilagasta degi gyðinga, en ísraelski herinn var þá með óvenjulega lítinn viðbúnað og var komið illilega á óvart. Egyptar náðu að komast yfir skurðinn en lutu í lægra haldi þegar Ísraelsmenn komust vestur yfir skurðinn. Þá samþykktu Egyptar vopnahlé. Á meðan réðust Ísraelsmenn á Sýrlendinga í Gólanhæðum en Sýrlendingar höfðu náð þeim aftur á sitt vald. Sýrlenski herinn var hrakinn á flótta og sókn Ísraelshers lauk ekki fyrr en hann átti skammt eftir til Damaskus.

Eftir þetta var friðarhugur í Egyptum og Ísraelsmönnum og dramatísk heimsókn Anwar Sadat, forseta Egyptalands, til Jerúsalem 1977 opnaði fyrir friðarsamning á milli ríkjanna. Eftir friðarviðræður milli Sadat og Menachem Begin, forsætisráðherra Ísraels, samdist að lokum um frið 1978 og friðarsáttmáli var gerður 1979. Ísraelsmenn féllust á að skila Sínai aftur til Egyptalands og Egyptaland féllst á að viðurkenna Ísraelsríki. Samband ríkjanna hefur ekki alltaf verið dans á rósum eftir þetta en friðarsamningurinn hefur haldið fram að þessu en hann breytti ekki miklu fyrir Palestínumenn og hefur staða þeirra farið versnandi undanfarna áratugi og hið flókna ástand í Ísrael og nærliggjandi landsvæðum hefur ekki orðið einfaldara með tímanum eða þjáningar fólks minni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“