Gildir 22. – 28. mars
Hrútur
21. mars–19. apríl
Getur verið að þú þurfir að kyngja stoltinu og viðurkenna að viss einstaklingur eigi skilið afsökunarbeiðni frá þér? Þú skalt hugsa þessa spurningu vel og vandlega og leggja þitt af mörkum til að grafa stríðsöxina. Þú skalt líka hafa hugfast að það er allt í lagi að játa mistök sín þegar manni hefur orðið á í messunni.
Naut
20. apríl–20. maí
Það hefur einhver heilsufarslegur kvilli plagað þig síðustu vikur, jafnvel mánuði, og þú hefur ekki fengið almennilegar skýringar á því hvað amar að. Nú skaltu berja í borðið, þótt við lifum á COVID-tímum, og fá úr því skorið hvað í ósköpunum sé að þér. Það er hræðilegt að lifa í óvissu, hvað þá þegar maður er aldrei fyllilega heill heilsu.
Tvíburar
21. maí–21. júní
Nú verður þú að hætta að pæla í öllum öðrum í kringum þig og hugsa um þig sjálfa/n. Þú ert búin/n að eyða svo mikilli orku í óþarfa væl og vesen að það hálfa væri nóg. Með þessu áframhaldi muntu einangra þig því, það nennir enginn að hlusta á þessi ósköp lengur. Og heyrirðu það?!
Krabbi
22. júní–22. júlí
Mikið rót hefur einkennt líf þitt undanfarið og þótt þú sért afar flippuð týpa og gerir fátt betur en að hlaupa út fyrir kassann þá þarftu samt einnig festu og öryggi í lífið. Og vegna þess að þú elskar að fara út úr boxinu þá ættirðu að einbeita þér að því sem þú getur stjórnað og búa til rútínu í kringum það. Þá líður þér miklu betur.
Ljón
23. júlí–22. ágúst
Þér finnst eins og ekkert gangi upp þessa dagana. Eitt óhappið rekur annað og stundum líður þér eins og umheimurinn þoli þig ekki. Þú ert komin/n með leiða á því að berjast í bökkum og skalt athuga hvort þú getir breytt fjármálunum á einhvern hátt þannig að þú getir betur tekist á við óvænt útgjöld sem skjóta reglulega upp kollinum.
Meyja
23. ágúst–22 .sept
Það fer algjörlega með þig þegar dagurinn raskast og það hefur gerst ansi oft upp á síðkastið. Þú skalt samt reyna að halda ró þinni og gera það sem þú þarft að gera til að láta þér líða betur. Hugsanlega þarftu að aðlagast breyttum aðstæðum; fara í göngutúr í staðinn fyrir að hlaupa á fullu eða setjast niður með góða bók í staðinn fyrir að horfa á innihaldslausa skemmtiþætti.
Vog
23. sept–22. okt
Þér gengur ofboðslega vel þessa dagana. Þú angar af sjálfstrausti og sjarma og nærð að heilla nánast alla sem þú hittir upp úr skónum. Ekki vanmeta sjálfa/n þig og gríptu þau tækifæri sem þú sérð á veginum. Vissulega hafa síðustu vikur ekki verið dans á rósum en nú stefnir allt í rétta átt.
Sporðdreki
23. okt–21. nóv
Einhleypir sporðdrekar eiga ekki sjö dagana sæla, því alveg hreint hræðileg ástarsorg bankar upp á. Það er langt síðan hjarta þitt hefur verið svo kramið og þú veist ekki í hvorn fótinn þú átt að stíga. Þú íhugar að gera eitthvað virkilega heimskulegt, en ekki gera það – þér mun aðeins líða margfalt verr ef þú ferð að láta eins og bjáni.
Bogmaður
22. nóv–21. des
Vinur í vanda sækir þig heim og leitar að húsaskjóli til að losna úr ömurlegum aðstæðum. Þú getur ekki annað en samþykkt það en grunar samt að einhver maðkur sé í mysunni. Áður en langt um líður færðu grunsemdir þínar staðfestar og þótt það sé sárt þá er þessi sannleikur eitthvað sem þú þurftir að fá að heyra.
Steingeit
22. des–19. janúar
Það er ekki oft sem steingeitin fær nóg en nú er komið að því. Þú ert búin/n að vera mjög þolinmóð/ur að hlusta á vandamál náins fjölskyldumeðlims en nú er komið nóg. Nú þarftu að spyrna niður fótunum og segja það sem þér virkilega býr í brjósti. Vissulega getur þessi fjölskyldumeðlimur orðið sár því sannleikurinn særir stundum, en hann jafnar sig.
Vatnsberi
20. janúar–18. febrúar
Árið hefur leikið þig frekar vel og heppnin elt þig á röndum. Viðhorf þitt til lífsins er afar gott og þú virðist geta tekist á við hvað sem er. Þú skalt halda áfram að styrkja þig, því holskefla vandamála er á leiðinni, sem þú kemst vel í gegnum ef þú spilar rétt úr spilunum. Ekki örvænta og veldu þér vini varlega.
Fiskar
19. febrúar–20. mars
Þú hefur verið að efast um þig sjálfa/n undanfarið og finnst ekkert nógu gott sem þú snertir. Þetta eru óþarfa áhyggjur, en eru samt sem áður byrjaðar að smita út í vinnu þína og einkalíf. Ef þú grípur ekki í taumana fljótlega mun líf þitt verða ansi lítilfjörlegt og þú munt varla þora að taka eina einustu ákvörðun í átt til betri vegar.
22. mars – Rakel Logadóttir knattspyrnukona, 39 ára
23. mars – Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, 55 ára
24. mars – Sveinn Kjartansson matreiðslumaður, 57 ára
26. mars – Reynir Lyngdal leikstjóri, 44 ára
26. mars – Glowie söngkona, 23 ára
27. mars – Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, 82 ára
28. mars – Harpa Arnardóttir leikkona, 56 ára