11. mars – 19. apríl
Þú hefur sveiflast mikið í skapi síðustu vikur, elsku hrútur. Stundum ertu alveg til í tuskið og til í að hitta sem flesta á sem styðstum tíma en svo koma dagar þar sem þú varla nennir að hitta vinnufélagana við kaffivélinni. Þú þarft að finna leið til að beisla þetta skap og dýfir þér aðeins ofan í það í þessari viku með góðum árangri.
Svo færðu einhverja stórkostlega hugmynd í vikunni sem tengist samfélagsmiðlum. Passaðu þig að segja ekki of mörgum frá henni en umkringdu þig fólki sem gæti hjálpað þér á leiðarenda. Þessi hugmynd gæti nefnilega orðið ansi arðvænleg ef allt gengur upp.
Þú skalt síðan vera duglegur við að hrósa sjálfum þér, hrúturinn minn. Fólk getur ekki metið það sem þú gerir ef það hefur ekki hugmynd um hvað þú gerir nákvæmlega. Mont er aldrei sjarmerandi en sjálfsöryggi með dass af auðmýkt er það.
Lukkudagur: Miðvikudagur
Happatölur: 2, 44, 6
20. apríl – 20. maí
Þessi vika snýst öll um að velja og hafna. Það eru ótalmargir sem vilja fá hjálp þína við hin ýmsu verkefni, bæði utan vinnu og í vinnunni, og þú þarft að velja hvaða verkefni gefa þér einhverja fyllingu og hver ekki.
Það sama gildir um einkalífið. Þú getur ómögulega sinnt öllum þessum vinum þínum og kunningjum þannig að ég mæli með því að þú setjist niður og hugsi vel og vandlega um hvaða fólk á skilið tíma þinn sem er svo sannarlega dýrmætur.
Þú færð óvænta gjöf seinnipart vikunnar sem þú ert hæstánægður með en svolítið hissa að fá hana frá þeim sem hana gefur. Þessi gjöf hefur mikla þýðingu og á eftir að koma sér vel í sumar, jafnvel lengra inn í framtíðinni.
Lukkudagur: Föstudagur
Happatölur: 14, 35, 51
21. maí – 21. júní
Rosalega er búið að vera erfitt að vera þú undanfarið, elsku tvíburinn minn. Það eru miklir erfiðleikar í einkalífinu og þú hreinlega veist ekkert hvað þú átt að gera, sem er mjög ólíkt þér. Þú þarft að setja þér markmið – sjá fyrir þér hvert þú stefnir eftir 5, 10, 20 ár. Hverja sérð þú með þér á þessari vegferð? Hverja vilt þú alls ekki hafa í lífinu þínu? Þessar spurningar eiga eftir að leiða þig að svari að afskaplega erfiðri spurningu sem þú verður að svara – og það sem fyrst!
Síðan er komið að því að þú stígir út fyrir þægindarammann í vinnunni, jafnvel skiptir um vinnu til að finna ástríðuna innra með þér. Þú ert fastur í sama farinu og það gerir engum gott. Spáðu aðeins í því og taktu af skarið – ekki leyfa óörygginu að halda aftur af þér.
Lukkudagur: Sunnudagur
Happatölur: 8, 13, 49
22. júní – 22. júlí
Þú þarft aðeins að passa budduna, kæri krabbi, því þú hefur látið ansi mikið eftir þér að undanförnu. Skringileg kaup sem skilja ekkert eftir þig. Spáðu í hvað orsakar þessa hegðun. Gæti verið að það vanti eitthvað í líf þitt og þú sért að fylla tómarúm? Það verður sko aldeilis ekki fyllt með ódýrum blússum frá Kína og ónýtu glingri.
Einhleypir krabbar standa á krossgötum. Það er álitlegur vonbiðill sem tikkar í öll boxin en er langt, langt í burtu. Hvort ætlar þú að sleppa þessu tækifæri eða reyna að láta fjarsamband virka? Ég mæli með að þú skoðir seinni kostinn alvarlega.
Í byrjun vikunnar í vinnunni ættir þú síðan að byrja á því að skipuleggja þig rækilega og forgangsraða hlutum sem þarf að gera. Annars er ég hrædd um að þú vinnir yfir þig og verðir ein taugahrúga. Þú getur ekki verið alls staðar, mundu það.
Lukkudagur: Mánudagur
Happatölur: 33, 56, 70
23. júlí – 22. ágúst
Þú hefur reynt án árangurs að hafa samband við gamlan og góðan vin að undanförnu og það gerir þig stressaðan. Þú þarft nefnilega nauðsynlega að létta ýmsu af þér og þessi manneskja er sú eina sem getur tekið við öllum þínum raunum og fengið þig til að brosa. Ekki gefast upp – þú nærð á þessa manneskju fyrr en seinna og verða það stórkostlegir endurfundir sem seint gleymast.
Sumarið er á næsta leiti og þig dauðlangar að fara eitthvað langt, langt í burtu. Helst langar þig að fara með vinahópnum þínum. Hvað er að stoppa þig?! Hafðu samband, búðu til plan og láttu þetta gerast. Þú þarft á fríi frá hversdagsleikanum að halda og þú ert svo sannarlega ekki eina manneskjan í þeirri stöðu. Þessi ferð gæti verið mjög heilsubætandi, látið þig vita að þú ert ekki einn í heiminum að glíma við ýmiss vandamál og styrkt vinaböndin.
Lukkudagur: Laugardagur
Happatölur: 5, 17, 20
23. ágúst – 22 .september
Jiminn, einasti, meyjan mín. Þér finnst eins og öll heimsins vandamál liggi á þínum herðum. Hvernig væri að þú myndir bara spá í hvað þér er fyrir bestu en ekki hafa áhyggjur af öllum öðrum? Þú getur aldrei geðjast öllum og því skaltu taka þér tak, ná þínum markmiðum og hætta að spá í hvernig aðrir taka því.
Seinnipartur vikunnar verður einstaklega gleðilegur. Það er svo mikið stuð í kringum þig og þú ferð í ógleymanlega veislu sem á eftir að létta þér virkilega lundina. Þér finnst nefnilega fátt skemmtilegra en að leika á alls oddi í góðra vina hópi og það er nákvæmlega það sem gerist.
Hugaðu vel að samböndum við ástvini þína og ekki láta vinnuna vera fyrir þegar kemur að gæðastundum með fjölskyldu og maka. Þær stundir eru nefnilega afskaplega verðmætar.
Lukkudagur: Föstudagur
Happatölur: 9, 11, 79
23. september – 22. október
Það er einhver manneskja búin að vera að gera þér lífið leitt en nú kemur loksins að sáttadögum. Taktu samt öllu með smá fyrirvara og hafðu varann á ef einhver reynir að stinga þig í bakið. Hafðu allt þitt á hreinu, þar á meðal samviskuna, og ekki hafa of miklar áhyggjur af hvernig annað fólk lætur.
Það eru spennandi tímar í ástarlífinu hjá einhleypum vogum. Það eru mörg stefnumót í kortunum og eitt þeirra leiðir meira af sér en bara innantómt hjal. Þessi manneskja á eftir að hafa gríðarmikil áhrif á þitt líf þar sem hún kemur frá allt öðrum stað og allt annarri menningu en þú.
Um helgina lætur þú síðan hendur standa fram úr ermum og klára ýmislegt smálegt á heimilinu sem hefur setið á hakanum.
Lukkudagur: Þriðjudagur
Happatölur: 10, 32, 74
23. október – 21. nóvember
Þú ert búinn að vera rosalega góður í því að byrgja inni þínar tilfinningar í ástarsambandinu sem þú ert í og loksins í þessari viku springa þær út með tilheyrandi drama og hávaða. Þetta er góð áminning að vera ekkert að byrgja allt inni þar til sprengjan springur. Þegar allt springur skapar það nefnilega óreiðu sem erfitt er að greiða úr og virðist sem svo að ástarsamband þitt sé í mikilli hættu ef þú tekur ekki á honum stóra þínum.
Í vinnunni virðist þú vera búinn að draga þig í hlé til að leyfa öðrum að skína skært. Því er fólk óhrætt við að taka heiðurinn af þinni vinnu því þú segir aldrei neitt. Nú hættir þetta! Viltu gjöra svo vel að vera stoltur af því sem þú gerir og ekki láta aðra komast upp með neitt múður!
Lukkudagur: Fimmtudagur
Happatölur: 14, 50, 77
22. nóvember – 21. desember
Þú byrjar vikuna á hreinu borði í vinnunni enda ertu búinn að vera afskaplega duglegur síðustu daga og vikur við að klára það sem þú byrjar á. Þess vegna ertu mjög opinn fyrir nýjum verkefnum sem gerir það að verkum að eitthvað stórkostlegt kemst inn á borð til þín. Geggjað verkefni sem gæti breytt ýmsu.
Peningar virðast streyma til þín þessa dagana, elsku bogmaður, eftir erfiða síðustu mánuði. Þú færð einhvers konar búbót tengt vinnunni og lífið leikur við þig.
Í einkalífinu virðist vera barn á leiðinni, og allt bendir til þess að það sé þitt barn. Þvílík blessun.
Lukkudagur: Sunnudagur
Happatölur: 66, 80, 92
22. desember – 19. janúar
Þér finnst þú vera föst í sama farinu, elsku steingeit, og þráir breytingar. Þess vegna tekur þú af skarinu í vikunni og gerir eitthvað svo brjálað að fólkið í kringum þig verður steinhissa að þú hafir þetta í þér. Jiminn, einasti hvað þetta á eftir að verða gaman! Það er alltaf gott að halda fólkinu í kringum sig á tánum, taka að sér nýjar áskoranir og finna lífsneistann á ný.
Það líður að sumarfríi frá þér og þú getur ekki beðið. Þú ert búin að búa þér til langan lista yfir hluti sem þig langar að gera í fríinu og færð fólk með þér í alls kyns skemmtilegheit.
Lukkudagur: Þriðjudagur
Happatölur: 29, 37, 82
20. janúar – 18. febrúar
Nú er kominn tími á að þú hugsir vel um þig sjálfan. Farðu í heilsulind, keyptu þér eitthvað fallegt eða farðu á góðan veitingastað – bara fyrir þig, engan annan. Hugsaðu um hvað þú vilt og hvað gerir þig hamingjusaman, vatnsberinn minn.
Vatnsberar sem eiga börn þurfa einnig að eyða meiri tíma með börnunum og minna í vinnunni. Það hefur mikið mætt á þér síðustu vikur og börnin þarfnast þín sem foreldris sem hlustar á þeirra dýpstu þrár og væntingar.
Einhleypir vatnsberar lenda illa í því á stefnumóti og kynnast gjörsamlega röngum aðila. Það er allt í lagi og reynsla sem hægt er að læra af, svo lengi sem þú forðir þér strax frá þessum aðila þegar að viðvörunarbjöllurnar byrja að klingja.
Lukkudagur: Laugardagur
Happatölur: 5, 63, 99
19. febrúar – 20. mars
Þú ert búinn að vera gjörsamlega á fullu síðasta mánuðinn og nú er kominn rólegri tími þar sem þú getur slakað á og verið með fjölskyldu og vinum. Finndu eitthvað skemmtilegt til að gera með þeim sem þú elskar og sýndu þeim að þú kannt að meta þá.
Þó þú sért búinn að vera að vinna og vinna og vinna síðustu vikur virðist veskið bara léttast og léttast. Þú þarft að spá í hvert peningarnir þínir eru að fara og jafnvel búa til eyðsluplan sem þú ferð eftir í einu og öllu. Þú gætir nefnilega lent í alvarlegum fjárhagsáhyggjum ef þú heldur þessu áfram, þessari hugsunarlausu eyðslu.
Lukkudagur: Miðvikudagur
Happatölur: 37, 42, 50