Valentina Sampaio er fyrsta transfyrirsætan á forsíðu Sports Illustrated . Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi 23 ára fyrirsæta skrifar nafn sitt í sögubækur tískunnar því hún var fyrsta transkonan á forsíðu tískubiblíunnar Vogue árið 2017 og síðasta sumar varð hún fyrsta transfyrirsætan á launaskrá nærfatarisans Victoria’s Secret. En þessir persónulegu sigrar Valentinu hafa ekki verið auðveldir og hún hefur þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum. Valentina er gallsharður stuðningsmaður baráttu transfólks , ekki síst í heimalandi sínu Brasilíu, þar sem það er beinlínis lífshættulegt að vera hluti af transsamfélaginu en árið 2019 voru framin 129 morð á transfólki þar í landi. „Brasilía er fallegt land en þar eru framdir flestir ofbeldisglæpir gegn transfólki í heiminum – þrisvar sinnum fleiri en í Bandaríkjunum,“ segir Valentina.
Í opnu bréfi sem hún birti á Instagram síðu sinni og heimasíðu Sports Illustrated segir hún langþráðan draum hafa ræst og þakkar blaðinu þetta einstaka tækifæri sem henni hafi hlotnast. Hún þakkar einnig öllu því ötula fólki sem barist hefur fyrir réttindum transfólks í gegnum tíðina sem hefur gert henni auðveldara fyrir að ná sínum markmiðum. Og hún ætlar ekki að láta þar við sitja heldur halda áfram að leggja sín lóð á vogarskálina. „Ég er staðráðin í því að halda áfram að vaxa og dafna svo ég geti rutt brautina fyrir aðra,“ segir þessi flotta fyrirmynd.