Árið 1989 fékk Sýn hf. leyfi fyrir stöðinni en að því samstarfi stóðu DV og Bíóhöllin. Sýn hf. kom stöðinni hins vegar ekki í loftið og keypti Stöð 2 leyfið í maímánuði ári síðar.
Til að byrja með var stöðin aðallega notuð til þess að sjónvarpa þingfundum.
Á seinni hluta tíunda áratugarins var alls kyns bandarískt skemmtiefni sýnt á Sýn, þar á meðal mikið af erótískum myndum, hryllingsmyndum og bardagaþáttum á borð við American Gladiators.
Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, gerði dagskrá stöðvarinnar að umtalsefni í þinginu og spurði menntamálaráðherra hvort dagskráin samræmdist lögum.
„Þessi sjónvarpsstöð sýnir grófara klám en nokkru sinni hefur sést í íslensku sjónvarpi.“
Síðar varð Sýn að hreinræktaðri íþróttastöð en breytti um nafn og varð að Stöð 2 Sport árið 2008.