Anítu Guðlaug segist alltaf hafa dreymt um opið eldhús í „gamaldags, retro og farmhouse“ stíl.
Hún og kærasti hennar, Kristófer Davíð, fluttu nýlega inn saman í íbúð í Laugardalnum. Hún ákvað að láta drauminn rætast og tók eldhúsið í gegn.
„Þetta var ekki svo mikið sem þurfti að gera, en ég var voðalega róleg svo þetta tók um fimm vikur,“ segir Aníta í samtali við DV.
Hún segist ekki hafa reiknað kostnaðinn nákvæmlega en hann hafi verið undir 200 þúsund krónum, ísskápnum frátöldum.
„Ég reif meira niður en ég setti upp svo það er líklegast ástæðan. Ég vildi opna eldhúsið meira og stækka aðeins rýmið,“ segir Aníta.
Hvað kom þér á óvart?
„Það kom mér á óvart hvað hlutir sem ég hélt að væru auðveldir, voru í rauninni erfiðastir. Ég væri ekki hálfnuð ef pabbi hefði ekki verið svo elskulegur að hjálpa með allt, þá meina ég að hann gerði nánast allt. Það kom mér reyndar líka á óvart, þegar ég var að byrja, hvað þetta kostaði lítið. Hillurnar voru dýrastar, sem kom mér mest á óvart,“ segir Aníta.
Aníta er hvergi hætt. „Næst á dagskrá er að sprauta skápana í eldhúsinu beinhvíta og skipta um höldur. Svo er markmiðið að skipta um þetta blessaða parket en það verður að bíða. Svo ætla ég við tækifæri að setja útiflísar við innganginn fyrir utan.“