Svona hefst einlæg færsla Halldóru H. Halldórsdóttur á Facebook-síðu Einkaþjálfun hugans. Hún gaf DV góðfúslegt leyfi til að deila honum áfram með lesendum.
Halldóra á sjö ára gamlan son, Jakob Darra, sem er fjölfatlaður. Hún spurði sig í mörg ár af hverju henni var falið þetta verkefni, en í dag er hún þakklát fyrir það.
„Tilviljun er ekki til. Það er ástæða fyrir öllu sem gerist í lífi okkar og þegar við áttum okkur á því, þá sjáum við lífið í nýju ljósi. Eftir að ég átti elsku Jakob Darra minn, sem er sjö ára fjölfatlaður drengur, þá var ég föst í þeirri hugsun í fimm til sex ár: „Af hverju ég“ og „vá hvað ég er alltaf óheppin, það er verið að refsa mér fyrir öll mín mistök,““ segir Halldóra.
„Það var ekki fyrr en hann var um 6 ára gamall sem ég fattaði af hverju mér var falið þetta verkefni. Jú sálin okkar þarf nefnilega þrautir fyrir andlegan þroska. Verkefnin sem að alheimurinn sendir okkur geta því verið í þessu formi, að eignast fjölfatlað barn, að fá illvíga sjúkdóma eða að missa nákominn ættingja svo eitthvað sé nefnt. Ef við tökum ekki á móti þessari gjöf frá alheiminum, þá endurtekur þetta sig þar til þú loksins vaknar upp og skilur lexíuna sem á að felast í þessari reynslu.“
„Í dag sé ég að þetta var svo sannarlega gjöf frá alheiminum. Í dag sé ég þetta verkefni sem blessun og þakka syni mínum fyrir það að hafa komið inn í líf mitt til þess að kenna mér. Ég hef ósjaldan hágrátið við rúmið hans á kvöldin vegna þakklætis, þar sem ég þakka honum svo innilega fyrir að hafa tekið það að sér að koma hingað á jörðina til þess að kenna mér og okkur fjölskyldunni dýrmætan lærdóm, sem við hefðum ekki öðlast nema með komu hans. Þið getið svo rétt ímyndað ykkur breytinguna þegar maður er búin að átta sig á tilganginum með þessu verkefni. Miklu meiri og dýpri ást til hans Jakobs míns og miklu meiri virðing líka, að hann skyldi hafa tekið það að sér að eiga svona krefjandi líf á jörðinni, bara til þess að kenna okkur. Það er mjög magnað. Virkilega falleg sál sem hann er,“ segir Halldóra.
„Tilviljun er ekki til. Reyndu alltaf að leita eftir jákvæðum punktum eða lexíum úr öllum krefjandi verkefnum sem að alheimurinn afhendir þér. Vertu þakklátur fyrir þessi verkefni, þakkaðu alheiminum fyrir þau. Ástæðan fyrir þessari reynslu er til þess að gera framtíð þína bjartari, aðstoða þig við að koma auga á það hlutverk sem þú átt að sinna í þessu lífi, losa þig við ótta eða aðra leiðinda fylgifiska, kenna þér að meta þig betur sem einstakling eða að koma auga á hæfileika sem hafa legið í dvala og ekki verið nýttir,“ segir hún og bætir við að lokum:
„Oft störfum við fyrir hálfu afli og náum aldrei loka takmarkinu fyrr en við þekkjum okkur sjálf betur og þau markmið sem við eigum að vera vinna að.“