Ragga Nagli er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Á Facebook heldur hún úti vinsælli síðu þar sem hún birtir reglulega pistla um hreyfingu, mataræði og fleira. Í þessum fjallar hún um að við finnum mataræðið sem hentar okkur hverju fyrir sig.
Hvort sem þú klárar háskólagráðu á fjórum árum eða sjö árum er samt alltaf sami innrammaði heiðurspappírinn á veggnum.
Flúnkuný Tesla í bílskúrnum þegar þú ert fimmtugur eða sjötugur er alltaf sama blikkdósin úr smiðju Elon Musk.
Að plokka tíu kíló af smjöri af skrokknum á þremur mánuðum eða tólf mánuðum eru sömu tíuþúsund grömmin.
Ekki láta neinn troða upp á þig að árangur þurfi að gerast á hraða örbylgjunnar.
Á hverjum degi dynja á okkur myndir af hálfnöktum skrokkum íklæddum baðfatnaði sem hafa plokkað mör á ársfjórðungi.
En við fáum ekki að sjá myndir af þeim ári síðar.
Eða fimm árum seinna.
Oftar en ekki er skjótur árangur líka skammgóður vermir.
Eins og að pissa í skóinn sinn.
Það tók þig ekki bara tólf vikur að tileinka þér óheilsusamlegar venjur.
Líkaminn var heldur ekki tólf vikur að safna aukaforða í formi líkamsfitu.
Gefðu þér tíma til að búa til nýjar heilsuvenjur sem haldast út lífið.
Leyfðu þér að mistakast, læra, pirrast.
Leyfðu þér að detta niður og standa upp. Aftur og aftur og aftur.
Leyfðu fitutapi að vera dásamlega aukaverkun af þessu lærdómsferli á hraða sem líkaminn er sáttur við.
Oftar en ekki er það mun lengri tími en hinar magísku tólf vikur.