fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025

Oddný hefur misst 70 kíló – Hamingja og þyngdartap haldast ekki í hendur – „Það er lygi“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 31. janúar 2020 12:41

Oddný Ragna Fahning.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Oddný Ragna Fahning er 23 ára. Síðustu átján mánuði hefur hún misst rúmlega helming af líkamsþyngd sinni. Hún var 130 kíló en er í dag 60 kíló. Oddný neyddist til að fara í megrunaraðgerð eftir bílslys. Hún segir það hafa verið ákveðið áfall á sínum tíma. Oddný vill hrekja þá mýtu að hamingja og þyngdartap leiðist hönd í hönd.

„Það halda allir að um leið og þú léttist þá bætist sjálfsmyndin og álitið. Það er lygi. Ég hef aldrei átt jafn erfitt með sjálfsímynd mína og núna, eftir að hafa tapað þyngdinni,“ segir hún.

Oddný deildi þessari mynd á Facebook . Hún segir að það hafi tekið hana langan tíma að hafa sig í að birta myndirnar. Hún segir: „Þetta var í fyrsta sinn síðan ég byrjaði að léttast þar sem ég horfði á líkamann minn og fannst hann fallegur, þrátt fyrir alla sína galla!“

Tíu ár af megrunarkúrum

„Um leið og ég fór á kynþroskaskeiðið þá byrjuðu að safnast á mig kílóin. Löngu seinna kom í ljós að ég væri með hormónasjúkdóminn PCOS (e. fjölblöðrueggjastokkaheilkenni). Þrátt fyrir tíu ár af megrunarkúrum og alveg helling af hreyfingu þá bara gerðist ekki neitt. Það var ekkert að frétta. Svo lenti ég í bílslysi sem að skaddaði á mér lifrina og það urðu talsverðar skemmdir á henni. Af því að ég var í svona mikilli yfirþyngd þá var ég nú þegar með það sem kallast „fitulifur.“ Mér var sagt að ég hefði tvo valkosti. Annað hvort gæti ég farið í magahjáveituaðgerð eða ég þyrfti að biðja systkini mín um hluta af þeirra lifur,“ segir Oddný.

„Til þess að lifrin gæti læknað sig sjálf þurfti ég að létta mig og þetta var eina leiðin þar sem ég gat gert það nógu hratt.“

Þetta var ekki auðveld ákvörðun að taka en Oddný kaus að fara í aðgerðina. „Þetta var eiginlega smá sjokk. Það liðu tvær vikur á milli þess að læknirinn klíndi þessu framan í mig og ég fór í aðgerðina.“

Oddný gekkst undir mini-hjáveituaðgerð, sem er nýlegt afbrigði af hjáveituaðgerð.

Fyrstu myndirnar sem Oddný tók af sér til að fylgjast með árangrinum.

Hefur misst 70 kíló

Oddný var 130 kíló þegar hún fór í aðgerðina og er í dag 60 kíló. Við báðum hana um að lýsa sinni upplifun af þyngdartapsferlinu síðustu átján mánuði.

„Það er náttúrlega mikið upp og niður. Það er alveg smá sjokk þegar fötin sem hafa passað á þig í mörg ár líta allt í einu út eins og svartir ruslapokar á þér. Þú endurnýjar helling í fataskápnum og svo líða sex mánuðir og þú þarft að gera það aftur. Það getur haft rosaleg áhrif á hugann þegar maður er enn þá í stærri fötunum,“ segir Oddný og lýsir því nánar.

„Það er einhvern veginn allt svo laust utan á þér. Þér finnst þú einhvern veginn ekki passa inn í nokkurn skapaðan hlut lengur. Hvorki fötin þín né eigin húð. Þetta virkilega lækkar sjálfsálitið. Að vera í of stórum fötum getur oft verið frekar óhefðbundið og óaðlaðandi.“

Sjálfsöryggi kom ekki með þyngdartapinu

Aðspurð hvort hún lýsi upplifuninni sem jákvæðri segist Oddný gera það að vissu leyti.

„Þetta var auðvitað smá rússíbani upp og niður. Á vissum tímapunktum finnst mér alveg frábært að vera búin að missa þetta og mér finnst ég mjög sjálfsörugg. En það er eins og það sé falskt sjálfsöryggi. Að það sé meira upp á útlit þegar maður er búinn að gera sig fína, heldur en að ég sé virkilega ánægð með mig sjálfa,“ segir Oddný.

Að sögn Oddnýjar kom sjálfsöryggið ekki sjálfkrafa með þyngdartapinu. „Engan veginn. Það er stundum eins og ég upplifi mig sjálfa sem enn 130 kíló á vissan hátt. Ég fer alltaf strax í fataverslanir fyrir stærri konur eða fatadeildir fyrir stærri konur, því ég er vön því,“ segir hún.

Oddný í dag.

Var greind með sykursýki

Oddný segist þó vera ánægð að hafa farið í aðgerðina. „Þetta var mun heilbrigðari kostur fyrir mig til langtíma. Ég greindist með PCOS þegar ég var átján ára sem gerði mér mjög erfitt fyrir að léttast,“ segir hún.

„Óprúttinn heimilislæknir í smábæ á Íslandi greindi mig með sykursýki 2 þegar ég var tólf ára. En síðar fékk ég útskýringu á því að það væri hluti af fjölblöðrueggjastokkaheilkenni.“

Opnaði sig á Facebook

Oddný opnaði sig um þyngdartapið og áhrif þess á sjálfsmynd sína í einlægum pistli á Facebook. Hún segist hafa gert það til að vekja fólk til umhugsunar að það sé ekki nóg að einblína aðeins á töluna á vigtinni, heldur skiptir hausinn meira máli.

„Það sem ég vildi gera með því að segja sögu mína var að sýna að þetta er ekki allt dans á rósum. Þú verður ekki endilega hamingjusöm ef þú léttir þig. Þú getur hjálpað sjálfri þér með því að læra að elska þig eins og þú ert. Það kemur alltaf til með að vera eitthvað sem þér líkar ekki vel við sjálfa þig, hvað sem það er,“ segir Oddný.

„Mér finnst frábært að ég gat dregið það fram í öðrum að geta sýnt þeim að þau eru ekki ein með þessar hugsanir og þessar tilfinningar.“

Færslan vakti mikil viðbrögð sem kom Oddnýju á óvart. Hún vil þakka þeim sem sýndu henni stuðning.

„Takk fyrir viðbrögðin sem ég fékk og falleg og hlýhuguð orð frá öllum sem tóku þátt og svöruðu mér.“

Oddný hefur misst 70 kíló.

Gott að fara frá Íslandi

Oddný flutti til Kanada í febrúar 2019 en hefur verið á milli Íslands og Kanada síðan 2013, þegar foreldrar hennar fluttu þangað.

Hún segir flutninginn frá Íslandi hafi hjálpað henni mikið við sjálfsmyndina. „Það var gott að komast í nýtt umhverfi, kynnast nýjum félagsskap og opna leiðir að nýjum tækifærum,“ segir hún.

Í framtíðinni sér Oddný fyrir sér að hún fari í aðgerð til að láta fjarlægja lausa húð en ekki fyrr en hún hefur eignast þau börn sem hún ákveður að eiga.

„Ég held að það væri sóun á pening,“ segir hún og hlær.

Að lokum gefur Oddný lesendum góð ráð.

„Flestir ættu að leggja sig fram að virkilega þekkja sjálfan sig og læra að elska sjálfan sig, þrátt fyrir sína litlu eða stóru galla. Því það er alveg séns á því að enginn sér það nema þú. Þú þarft að læra að lifa með þér það sem eftir er,“ segir Oddný

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Andri og Björn segja Aron flytja falsfréttir – „Ég borgaði mikið“

Andri og Björn segja Aron flytja falsfréttir – „Ég borgaði mikið“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Segja að norðurkóreskir hermenn falli eins og flugur

Segja að norðurkóreskir hermenn falli eins og flugur
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Chelsea og Manchester United taka slaginn

Chelsea og Manchester United taka slaginn
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum
Bjóða aftur í Trent
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Eldræða Amorim: Segir lið sitt hugsanlega það versta í sögunni – „Gjörið svo vel, þarna er fyrirsögnin ykkar“

Eldræða Amorim: Segir lið sitt hugsanlega það versta í sögunni – „Gjörið svo vel, þarna er fyrirsögnin ykkar“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.