Ferill bresk/bandarísku leikkonunnar Mischu Barton hefur ekki beint náð því flugi sem vonast var eftir. Barton var ung að árum þegar hún sló í gegn í unglingaþáttunum The OC sem sögðu frá ævintýrum nokkurra ungmenna í sólinni í Kaliforníu.
Barton var nýlega mynduð við veitingastaðinn Mr. Chow í Malibu og er óhætt að segja að hún hafi breyst þó nokkuð á síðustu árum.
Mischa Barton, sem er 33 ára, hefur tjáð sig um erfiðleika í einkalífinu eftir að þáttunum vinsælu lauk árið 2006. Þegar þættirnir voru hvað vinsælastir vildu allir allt fyrir hana gera. Það var mikið djammað á þessum árum en djammið fór svo að taka sinn toll.
Í viðtali við tímaritið People rifjaði hún upp að henni hafi verið legið á hálsi fyrir að vera allt of grönn meðan þættirnir voru hvað vinsælastir. „Það var alltaf verið að segja: Hún er allt of horuð, hún hlýtur að vera veik,“ sagði hún í viðtalinu. Svo þegar hún þyngdist var henni legið á hálsi fyrir það. „Ég gat einhvern veginn aldrei verið í réttri þyngd, að mati fólks.“
Það sem öllu máli skiptir þó er að Mischu Barton líði vel enda frábær leikkona þegar svo ber undir. Hún hefur haft mörg járn í eldinum að undanförnu og leikið í nokkrum hryllingsmyndum að undanförnu. Næsta verkefni hennar eru þó raunveruleikaþættirnir The Hills: New Beginnings.