Veronica Monique stundar dýralæknanám í Valencia á Spáni. Þar er mikið af heimilislausum dýrum, öll athvörf full og að hennar sögn lítill vilji hjá stjórnvöldum til að breyta ástandinu. Veronica hefur samhliða náminu gert sitt besta til að hjálpa. Nýlega leitað hún til kattaunnenda á Íslandi í Facebook-hópnum Spottaði kött, þar sem villiköttur í götunni hennar þurfti á aðgerð að halda.
Kóngur hverfisins, eins og hann er kallaður, er um 12 ára, en hefur verið yfirgefinn í 10 ár. „Hann er mikill karakter, með ónýta afturlöpp, hálft skott og það er bara ótrúlegt að hann hefur náð að lifa allan þennan tíma!“
Kóngur var kominn með alvarlega tannholdsbólgu, ónýtar tennur og mikla sýkingu. Því þurfti hann að komast í aðgerð til að ónýtar tennur yrðu fjarlægðar og til að fá lyfjameðferð, en aðgerðin kostaði um 100 þúsund.
„Þessi köttur eins og öll önnur dýr, á skilið gott líf en ekki að deyja kvalafullum dauða á götunni. Getið þið hjálpað mér að hjálpa honum?“ spurði Veronica kattaunnendur sem brugðust fljótt við og safnaðist fyrir aðgerðinni og ríflega það. Því mun Kóngur hverfisins ríkja áfram heill heilsu, þökk sé kattaunnendum sem láta landamæri ekki stöðva sig til að bjarga vinum sínum.