Serban Raia hefur skrifað yfir hundrað bréf í von um að finna konu sem gaf honum rangt símanúmer.
Hann kynntist konunni í almenningsgarði og þekkir hana sem „Amy“. Hann er viss um að hún hafi óvart gefið honum rangt símanúmer og hefur eytt rúmlega tíu klukkustundum í að skrifa bréf til hennar. Hann dreifði síðan bréfunum um götuna þar sem hún sagðist eiga heima.
Serban segir í samtali við The Tab að hann hafi ákveðið að skrifa ástarbréfin þar sem hann fann strax sterka tengingu við Amy. Hann kynntist henni í Radford Park í Nottingham. Hann segir að þeim hafi komið vel saman og hún hafi samþykkt að fara á stefnumót með honum og gefið honum símanúmerið sitt. En þegar Serban kom heim þá áttaði hann sig á því að símanúmerið virkaði ekki.
Hann segist þó vera handviss um að um mistök sé að ræða þar sem tenging þeirra var svo sterk. „Ég vil ekki gera ráð fyrir að hún vildi ekki tala við mig,“ segir hann.
Serban skrifaði yfir hundrað bréf og bar þau í hvert hús í götunni þar sem Amy sagðist eiga heima.
„Þú varst svo glæsileg, einlæg og kynþokkafull. Mér fannst frábært að tala við þig,“ skrifaði Serban til konunnar og kvaðst ekki ætla að gefast upp.
Serban skrifaði símanúmerið sitt í hvert bréf og hefur í kjölfarið fengið fjölda skilaboða frá fólki sem fékk bréfið.
„Gangi þér vel að finna Amy, þú ert hugrakkur,“ skrifaði einn til hans.
„Serban. Ertu búinn að finna Amy? Ég bíð spenntur,“ skrifaði annar.