Mikið hefur mætt á Ölmu Dagbjörtu Möller landlækni undanfarið vegna COVID-19 faraldursins. DV ákvað því að lesa í tarot Ölmu og athuga hvað framtíðin ber í skauti sér á þessum COVID-tímum. Lesendum DV er bent á að þeir geta sjálfir dregið tarotspil á vef DV.
Fyrsta spilið sem kemur upp hjá Ölmu er 4 bikarar. Það táknar ástandið núna. Ölmu líkar illa við að vera föst í rútínu og það er hún vissulega þessa dagana, þótt hver dagur beri með sér áskoranir og eitthvað nýtt. Hún má ekki örvænta því hún sinnir afar mikilvægu starfi og það sem henni finnst rútína líta aðrir á sem eitt mikilvægasta starf landsins. Ölmu vantar hins vegar eitthvað gefandi inn í þessa rútínu, einhvern fjölbreytileika. Hins vegar líður henni almennt vel þegar hún staldrar við og lítur yfir farinn veg, yfir afleiðingar ákvarðana sinna. Hún þarf að vera duglegri að meta það sem hún á og upplifir.
Svo er það 6 mynt. Alma er afar gjafmild manneskja, hvort sem það er á fjármuni eða tíma sinn. Hún býr yfir miklu innra jafnvægi og er ávallt mjög hreinskiptin og heiðarleg í samskiptum. Það hefur komið henni langt og fært henni mikla hamingju, bæði í vinnu og einkalífi. Því meira sem hún gefur, því meira hlotnast henni og fyrr en varir flæða nægtir inn í líf hennar sem aldrei fyrr.
Loks er það Heimurinn. Það táknar endalok þessa risastóra COVID-verkefnis, sem stundum virðist aldrei ætla að enda. Farsæld er í nánd og Alma nær að endurhlaða batteríin og fyllist af krafti og orku á ný. Hún mun upplifa einhvern ánægjulegan viðburð sem gerir hana glaða og sú gleði smitar út frá sér. Ölmu vegnar vel í starfi og tekið er eftir hvernig hún hefur tekist á við COVID-19. Svo virðist sem tækifæri erlendis frá bjóðist henni áður en árið er úti, tækifæri sem hún virðist stökkva á. Nýr kafli hefst og birta umlykur hann. Loks nær hún settu markmiði, markmiði sem hún einsetti sér að ná fyrir mörgum árum.