Þetta sagði Vardan Gevorgyan, hjá Whirlpool þvottavélaframleiðandanum, í samtali við Din Side. Hann sagði að þvottavélar séu oftast notaðar til að þvo við 30 eða 40 gráður. Það geri að verkum að bakteríur geti dafnað í þeim og valdi með tímanum súrri lykt.
Hann sagði að bakteríurnar setjist oft yst í tromlu vélanna og að í mörgum sé hún úr plasti sem geri að verkum að erfitt sé að þrífa þær. En það er hægt að koma í veg fyrir þetta að hans sögn. Besta aðferðin er að láta vélarnar þvo tómar við 90 til 95 gráður og það eigi helst að gera reglulega. Einnig eru hreingerningarprógrömm á sumum vélum sem duga vel.
Áður en slík prógrömm eru notuð er gott að hreinsa gúmmíkantinn við hurðina með rökum klút og það sama gildir um hurðina og sápuhólfið.
Hann benti jafnframt á að það geti haft alvarlegar afleiðingar ef þetta er ekki gert. Það geti til dæmis leitt til þess að vatnsleiðslur stíflist og vatn flæði um vélina og það sé ekki hreint vatn. Einnig lengja regluleg þrif líftíma þvottavélanna og það kemur sér auðvitað vel fyrir budduna.