Það er yfirleitt rétt áður en farið er upp í rúm að fólk man eftir að það gleymdi að skipta um á rúminu sínu og að langt sé síðan það var síðast gert. En þegar komið er að háttatíma hefur þreytan og jafnvel letin oft yfirhöndina og þessu er slegið á frest. En þetta er ekki gott því þetta getur haft heldur ógeðfelldar og jafnvel hættulegar afleiðingar.
Þetta kemur fram á vef ATTN. Það sem gerist þegar við liggjum í rúminu er að sviti, líkamsvökvar, drulla, slef, þvag, saur og vökvar tengdir kynlífsiðkun berast í lökin og sænguverin. Ef þetta fær síðan að vera í friði í langan tíma getur það endað með að þetta berst í sár eða skeinur og valdi sýkingum.
Fótsveppur getur til dæmist borist í sængurfatnaðinn og borist til annarra sem hreiðra um sig í rúminu. Ef sængurverin eru þvegin mjög sjaldan geta fyrrnefndir líkamsvökvar og annað þeim tengt komist inn í sængurnar og koddana sem eru þvegin enn sjaldnar.
Þá má ekki gleyma því að allar húðfrumurnar sem detta af okkur á nóttinni eru auðvitað sannkallað veisluborð fyrir rykmaura en þeir geta valdið ofnæmi og öndunarfærasjúkdómum.
Það er hægt að forðast þetta með því að þvo sængurfatnaðinn á 60 gráðum, eða meira, vikulega. Með því drepast bakteríur og aðrir óæskilegir gestir.
Hvenær skiptir þú síðast á rúminu þínu?