Fyrir sex mánuðum síðan missti Sigríður Grétarsdóttir fóstur eftir að hafa reynt að verða ólétt í tvö ár.
„Í dag eru 6 mánuðir síðan ég missti fóstur. Það tók 6 daga. Erfiðustu dagar sem ég hef upplifað. Það sem ég hélt að væru smá hreiðursblæðingar á laugardegi endaði sem bráðaaðgerð vegna utanlegsfósturs á föstudegi.“
Alla þessa sex daga sem það tók fóstrið að fara taldi Sigríður sér trú um að einungis væri um hreiðurblæðingar að ræða.
„Þrátt fyrir að ég sæti á móti læknum og ljósmæðrum upp á landspítala sem sögðu að þetta væri óvenju miklar blæðingar og engin skuggi sæist í sónarnum sem benti til þess að þar væri fóstur.“
Sigríður og maðurinn hennar höfðu reynt að verða ólétt í tvö ár en fyrir eiga þau saman eina átta ára gamla dóttur.
„Ég var ekki tilbúin að takast á við það að litla fóstrið sem ætlaði að þroskast í að vera litla krílið mitt væri dáið. Ég sagði við mig aftur og aftur í þessa 6 daga að þetta mætti ekki gerast því það gæti tekið önnur tvö ár að verða aftur ólétt.“
Sigríður eyddi miklum tíma uppi á Landspítala í skoðunum og blóðprufum og segir hún dagana í óvissunni renna saman í eitt.
„Á föstudagsmorgninum fór ég í blóðprufu, ég var svo kvalin af verkjum sem engin verkjatafla sló á. Ég var með kökkinn í hálsinum og þegar nafnið mitt var kallað upp og ég stóð á móti þessum yndislegu konum sem áttu bara að taka hjá mér smá blóð og ég brast í grát. Af því ég þekki þessar yndislegu konur þá spurðu þær einskis og tóku bara utan um mig og leyfðu mér að gráta.“
Seinna sama morgun hringdi Sigríður upp á Landspítala þar sem hún var orðin svo kvalin og vegna þess hve illa blóðprufurnar frá morgninum komu út var ákveðið að hún þyrfti að koma í skoðun.
„Ég hringdi í sjúkrabíl og var flutt með hraði í bæinn. Ég var ótrúlega róleg á meðan sjúkraflutningamennirnir gerðu mig tilbúna fyrir ferðina í bæinn. Yndislegir menn sem ég á aldrei eftir að gleyma en þeir hjálpuðu mér í gegnum þennan dag. Ég var róleg alla leiðina í bæinn og róleg á meðan ég fór í fleiri skoðanir. Svo tók við bið, bið að komast í aðgerð því læknarnir höfðu grun um að þetta væri utanlegsfóstur, ég var með öll einkennin. En það var ekki hægt að staðfesta það nema með aðgerð.“
Á meðan Sigríður beið eftir undirbúningi fyrir aðgerðina þyrfti hún að lesa yfir pappíra, skrifa undir pappíra og segja með hennar eigin orðum upphátt hvað væri að fara að gerast.
„Ég er að fara í aðgerð til að fjarlægja mögulegt utanlegsfóstur.“
Sigríður var ótrúlega róleg allan tímann, jafnvel þegar á skurðarborðið var komið.
„Ég get ekki útskýrt af hverju. Ég vissi að það ætti að fjarlægja fóstrið og þegar ég myndi vakna þá væri ég ekki lengur ólétt. En samt fann ég fyrir ró, einhver tilfinning sem ekki er hægt að útskýra.“
Þegar Sigríður vaknaði úr svæfingu var það fyrsta sem henni datt í hug að spyrja um var hvernig landsleikurinn hefði farið en Ísland hafði verið að spila á móti Tyrkjum þetta kvöld.
„Eftir aðgerðina kom til mín læknir. Ég var ný komin aftur upp á deild og var enn hálf sofandi og þreytt. Læknirinn sagði mér að utanlegsfóstrið hafi verið í vinstri eggjaleiðaranum og þeir þurft að fjarlægja hann. Svo sagði hann mér að hægri eggjaleiðarinn hafi verið ónýtur og þeir hafi tekið hann líka. Sem þýddi það að ég gæti aldrei orðið ólétt með venjulegum hætti aftur. Þarna datt ég út. Ég man ekki hver viðbrögð mín voru, hvort ég grét eða ekki. Ég man bara ekki neitt.“
Sigríður eyddi þremur vikum heima hjá sér eftir aðgerðina þar sem hún gekk í gegnum sorgarferli.
„Ég var heima í þrjár vikur. Ég fór í gegnum einhverskonar sorgarferli, ég var algjörlega niðurbrotin og fann fyrir miklum söknuði, ég var reið og bitur, ég var að takast á við tvenn áföll. Suma daga grét ég allan daginn, aðra daga leið mér betur og hægt og rólega fór mér að líða betur alla daga.“
Sigríði þótti erfitt að byrja að vinna aftur eftir þessa erfiðu reynslu.
„Það var mjög erfitt að byrja að vinna aftur, tíminn var búin að vera stopp í 3 vikur og allt í einu fannst mér að ég þyrfti bara að sætta mig við það sem gerðist og halda áfram. Ég var ekki tilbúin fyrir það.“
Sigríður tók ákvörðun um að halda fósturmissinum ekki leyndum heldur tala um hann upphátt.
„Ég er líka þannig gerð, mér finnst betra að vinna úr hlutunum með því að tala um þá. Það sem kom mér mest á óvart er að hversu margar konur í kringum mig höfðu lent í að missa fóstur líka, bæði konur sem ég heyrði af og konur sem ég þekki vel.“
Sigríður og maðurinn hennar byrja á glasafrjóvgunarferli eftir ellefu daga og ætla nú að reyna aftur að verða ólétt með hjálp tækninnar.
„Það líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki um þennan dag fyrir 6 mánuðum síðan, ég á aldrei eftir að gleyma honum. Ég fékk aldrei að vita hversu langt ég var komin en læknarnir töluðu um 6-7 vikur. Ég fékk að eiga litla fóstrið mitt í þann tíma, fékk að trúa því í þann tíma að eftir 9 mánuði myndi ég eignast lítið kríli, en í staðin trúi ég því að það sé pínulítil stjarna sem skín á himnum. Stjarnan mín.“