fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Íslensku skemmtistaðirnir sem fuðruðu upp – Glaumbær, klúbburinn og Tunglið

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 23. júní 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skemmtistaðir á Íslandi eru dægurflugur. Þeir verða sjóðheitir í stuttan tíma en brenna svo út og aðrir taka við. Það er ekki í eðli þeirra að vera langlífir en sumir staðir öðlast þó goðsagnakenndan sess í sögu dægurmenningar, sérstaklega ef það kviknar í þeim. Einhverra hluta vegna virðast skemmtistaðir vera eldfimari byggingar en flestar aðrar. Hér verður rakin saga nokkurra staða, bæði víðfrægra og annarra sem fuðruðu upp en lifa áfram í minningu djammaranna.

TÍminn 5. desember 1971

Glaumbær

Aðfaranótt 5. desember árið 1971 kom eldur upp í veitingahúsinu og skemmtistaðnum Glaumbæ við Fríkirkjuveg 7, hús sem í dag hýsir Listasafn Íslands.

Húsið var upprunalega reist árið 1916 sem ístökuhús fyrir Reykjavíkurtjörn en um miðja öldina hafði Framsóknarflokkurinn þar aðstöðu. Árið 1959 voru haldnir dansleikir í húsinu og tveimur árum síðar stofnaði stórkaupmaðurinn Ragnar Þórðarson, eða Ragnar í Markaðinum eins og hann var kallaður, þrjá veitingastaði í húsinu og varð Glaumbær sá þekktasti.

Ragnar seldi reksturinn um miðjan sjöunda áratuginn en þá var Glaumbær einn helsti tónleikastaður Reykjavíkur og öll íslensku Bítlaböndin tróðu þar reglulega upp.

Leigubílsstjóri frá Hreyfli varð fyrst var við eld í húsinu um fjögurleytið þessa desembernótt árið 1971. Fyrstu slökkviliðsmennirnir sem komu að sáu eldtungur stíga út um glugga á efstu hæð og var þá allt tiltækt lið kallað til, milli 50 og 60 manns. Notuð var bæði froða og vatn og slökkvistarfið gekk hratt og vel en einn slökkviliðsmaður slasaðist þegar stútur á háþrýstislöngu slóst í andlit hans. Alls tók um 90 mínútur að ráða niðurlögum eldsins.

Alelda var á efstu hæð hússins og hún því gjörónýt og hinar tvær hæðirnar mjög illa farnar af vatns- og reykskemmdum. Eins og áður segir var Glaumbær vinsæll tónleikastaður og hljómsveitirnar þar heimakærar. Hljóðfæri tveggja hljómsveita, önnur þeirra var Náttúra, voru geymd þar og eyðilögðust í brunanum. Lögreglan hélt fólki frá brunastaðnum en einum manni var hleypt í gegn, Sigurði Rúnari Jónssyni eða Didda fiðlu, úr hljómsveitinni Náttúru. Hann mjög æstur í skapi samkvæmt Þjóðviljanum enda miklir fjármunir bundnir í hljóðfærunum.

Eldsupptök eru ókunn en staðurinn var mannlaus þegar eldurinn kom upp. Aðsókn var mikil á staðinn og í október bárust fréttir um að á dansleikjum væru mun fleiri en staðurinn hefði leyfi fyrir. Þá hafði eigandinn, Sigurbjörn Eiríksson, nýlega endurnýjað samning við Framsóknarflokkinn sem átti húsið. Sigurbjörn vildi endurbyggja Glaumbæ eins og margir innan Framsóknarflokksins, þar á meðal Ólafur Ragnar Grímsson. En nágrannar söfnuðu undirskriftum gegn því og var ákveðið að húsið færi undir listasafnið.

Tíminn 4. febrúar 1992

Klúbburinn

Nafn Klúbbsins, sem staðsettur var í Borgartúni 32, er iðulega tengt við Guðmundar- og Geirfinnsmálin því að þeir sem tengdust því máli tengdust einnig Klúbbnum og hafði Geirfinnur sést á tali við einn þeirra á staðnum.

Klúbburinn var stofnaður sem veitingastaður árið 1960 í þriggja hæða skrifstofuhúsi með kjallara. Staðurinn var sérlega íburðarmikill og þar var til dæmis vínstúka í austurlenskum stíl og setustofa sem minnti á veiðikofa. Seinna meir þróaðist staðurinn í að vera skemmtistaður með lifandi tónlist, oft á öllum hæðum hússins. Þegar Glaumbær brann árið 1971 tók Klúbburinn við sem vinsælasti skemmtistaður unga fólksins en sami veitingamaður, Sigurbjörn Eiríksson, rak báða staðina.

Klúbburinn var líflegur staður en ýmis orðrómur fylgdi honum. Talað var um að sprúttsala, eiturlyfjasala og vændi færi þar fram. Oft komu þar upp skrautlegar uppákomur og slagsmál og lögreglan hafði fasta viðveru fyrir utan staðinn.

Eftir að staðurinn var tengdur við Geirfinnsmálið árið 1976 breyttist ásýnd Klúbbsins. Þetta var ekki lengur heitasti staður unga fólksins heldur varð hann smátt og smátt að skítugri rokkbúllu. Hægt og bítandi dró úr aðsókninni og á níunda áratugnum var stórum hluta staðarins lokað, nafninu var breytt og hét þá Sportklúbburinn.

Laust eftir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 3. febrúar árið 1992 fékk slökkviliðið tilkynningu um að eldur væri laus í Borgartúni 32. Allt tiltækt lið var kallað á staðinn og var mikill eldur í stigagangi hússins. Fimmtán reykkafarar voru sendir inn, fleiri en nokkru sinni fyrr, og reyndist slökkvistarf erfitt því að búið var að negla fyrir alla glugga að innanverðu. Um tvöleytið var búið að slökkva eldinn en miklar skemmdir urðu á öllum þremur hæðum hússins.

Lögregla taldi að um íkveikju hefði verið að ræða þar sem eldur hafði blossað upp á þremur stöðum. Einn maður, sem nýlega hafði farið af staðnum, var ákærður en dómarar töldu sök hans ósannaða.

DV 30. júlí 1998

Tunglið

Fimmtudagsmorguninn 30. júlí árið 1998 varð einn af stærstu brunum í sögu miðborgarinnar þegar eldur kom upp á skemmtistaðnum Tunglinu við Lækjargötu 2. Öryggisvörður frá Securitas varð eldsins var og var strax farið í að rýma nærliggjandi hús, þar á meðal íbúðarhús. Einn slökkviliðsmaður fékk ofan á sig brennandi bita úr lofti og var þá ákveðið að athafna sig einungis utan frá.

Strax lék grunur á að um íkveikju væri að ræða, bæði vegna þess hversu hratt eldurinn breiddist út og vegna þess að tómir bensínbrúsar fundust á staðnum. Bæði var eldur í kjallaranum og á efstu hæðinni. Enginn var hins vegar ákærður fyrir verknaðinn.

Lækjargata 2 hýsti kvikmyndahúsið Nýja Bió frá 1920 til 1987 en þá var skemmtistaðurinn Lækjartunglið stofnaður. Síðar var nafninu breytt í Tunglið og varð einn heitasti staður borgarinnar. Þar var stundum spilað dúndrandi teknó og kom breska ofursveitin The Prodigy meðal annars þar fram árið 1994. Einnig voru þar haldnir rokktónleikar svo sem hinir goðsagnakenndu (og alls ekki síðustu) lokatónleikar HAM sama ár.

Húsið gjöreyðilagðist og var rifið í kjölfarið. Nýtt hús var reist á reitnum sem hýsir nú meðal annars Hard Rock Café og Grillmarkaðinn.

Pravda

Um tvöleytið miðvikudaginn 18. apríl árið 2007 kom upp eldur í húsum við Lækjargötu og Austurstræti og breiddist hratt út. Eldurinn er talinn hafa blossað upp út frá loftljósi í upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn en síðan læst klónum í nærliggjandi hús.

Tveir veitingastaðir og skemmtistaðurinn Café Rosenberg skemmdust mikið í brunanum en mestu skemmdirna urðu á Austurstræti 22 þar sem skemmtistaðurinn Pravda var til húsa. Það hús gjöreyðilagðist og þurfti að rífa það tveimur vikum eftir brunann.

Austurstræti 22 var eitt elsta hús borgarinnar, reist árið 1801, og um tíma var þar landsyfirréttur Íslands. Í húsinu bjuggu einnig frægar persónur úr Íslandssögunni eins og Jörundur hundadagakonungur og Trampe greifi. Í gegnum tíðina hafa verið bæði verslanir og veitingastaðir í húsinu. Eitt sinn var þar verslunin Karnabær og síðar skemmtistaðurinn Astró. Árið 2003 var skemmtistaðurinn Pravda opnaður í húsinu.

Húsið var endurbyggt í upprunalegum stíl og hýsir í dag veitingahúsið Caruso.

DV 24. mars 2010

Batteríið

Einn skammlífasti skemmtistaður Reykjavíkur var Batteríið sem staðsett var í Hafnarstræti 1 til 3, við hliðina á Fálkahúsinu svokallaða.

Vorið 2009 var Batteríið stofnað og var Eyjólfur Kristjánsson tónlistarmaður framkvæmdastjóri þess. Staðurinn var ekki ætlaður fyrir ungmenni heldur var áherslan sett á fólk á fertugsaldri og upp úr.

Tæpu ári síðar, þriðjudagsmorguninn 23. mars árið 2010, var allt tiltækt lið slökkviliðs kallað út þar sem eldur hafði komið upp í Batteríinu. Slökkvistarf gekk vel en nokkur hætta skapaðist vegna gaskúta sem geymdir voru innandyra en það tókst að koma kútunum út og kæla þá.

Bruninn var blóðtaka fyrir rokkhljómsveitina Mínus sem höfðu haldið tónleika á staðnum á föstudeginum. Hljóðfærin voru í geymslu á staðnum þegar bruninn varð og skemmdist stór hluti þeirra. Krummi Björgvinsson sagði tjónið ekki aðeins fjárhagslegt heldur tilfinningalegt líka.

Tryggingamál staðarins enduðu fyrir Hæstarétti og var Verði gert að greiða eigendum Batterísins 20 milljónir króna en tryggingafélagið hafði gert athugasemdir við umfang tjónsins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“