Beatriz Pugliese er 25 ára gömul og býr í Sao Paliz í Brasilíu. Hún fæddist með húðsjúkdóm sem kallast giant congentital melanocytic nevus skin disorder. Hann veldur því að líkami Beatriz er að 80 prósentum þakinn fæðingarblettum. Netmiðillinn Truly fjallar um Beatriz í nýjum þætti af Shake My Beauty.
Beatriz fæddist með fæðingarblett yfir allan kviðinn, hægri handlegg og á nokkrum stöðum á fótleggjunum.
„Með aldrinum fóru minni fæðingarblettir að myndast um allan líkama. Þeir eru alls staðar, meira að segja undir iljunum,“ segir Beatriz.
Beatriz hefur gengist undir tugi aðgerða til að fjarlægja fæðingarbletti. Fyrsta aðgerðin var gerð þegar hún var sex mánaða gömul. En að lokum ákvað Beatriz að hætta í meðferðinni. „Ég gat þetta ekki lengur. Ég sá engan tilgang í að gangast undir fleiri aðgerðir. Ég samþykki mig núna alveg eins og ég er.“
Fjölskylda Beatriz hefur ávallt komið fram við hana eins og alla aðra. „Ég fékk ekki sérstaka meðferð. Þau komu ekki fram við mig eins og ég væri öðruvísi. Það er ástæðan fyrir því að ég sé svona örugg. Mamma leyfði mér að klæða mig eins og ég vildi, vera í stuttbuxum og þannig,“ segir Beatriz.
Móðir hennar kemur einnig fram í þættinum. „Læknirinn sagði að ef ég myndi reyna að fela hana þá myndi það skapa ýmis vandamál. Hún myndi loka sig frá umheiminum,“ segir hún.
Þrátt fyrir eðlilegt uppeldi og gott sjálfstraust var Beatriz auðvelt skotmark fyrir eineltisseggi. Hún rifjar upp eftirminnilegt atvik sem situr enn í henni.
„Einn strákur sagði öllum í skólanum að ég væri eins og api. Þetta hafði mikil áhrif á mig. Hann var óhræddur við að segja þetta við mig,“ segir Beatriz.
Beatriz kynntist eiginmanni sínum, Fellippe, fyrir sex árum. „Mér þykja fæðingarblettir hennar einstaklega fallegir. Ég segi henni meira að segja að ef það væri ekki fyrir fæðingarbletti hennar þá hefði ég ekki tekið eftir henni né laðast að henni. Ég á meira að segja uppáhalds fæðingarblett á henni,“ segir Fellippe.
Horfðu á þátt Truly hér að neðan.