Hin eina sanna Tobba Marinós, fjölmiðlakona og metsöluhöfundur, brast í grát þegar hennar heittelskaði Karl Sigurðsson bað hennar í desember. Karl gerði það í Háskólabíói á hinum víðfrægu jólatónleikum hljómsveitar hans, Baggalúts, þar sem fjöldi gesta fylgdist með. Undir lok tónleikanna sagði hann:
„Við erum allir ráðsettir menn og giftir, nema einn, svo ég var að spá: Tobba, viltu giftast mér?“
Tobba sagði já og kyssti verðandi eiginmann sinn. Fagnaði allur salurinn vel og innilega.
Knattspyrnustjarnan Gylfi Þór Sigurðsson, sem leikur með Everton í Englandi, sagði í helgarviðtali í DV síðastliðinn nóvember að hann hefði lengi ætlað sér að biðja Alexöndru Helgu Ívarsdóttur. Tók hann loks af skarið við matarborðið þar sem þau voru í fríi á Bahamaeyjum.
„Ég hef aldrei verið jafn stressaður á ævinni. Ég var búinn að fela hringinn og var með hann í rassvasanum.“
Gyfli fraus í bónorðsræðunni sjálfri sem hann hafði undirbúið, en náði að bjarga sér með nýrri sem hann spann á staðnum. „Hún sagði alla vega já,“ sagði Gylfi.
Söng- og turtildúfurnar Salka Sól Eyfeld og Arnar Freyr Frostason ákváðu, sumarið 2017, að gifta sig. Þau urðu fræg hvort í sinni hljómsveitinni, Salka með reggíbandinu Amabadama og Arnar með rappsveitinni Úlfur Úlfur, og kynntust á tónleikum.
Salka greindi frá trúlofuninni á Instagram-síðu sinni:
„Þessi spurði mig hvort ég vildi verða eiginkonan hans og ég sagði hell yeah bro!!“
Tími mikilla breytinga er þessa stundina í lífi samfélagsmiðlastjörnunnar Sólrúnar Diego. Hún er þekkt fyrir að gefa þrif- og húsráð á Snapchat og gaf út metsölubók fyrir þar síðustu jól. Hún hefur nú ákveðið að segja skilið við Snapchat og beina kröftum sínum að Instagram.
Þá eru líka breytingar á hennar einkahögum. Hún og unnusti hennar, Frans Veigar Garðarsson, eru að flytja í stórt hús í Mosfellsbænum og ganga í hnapphelduna í sumar.