Flestir bursta tennurnar að minnsta kosti tvisvar á dag en hugsanlega gera margir ýmis mistök við burstunina sem geta jafnvel dregið úr gagnsemi hennar. Hér verða nefnd til sögunnar tíu atriði sem eru slæm fyrir tannhirðu og vernd tannanna.
1. Að bursta tennurnar eftir morgunmat. Það er best að bursta tennurnar um leið og farið er á fætur því þá er hægt að fjarlægja þær bakteríur sem hafa myndast í munninum yfir nóttina. Eftir morgunmat er nóg að skola með munnskoli.
2. Ekki skola munninn eftir tannburstun. Ef þú gerir það þá skolar þú flúorinu í tannkreminu í burtu en það er mjög gott fyrir tennurnar og á sinn þátt í að koma í veg fyrir holumyndun. Þess vegna á bara að spýta tannkreminu út úr sér og sleppa því að skola.
3. Ekki bursta tennurnar strax eftir mat. Það er best að bíða í 30-40 mínútur eftir máltíð með að tannbursta því þá hefur munnvatnið haft tíma til að koma jafnvægi á ph-gildið í munninum en það lækkar þegar fólk borðar eða drekkur. Ef það er burstað strax eftir mat þá fara munnsýrur inn í tennurnar og valda skemmdum á glerungnum.
4. Ekki nota tannbursta með of stífum hárum. Best er að nota tannbursta með miðlungsstífum hárum. Ef bursti með of stífum hárum er notaður þá skaðar það góminn, tannholdið og glerunginn.
5. Ekki borða á milli mála. Það er ekki gott fyrir tennurnar ef borðað er á milli mála. Þeim mun oftar sem tennurnar komast í snertingu við mat þeim mun meiri líkur eru á að tannskán myndist og það getur ýtt undir holumyndun. Ef þú ræður ekki við nartþörfina þá er best að borða hrátt grænmeti sem getur hjálpað til við hreinsun tannanna eða ósaltaðar hnetur sem eru ríkar af kalsíum og D-vítamíni sem halda tönnum og gómi heilbrigðum.
6. Að nota tennurnar sem upptakara. Það segir sig eiginlega alveg sjálft að það er ekki góð hugmynd að nota tennurnar sem upptakara eða til að opna ýmsar aðrar umbúðir. Það eykur líkurnar á að tennur losni. Ef svo illa fer að það gerist á að geyma tönnina í mjólk þar til þú kemst til tannlæknis.
7. Dökkir drykkir eru slæmir fyrir tennurnar. Dökkir drykkir eins og romm og kók eru verstu drykkirnir þegar kemur að tannheilsunni því ph-gildi þeirra er mjög lágt og þeir innihalda því mikla sýru.
8. Sætir drykkir eru ekki góðir fyrir tennurnar. Óáfengir drykkir eru margir hverjir slæmir fyrir tennurnar en ávaxtasafi er þó skárri kostur en gosdrykkir. Það dregur úr snertingu sykurs við tennurnar ef drukkið er í gegnum rör. Önnur aðferð til að draga úr skaðsemi sykraðra drykkja er að tyggja sykurlaust tyggjó strax eftir að drukkið hefur verið því það hjálpar til við að koma jafnvægi á sýrustigið í munninum.
9. Ekki nota tannþráð eftir að tannburstað hefur verið. Það er best að nota tannþráð áður en tannburstað er. Þannig losnar um matarleifar og tennurnar verða tilbúnar til tannburstunar.
10. Láttu tannþráðinn fara niður meðfram tönnunum. Það er mjög mikilvægt að nota tannþráð og það er einnig mjög mikilvægt að nota hann á réttan hátt. Þegar tannþráðurinn er á milli tannanna er best að renna honum niður eftir hlið annarrar tannarinnar og síðan niður eftir hlið hinnar. Einnig þarf að gæta þess að láta tannþráðinn fara varlega yfir tannholdið á milli tannanna. Ekki á að láta tannþráðinn fara upp og niður eftir tönnunum því það getur skaðað þær.
Það voru blaðamenn breska dagblaðsins the Independent sem tóku þennan lista saman.