Breska leikkonan Emilia Clarke lét ekkert koma í veg fyrir að fylgjast með konunglega brúðkaupinu sem fór fram síðustu helgi, þar á meðal hátíðarfrumsýningu á nýjustu kvikmynd hennar, Solo. Þetta kemur fram í spjallþætti Jimmy Fallon og slógu þau á létta strengi þegar rætt var um brúðkaupið og ættingjana sem hún skildi eftir við frumsýninguna.
Game of Thrones-leikkonan sagðist ekki hafa fengið boð í brúðkaupið sjálft en vildi hún ómögulega missa af athöfninni. „Við vorum með frumsýningu á Star Wars myndinni sem ég leik í og vinum og fjölskyldumeðlimum var boðið. Ég ruglaði saman dögum og áttaði mig ekki á því að þetta væri á sama tíma og brúðkaupið,“ segir hún.
„Reyndar bjóst ég ekki við því að neinn frá mér myndi mæta, en annað kom í ljós. Fjölskylda mín horfði á myndina og ég horfði á brúðkaupið.“
Clarke segist hafa notið athafnarinnar en vonaðist til þess að eitthvað meira kæmi upp á eða færi úrskeiðis. „Það datt enginn einu sinni,“ segir hún. „Þetta var aðeins of fullkominn dagur.“