Hótelerfinginn og raunveruleikastjarnan Paris Hilton er umfjöllunarefni í nýrri heimildarmynd sem heitir This is Paris, eða Þetta er París. Myndin fjallar um Paris sjálfa og á að sýna áhorfendum hver hún í raun og veru er, eða með öðrum orðum, myndin á að rýna vel í persónu Paris og kafa djúpt inn í hugarheim hennar.
Í viðtali þar sem Paris kynnti heimildarmyndina greindi hún frá því að í myndinni opni hún sig um gífurlega erfiða reynslu hennar úr heimavistarskóla.
Öskrað frá morgni til kvölds
Paris gekk í heimavistarskólann Provo Canyon og segir að á þeim 11 mánuðum sem hún dvaldi þar hafi hún verið beitt ofbeldi af starfsmönnum.
„Þetta átti að vera skóli en nám var ekki aðalatriðið þarna. Frá því að ég vaknaði á morgnanna og allt þar til ég fór að sofa aftur, þá var öskrað á mig, ég var skömmuð og viðvarandi pyntingar,“ sagði Paris.
„Starfsfólkið sagði hryllilega hluti við mig. Þau létu mér stöðugt líða illa með sjálfa mig og beittu mig einelti. Ég held að þeirra eina markmið hafi verið að brjóta okkur niður. Og þau beittu okkur líkamlegu ofbeldi, lömdu okkur og tóku okkur hálstaki. Þau vildu að við værum hrædd, of hrædd til að þora að óhlýðnast þeim“
Paris greindi einnig frá því að fleiri nemendur skólans komi fram í heimildarmyndinni og staðfesti frásögn hennar og greini þar að auki frá eigin reynslu. Sum þeirra voru neydd til að taka inn lyf og voru bundin föst.
Óttaðist að verða ekki trúað
Paris segir að hún hafi ekki þorað að segja fjölskyldu sinni frá ofbeldinu sem hún varð fyrir í skólanum, því hún óttaðist það að þau myndi ekki trúa henni. Hún hafði verið send í skólann því hún hafði verið í uppreisnarhug og ítrekað farið gegn óskum foreldra sinna.
„Það var svo auðvelt að læðast út til að komast á skemmtistaði eða í partý. Foreldrar mínir voru svo strangir að ég vildi bara gera uppreisn. Þau refsuðu mér með því að taka af mér símann, greiðslukortin, en það virkaði ekki. Ég fór samt út“
Í skólanum reyndi hún að greina foreldrum sínum frá, en starfsfólk kom í veg fyrir það.
„Við fengum að tala við fjölskyldur okkar svona einu sinni á tveggja til þriggja mánaða fresti. Við vorum einangruð frá umheiminum. Þegar ég reyndi einu sinni að segja þeim frá aðstæðum þá kom ég mér í svo mikil vandræði að ég þorði varla að reyna aftur. Þau rifu af mér símann og rifu í sundur bréfin sem ég skrifaði og sagði við mig „Enginn mun nokkurn tímann trúa þér“. Og starfsfólkið sagði svo foreldrum að börnin væru að skrökva. Þess vegna vissu foreldrar mínir ekki hvað var í gangi.“
Vill leggja þessa reynslu að baki sér
Paris segir að hún hafi engan hug á að lögsækja skólann. Hún vilji hins vegar stíga fram með sögu sína til að vekja athygli á málefninu og til að hjálpa henni að leggja þessa reynslu að baki.
„Mér finnst eins og martröðin mín sé búin. Og ég ætla að horfa á myndina með foreldrum mínum – ég held að það verði gott fyrir okkur, en líka tilfinningaþrungið. Það eru engin leyndarmál okkar á milli lengur.
Ég vil að skólum á borð við minn verði lokað. Ég vil að einhverjir verið látnir sæta ábyrgð. Og ég vil vera rödd fyrir börn, og núna fullorðna, sem hafa gengið í gegnum álíka reynslu og vil stöðva þetta til frambúðar. Ég mun gera hvað ég get til að gera það að veruleika.
Myndin This is Paris verður sýnd 14. september á YouTube-síðu Paris Hilton.