„Ég hef fengið mígrenisköst við og við síðan ég var unglingur. Ég er enn að reyna að átta mig á hvað veldur þessum miklu mígrenisköstum, en ég held að sólin gæti verið ástæðan. Tengir einhver við það?!“ skrifar leikkonan María Birta á Instagram-síðu sína við mynd af lítilli olíuflösku.
Um er að ræða CBD-olíu. CBD-olía er extract eða útdráttur úr kannabisplöntu og inniheldur efnið kannabídíól. Slík olía hefur verið mjög vinsæl vestan hafs, þar sem María Birta er búsett, en er hins vegar afar umdeild þar sem hún er unnin úr kannabisplöntunni. María Birta er afar hrifin af olíunni.
„Ég prófaði CBD fyrst þegar ég fékk mígreni í Los Angeles fyrir um fimm til sex árum, þegar það var það eina sem vinir mínir áttu sem gat linað sársaukann. Olían gerði kraftaverk á nokkrum mínútum,“ skrifar María Birta og mælir með olíunni á myndinni sem hægt er að blanda við mat eða neyta eintómrar.
„Ef þið fáið mígrenisköst þá mæli ég með því að prófa olíuna – hún hefur hjálpað mér gríðarlega mikið.“
Þess ber að geta að Matvælastofnun á Íslandi varar við notkun CBD-olíu.
„Matvælastofnun vill vekja athygli á því að innflutningur á þessum efnum er ekki bara óheimill sbr. 11 gr. matvælalaga, heldur er notkun þeirra varasöm. Notkun á efnum sem hafa lyfjafræðilega virkni fyrir ákveðinn sjúkdóm, eins og er með flest af þessum efnum, án þess að ráðfæra sig við lækni er hættuleg. Þar að auki, eins og nefnt er að ofan, eru áhrifin óþekkt og eru mögulega skaðleg til langtíma hjá heilbrigðum einstaklingum,“ stendur á heimasíðu stofnunarinnar.