Afmælisbarn dagsins í dag er Bryndís Schram, en hún er fædd 9. júlí 1938 og fagnar því áttræðisafmæli í dag.
Bryndís hefur verið í sviðsljósinu frá því hún var kjörin fegurðardrottnings Íslands þann 14. júní 1957 í Tívólí í Vatnsmýrinni. Bryndís lærði dans við Listdansskóla Þjóðleikhússins frá stofnun hans. Þar að auki lauk hún prófi í leiklist frá Þjóðleikhússkólanum og BA prófi frá H.Í. í latínu, frönsku og ensku. Síðan var hún fastráðinn dansari og leikari við Þjóðleikhúsið til 1970, en þá á fluttist hún til Ísafjarðar, þar sem hún og eiginmaður hennar, Jón Baldvin Hannibalsson, stofnuðu og stýrðu Menntaskólanum á Ísafirði fyrsta áratuginn.
Margir muna eftir Bryndísi úr Stundinni okkar, en hún sá um þáttinn árin 1979-1983, en Bryndís vann við dagskrárgerð og þáttastjórnun bæði hjá RÚV og Stöð 2. Leiknar persónur voru einkenni á þáttum Bryndísar í Stundinni okkar og þróaði Þórhallur Sigurðsson, Laddi, margar af þekktum persónum sínum þar, eins og Þórð húsvörð Eirík Fjalar.
Bryndís hefur einnig séð um leiklistargagnrýni í DV, enda alltaf viðriðin leikhúsin. Hún ritstýrði tímaritum og var um fjögurra ára skeið framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs. Þegar Jón Baldvin var sendiherra í Norður- og Suður-Ameríku og síðan í Finnlandi, Eystrasaltslöndum og Úkraínu stóð Bryndís fyrir blómlegu menningar- og landkynningarstarfi á vegum þessara sendiráða.
Bryndís og Jón Baldvin eignuðust fjögur börn; Aldísi, fædd 1959, Glúm fæddur 1966, Snæfríði fædd 1968, látin 2013 og Kolfinnu fædd 1970.
Í afmæliskveðju sem Glúmur ritar til móður sinnar á Facebook skrifar hann:
„Móðir mín Bryndís Schram er áttræð í dag. Það eitt og sér er absúrd þegar ég horfi á konuna. Gæti verið á mínu reki. Og hún situr ekki heima heklandi og prjónandi. No Sir! Hef ekki séð hana nýverið enda skilst mér að hún sé þjótandi eitthvað á járnbrautarteinum um Síberíu – eða var það Austurlandahraðlestin? Hvort heldur sem er þá er móðir mín alltaf á ferðinni út og suður. Hún kenndi mér ungum að kanna lönd og strönd. Sem og ég gerði. Það hefur ekki alltaf verið dans á rósum fyrir hana að eiga mig að syni – mun auðveldara allt fyrir mig líklega. Ég hef alltaf verið afar stoltur af móður minni sem ég tel glæstustu konu Íslandssögunnar. Að vera sonur slíkrar konu eru vissulega forréttindi – Guðs lán . Til hamingju mamma mía!“