Hún hefur tekið saman nokkur ráð sem hún notar sjálf daglega og deilir með öðrum á vefsíðu sinni lindap.is. Á vefsíðunni má skrá sig á póstlista og sendir Linda reglulega út góð ráð sem nýta má sér í dagsins amstri.
Ráðin hennar Lindu:
Taktu frá tíma fyrir sjálfa þig á hverjum degi. Öll þessi atriði hér eru það sem ég geri flestalla daga ársins.
Hugleiðsla:
Það að hugleiða þarf alls ekkert að vera flókið, til að byrja með er nóg að setjast niður á rólegum stað í um fimm mínútur, draga andann djúpt inn í gegnum nefið og út aftur í gegnum nefið, 3–4 sinnum og sitja svo og leyfa huganum að róast. Allar hugsanir sem koma upp eru bara hugsanir, mundu það, þær eru ekki þú, hleyptu þeim í gegn án þess að stoppa við þær. Einblíndu á andardráttinn þinn og njóttu kyrrðarinnar, ein með sjálfri þér.
Grænn drykkur:
Borða eitthvað úr plönturíkinu daglega. Oftast er það græni drykkurinn minn. Svo er hér annar með eplum, virkar sérlega vel fyrir frísklegt útlit. Uppskrift að báðum má finna á heimasíðu Lindu.
Göngutúr:
Nauðsynlegt er að hreyfa mig eitthvað alla daga. Ég nota skrefamæli og miða við +8000 skref daglega. Það að ganga úti í náttúrunni hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu, og ef þú átt hund eins og ég, þá er það nú aldeilis ástæða til þess að fara út og hreyfa sig.
Og mundu að í öllum erfiðleikum má finna lausnir til að bæta líf sitt.