Fyrir nokkrum vikum fékk Sundee Rutter þær góðu fréttir að hún væri að sigrast á brjóstakrabbameini. En skyndilega var hún að deyja úr öðrum sjúkdómi og börnin hennar sex þurftu að kveðja hana í gegnum glugga með talstöð í hendinni.
Sundee Rutter lést úr COVID-19 þann 16. mars síðastliðinn, aðeins 42 ára að aldri. Hún var ein þegar hún dó og börnin hennar sex þurftu að kveðja móður sína í gegnum talstöð. Börnin, sem eru á aldrinum 13 til 24 ára, þurftu að kveðja föður sinn átta árum áður.
„Við horfðum á hana í gegnum gluggann og hvert okkar gat talað við hana og kvatt hana,“ segir sonur hennar, Elijah Ross-Rutter, 20 ára, í samtali við CNN.
„Ég náði að segja henni að ég elskaði hana. Þetta er frekar erfitt, því þú veist ekki hvað þú átt að segja á þessu augnabliki.“
Hann sagði móður sinni að eldri systkinin myndu hugsa vel um þau yngri. Elsta barn Sundee, hann Tyree Ross-Rutter, mun fá forræði yfir systkinum sínum sem eru 13, 14 og 15 ára.
„Við ætlum að búa öll saman og komast í gegnum þetta saman,“ segir Elijah.
Í janúar 2020 fékk Sundee Rutter þær góðu fréttir að hún væri að sigrast á brjóstakrabbameini. Þann 2. mars varð hún veik og var lögð inn á sjúkrahús. Hún lét lífið aðeins tveimur vikum seinna.
Rúmlega 70 milljón krónur hafa safnast fyrir fjölskylduna í gegnum GoFundMe.