Breski leikarinn Hugh Grant var eitt sinn á meðal eftirsóttustu gamanleikara í Hollywood og hefur mikið sérhæft sig í rómantískum gamanmyndum. Segir fyrrum hjartaknúsarinn núna að sá fugl sé floginn.
Hinn 57 ára gamli Grant segir að hann hafi einfaldlega ekki áhuga á því að leika sjarmör lengur, sem hann telur vera fylgihlutur þess að verða orðinn „of gamall og ljótur“ en býður sú staðreynd í rauninni upp á miklu fjölbreyttari hlutverk að hans mati.
Bætir Grant við að séu breyttir tímar og hafi hann áhuga á fleiri hlutverkum í sjónvarpsþáttum. „Einu sinni voru kvikmyndastjörnur með mjög snobbað hugarfar gagnvart sjónvarpsleik, en það hefur allt breyst mjög hratt,“ segir leikarinn við tímaritið Radio Times.
Þess má geta að Grant hefur leikið í fleiri en tíu rómantískum gamanmyndum síðan hann öðlaðist heimsfrægð með kómedíunni Four Weddings and a Funeral fyrir 24 árum síðan.