fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025

Heimagerð ævintýri án mikillar fyrirhafnar

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 12. apríl 2020 10:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðustu vikur hafa með sanni sagt verið mörgum fjölskyldum strembnar. Samhliða skertu skólahaldi finna margir foreldrar fyrir eirðarleysi  hjá börnunum. Það er ekki hægt að fara í sund eða stunda hefðbundnar hópíþróttir og fyrir sum börn í sóttkví er heimilið eini áfangastaðurinn. Afþreying um páskana virðist því vera af skornum skammti en það er ýmislegt hægt að finna sér til dundurs innan veggja heimilisins.

Við fengum Sigrúnu Yrju Klörudóttur höfund rafbókar um skynjunarleiki barna til að deila með okkur nokkrum skemmtilegum skynjunarleikjum sem allir ættu að geta gert heima hjá sér.

Sigrún Yrja Klörudóttir ásamt syni sínum.

Miklu meira en bara afþreying

Sigrún Yrja heldur úti vinsælu Instagram-síðunni @alwaysremembertoplay en áhugi Sigrúnar Yrju á leik barna kviknaði þegar dóttir hennar var ársgömul.

„Ég áttaði mig á að leikur er svo miklu meira en bara afþreying fyrir börn. Það er í gegnum leik sem börn uppgötva og kanna heiminn. Það er í gegnum leik sem börn læra. Ég uppgötvaði skynjunarleiki í gegnum hangs á Instagram og fór að bjóða börnunum mínum að leika með vatn, hafra, lituð hrísgrjón og fleira. Þau gjörsamlega elskuðu það! Þegar dóttir mín var 18 mánaða gat hún dundað sér í rúman klukkutíma í slíkum leikjum. Ég þekki ekkert foreldri sem væri ekki til í svoleiðis lúxus,“ segir Sigrún Yrja.

„Ég vildi óska þess að ég hefði kynnst skynjunarleikjum mikið fyrr. Það er hægt að byrja að bjóða upp á ýmsar útgáfur af skynjunarleikjum frá því að börn eru aðeins nokkurra mánaða. Ég hefði viljað gera það fyrir mín börn. Þess vegna hef ég boðið upp á námskeið og skrifað rafbók um skynjunarleiki til að miðla því sem ég hef lært og gefa öðrum tækifæri til að bjóða börnum sínum upp á skynjunarleiki.“

Hvernig eru skynjunarleikir öðruvísi en aðrir leikir?

„Skynjunarleikir eru, eins og nafnið gefur til kynna, leikir sem efla skilningarvit barna. Skynjunarleikir hafa engan sérstakan tilgang eða markmið. Þeir snúast bara um að upplifa. Skynjunarleikir eru afar gagnlegir og sérstaklega fyrir ung börn þar sem þeir efla hvers kyns þroska barna og þá sérstaklega heilaþroska þeirra,“ segir Sigrún Yrja.

Færri leikföng

„Mitt besta ráð er að búa börnum þannig umhverfi að þau geti leikið sér sjálfstætt. Það er einfaldast fyrir foreldrana og dýrmætt fyrir börnin,“ segir Sigrún Yrja.

„Ef barnaherbergin eru óskipulögð og yfirfull af leikföngum getur hreinlega verið yfirþyrmandi fyrir börn að leika sér þar. Of mikið af leikföngum getur hreinlega leitt af sér minni leik. Eins undarlegt og það nú er. Nú getur verið góður tími til að fara í gegnum barnaherbergin, grisja aðeins og skipuleggja þau. Færri og einfaldari leikföng stuðla að betri leik,“ segir Sigrún Yrja.

Prófaðu að setja upp leikboð fyrir barnið þitt.

Prófaðu að setja upp leikboð

„Að setja upp leikboð fyrir börn getur hjálpað börnum að detta í góðan leik. Leikboð er þegar börnum er boðið í leik (e. invitation to play). Það má gera með því að stilla leikföngum upp á nýjan hátt eða jafnvel á nýjan stað. Það eitt að setja kubbana á stofugólfið dregið barnið í góðan kubbaleik í langan tíma. Að taka fram nokkra búninga, furðuföt eða fylgihluti getur endað í skemmtilegum búningaleikjum. Taktu mið af þroska og áhuga barnsins þíns þegar þú setur upp leikboð. Það er engin ein leið réttari en önnur,“ segir Sigrún Yrja.

Hvað er gott að hafa í huga þegar kemur að undirbúa svona afþreyingu heima fyrir börnin?

„Það sem helst þarf að hafa í huga er að taka mið af þroska, getu og áhuga hvers barns. Ef barnið þitt elskar að sulla þá er tilvalið að bjóða upp á að leika með froðu. Ef barnið þitt elskar að moka er æðislegt að leika með lituð hrísgrjón. Ef barnið þitt elskar að leika með dýr er hægt að gera grænan leir eða græn hrísgrjón fyrir gras. Ef barnið þitt elskar að leika með gröfur og vinnuvélar er hægt að gera brúnan leir fyrir mold. Það eru ótal möguleikar,“ segir Sigrún Yrja.

„Það getur vaxið manni í augum að setja upp svona leiki þegar maður hefur ekki gert áður. En það er einfaldara en maður heldur. Þó það sé smá frágangur sem fylgir þá finnst mér alveg þess virði að ganga frá í nokkrar mínútur þegar börnin hafa kannski dundað sér í upp undir klukkutíma og jafnvel meira.“

Þegar Sigrún Yrja setur upp leikboð fyrir dóttur sína getur hún gleymt sér í leik lengi.

Hugmyndir um leik

„Sjálfstæður leikur er besti leikurinn en það getur verið gaman að bjóða upp á sérstök verkefni eða leiki fyrir börnin annað slagið. Sérstaklega þegar þau eru mikið heima eins og nú er. Það þarf alls ekki að vera flókið eða tímafrekt að útbúa skemmtilega afþreyingu fyrir börnin. Hér langar mig að gefa þér þrjár hugmyndir að skemmtilegum efnivið sem má leika með á ótal vegu.“

Það er auðvelt að búa til heimagerðan leir.

Heimagerður leir

„Heimagerður leir slær alltaf í gegn á mínu heimili og það tekur bara nokkrar mínútur að búa hann til,“ segir Sigrún Yrja.

Uppskrift að heimagerðum leir

1 – 1,5 bolli hveiti

1/2 bolli salt

2 msk cream of tartar eða vínsteinslyftiduft

1 tsk matarolía

1 bolli sjóðandi heitt vatn

1 tsk matarlitur

Aðferð:

Blandaðu þurrefnum saman í skál. Bættu olíu út í. Settu matarlit út í sjóðandi heitt vatn og helltu því saman við þurrefnin. Hrærið aðeins saman, hellið svo úr skálinni á borð og hnoðið saman. Ef leirinn er of klístraður þarf að bæta við hveiti.

Leirinn dugar í nokkra daga og jafnvel nokkrar vikur ef hann er geymdur í loftþéttum umbúðum í ísskáp. Ef leirinn er klístraður eftir geymslu er hægt að hnoða hveiti saman við hann þegar á að nota hann aftur.

Það er alveg hægt að gera leir án vínsteinslyftidufts eða cream of tartar. Leirinn endist bara aðeins skemur en er alveg jafn skemmtilegur.

Litrík hrísgrjón.
Börnum þykir gaman að leika sér með litrík hrísgrjón.

Lituð hrísgrjón

Börn elska að leika sér með hrísgrjón. Þau má nota á ýmsa vegu í allskyns leiki fyrir börn á ólíkum aldri.

Til að lita hrísgrjón nota ég í grunninn 1 bolla af hrísgrjónum, 1 msk edik og 1 tsk matarlit. Allt sett í box, lokað vel og hrist saman. Lituð hrísgrjónin eru svo sett á bökunarpappír, dreift vel úr þeim og þau látin þorna í 1-3 klukkustundir eða þar til þau eru alveg þurr. Þá eru hrísgrjónin tilbúin í leik. Það er gaman að leika með mikið af hrísgrjónum í allskyns litum. Ég mæli því með að gera nokkra skammta af hrísgrjónum í ólíkum litum. Lituð hrísgrjón má nota aftur og aftur og þau geta enst árum saman.

Leikfroða er einföld, ódýr og skemmtileg
Hver hefur ekki gaman að því að leika sér í froðu.

Leikfroða

Nú um þessar mundir er leikfroða gífurlega vinsæl. Leikfroðan er dásamleg viðkomu og lyktar yndislega! Það tekur enga stund að skella í eitt gott froðupartý!

Uppskrift að froðu:

2 msk sápa (ég mæli með froðubaði en það má nota hvaða sápu sem freyðir vel)

2 msk maizena mjöl eða kartöflumjöl

4 msk volgt vatn

Matarlitur (þarf ekki)

Allt sett í hrærivélaskál og hrært saman á mesta hraða þar til froðan er orðin þykk og góð.

Ég mæli með að froðuleikur sé settur upp inni á baðherbergi og jafnvel í sturtuklefanum. Athugaðu að matarlitur getur skilið eftir lit í fatnaði og á húð.

Sigrún Yrja gaf út páskahefti með nítján skemmtilegum verkefnum og þrautum ásamt myndum til að lita. Hægt er að nálgast bæði páskaheftið og rafbók hennar á alwaysremembertoplay.com

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Leikmaður Liverpool tjáir sig um stöðuna – „Það er önnur umræða“

Leikmaður Liverpool tjáir sig um stöðuna – „Það er önnur umræða“
Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Musk skefur ekki utan af því – „Þetta verða endalok Evrópu“

Musk skefur ekki utan af því – „Þetta verða endalok Evrópu“
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Sænskur listamaður fær ósk sína um lítið hús á tunglinu uppfyllta

Sænskur listamaður fær ósk sína um lítið hús á tunglinu uppfyllta
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Datt í lukkupottinn í pakkaleiknum – Skipti á vasaljósi og besta vinningnum

Datt í lukkupottinn í pakkaleiknum – Skipti á vasaljósi og besta vinningnum
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Buðu tæpa tíu milljarða í leikmann Villa

Buðu tæpa tíu milljarða í leikmann Villa
Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

Lauflétt ráð til að sofna hraðar

Lauflétt ráð til að sofna hraðar
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Salah og stjarna Real Madrid á óskalistanum

Salah og stjarna Real Madrid á óskalistanum