Þú þarft ekki alltaf að nota sterk og jafnvel stórhættuleg efni til að ná illviðráðanlegum óhreinindum í burtu. Það sannaði kona ein á dögunum þegar hún notaði majónes til að hreinsa lím af glugga í stofunni heima hjá sér.
Það kannast eflaust margir við að erfitt getur verið að ná lími eftir límmiða af hörðum flötum. Konan sem um ræðir, Lauren Jeffery, segir að fyrri eigendur hússins sem hún er nýflutt inn í hafi augljóslega verið mikið fyrir límmiða. Það reyndist hins vegar þrautin þyngri að ná öllu líminu af eins og sést á vinstri hluta myndarinnar hér að ofan.
Lauren hafði lesið sér til um að majónes gæti gagnast í tilvikum sem þessum. Hún bar því majónes á gluggann, leyfði því að standa í hálftíma áður en hún þurrkaði það af. Óhætt er að segja að glugginn hafi verið eins og nýr eins og sést til hægri á myndinni.