Skemmtikrafturinn og ofurkonan Lady Gaga er ekki óvön því að setja Internetið á hliðina. Þetta hefur hún ítrekað gert með vali sínu á fatnaði, en umtalið hefur sjaldnast verið í líkingu við klæðaburð hennar á viðburði á vegum tímaritsins Elle nú á dögunum. Þangað mætti Gaga klædd í jakkafötum frá Marc Jacobs í yfirstærð, sem óhætt er að segja að hafi rakið upp stór augu.
Fólk var ekki lengi að snúa sér að samfélagsmiðlum og reita af sér hvern brandarann á eftir öðrum. Eins og venjulega kippti Gaga sér þó ekkert upp við ummæli fólks, en þegar hún mætti á sviðið til að flytja ræðu kom í ljós að fatavalið hafi verið hluti af persónulegri yfirlýsingu.
Í ræðu sinni sagðist hún hafa mátað um tíu mismunandi kjóla en táraðist svo þegar hún kom auga á jakkafötin stóru. Þá rifjaði hún upp minningu þegar hún varð fyrir kynferðislegri áreitni, nítján ára gömul, af manni í skemmtanaiðnaðinum sem klæddist þessum sömu jakkafötum.
„Í þessum jakkafötum leið mér eins og sjálfri mér í dag. Í þessum fötum fann ég fyrir sannleikanum um það sem hefur lengi hrjáð mig. Með þessu áttaði ég mig á því sem mig langaði að segja hér í kvöld,“ segir Gaga meðal annars í ræðu sinni.
„Sem fórnarlamb kynferðisofbeldis, sem kona sem er ekki enn nógu hugrökk til að nafngreina manninn, sem kona sem lifir með stöðugan sársauka, sem konu sem var kennt á ungum aldri að hlusta á það sem karlmenn sögðu mér að gera, þá langaði mig til að taka völdin í mínar hendur. Nú geng ég í buxunum.“