Guðný Júlíana Jóhannsdóttir eyddi meirihluta ævinnar í ofþyngd. Guðný vissi alltaf að heilsa hennar væri slæm og að mikilvægt væri fyrir hana að gera eitthvað í sínum málum en það var ekki fyrr en hún var orðin 140 kíló og líkamleg og andleg heilsa hennar orðin virkilega slæm sem hún tók ákvörðun um að breyta lífi sínu til batnaðar.
Ég hef í raun alltaf vitað að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum. Þegar ég var tvítug var ég orðin 100 kíló og fór þá á þreknámskeið sem mér þótti mjög skemmtilegt. Að námskeiðinu loknu fór ég í ræktina en léttist þó ekki og lenti í nokkrum leiðindum vegna fitufordóma sem ég hef alltaf verið mjög viðkvæm fyrir og gafst því fljótlega upp. Eftir það var ekki að ræða það að prófa ræktina aftur og þar sem ég er mjög þrjósk þá fór ég ekki aftur inn í tækjasal fyrr en haustið 2016,
segir Guðný, sem starfar við verklega kennslu á rannsóknarstofum og sinnir rannsóknarverkefnum við Háskólann á Akureyri.
Næstu ár reyndi ég annað slagið ýmislegt misgáfulegt en segja má að allar þær aðferðir hafi átt tvennt sameiginlegt. Í fyrsta lagi leit ég alltaf á þetta sem tímabundnar breytingar þar sem ég ætlaði að rífa af mér kílóin svo ég gæti hætt á „kúrnum“ og farið að njóta árangursins og matar aftur. Hitt var að allar þessar tilraunir mínar skiluðu allar sama árangri; geðvonsku, vonbrigðum, nákvæmlega sömu tölu á vigtinni eða jafnvel hærri og sjálfsniðurrifi fyrir að hafa mistekist enn einu sinni.
Guðný tók þó aldrei megrunarlyf og offituaðgerðir komu ekki til greina að hennar mati.
Ég vissi alltaf að það var ekki mín leið. Síðan gerðist það á ákveðnum tímapunkti, eftir að mér hafði mistekist svo oft að það fór í gang svona „fokk-it“-ferli þar sem ég einfaldlega gafst upp. Ég væri feit og ég yrði það alltaf, það væri ekkert sem ég gæti gert. Það tók mig töluverðan tíma að koma mér upp úr þeim hugsunum og að öðlast trú á sjálfa mig aftur, að ég gæti þetta víst.
Systir Guðnýjar fékk sér hund og hún fór að vera dugleg að draga Guðnýju með sér í göngutúra.
Hún notaði það sem afsökun að hún þyrfti hjálp við að hreyfa Sambó, hjálp sem gerði að verkum að hún var tvisvar til þrisvar sinnum lengur að fara sömu vegalengd og þurfti að hlusta á tuðið í mér allan tímann. Við þetta fór mig að langa til þess að geta hreyft mig án þess að standa á öndinni og vera gjörsamlega búin á því þegar heim kæmi. Ég sá svo grein um konu sem, líkt og ég, hafði verið of þung en tekist að létta sig og ná markmiðum sínum. Ég hugsaði með mér að þetta væri kannski hægt og þegar ég las greinina og skoðaði myndirnar þá var eitthvað við frásögn hennar sem kveikti í mér.
Guðný hóf því að taka til í sjálfri sér og þann 1. ágúst árið 2016 var hún tilbúin fyrir lífsstílsbreytingu.
Ef hugurinn er ekki á réttum stað og þú trúir ekki á verkefnið þá mun það ekki ganga upp. Það er að minnsta kosti mín skoðun og því byrjaði ég á því að taka til í sjálfri mér. Ég velti því mikið fyrir mér hvað ég væri tilbúin að gera, hvaða breytingar ég gæti gert núna sem ég væri reiðubúin að viðhalda, myndi enn nota eftir fimm ár eða tíu ár, því ólíkt fyrri kúrum þá ætlaði ég ekki að fara til baka heldur vildi ég búa til nýjar, góðar venjur og siði.
Guðný byrjaði á því að taka út nánast allan sykur og mikið af því brauði sem hún innbyrti.
Það að taka út sykurinn var erfiðara en brauðið, sérstaklega vegna þess að ég var mjög mikið fyrir allt sem var sætt. Ég hætti einnig að drekka undanrennu því ég drakk alveg svakalega mikið af henni, eða um 2–3 lítra á dag sem eru um 600–1.000 hitaeiningar. Maður vill nefnilega gleyma hitaeiningunum sem maður drekkur, eða ég gerði það allavega. Í dag borða ég aðallega skyr, hafragraut, gríska jógúrt, múslí, mikið af ávöxtum og grænmeti, alls konar fisk, kjöt og kjúkling. Ég borða í raun flestallan mat í hófi en reyni að gæta þess að borða ekki mikið unnin matvæli. Ég vigtaði allan mat í byrjun og skráði hjá mér, í dag vigta ég enn annað slagið en er hætt að skrá það niður nema eitthvað sérstakt sé.
Guðný segir að ferlið að betri lífsstíl hafi verið erfitt en einnig gaman.
Ákveðnir þættir voru mjög erfiðir, eins og að leita sér aðstoðar, fara í ræktina og ýmislegt sem ég áleit ómögulegt, eins og að fá föt fyrir ræktina. Það var mjög erfitt að fá föt sem pössuðu yfirhöfuð, hvað þá íþróttaföt í stórum stærðum, hér á Akureyri. Matarkostnaðurinn er mun hærri þegar verið er að kaupa hollari fæðu og þar sem þetta gerðist svo hratt þá var ég rétt búin að fá ný föt þegar þau voru orðin of stór, sérstaklega buxur og íþróttatoppar. Sem betur fer var ég í vinnu og gat gert þetta og sé sko alls ekki eftir því.
Guðný fann fyrir mikilli þreytu og máttleysi þegar hún byrjaði að breyta mataræðinu og vissi að hún gæti ekki bætt hreyfingu við á sama tíma.
Um tíu dögum eftir að ég breytti mataræðinu bætti ég við hreyfingu í formi göngutúra. Þegar ég hóf lífsstílsbreytinguna sagði ég þó engum frá því vegna þess að ég var svo hrædd um að þetta myndi mistakast eins og í öll hin skiptin, jafnvel þótt ég væri á sama tíma ákveðin í þessu. Göngutúrarnir fóru því fram á kvöldin svo enginn sæi mig því sjálfsálitið var ekkert. Ég hafði niðurrifshugsanir og var alveg hætt að horfa framan í fólk því mér leið svo illa. Fljótlega urðu göngutúrarnir tveir á dag en frekar erfiðlega gekk þó að losna við aukakílóin í upphafi. Þá kom í ljós að ég var með vanvirkan skjaldkirtil og ég fékk lyf við því. Eftir það fór allt að ganga miklu betur, ekki bara hvað varðar þyngdartap heldur orkustigið og allt annað. Ég var ekki lengur jafn þreytt og ég hafði alltaf verið auk þess sem önnur einkenni sem vanvirkur skjaldkirtill getur valdið hurfu.
Fljótlega áttaði Guðný sig á því að göngutúrarnir væru ekki nægileg hreyfing fyrir hana. Hún yrði að styrkja sig og bæta á sig vöðvum til þess að auka grunnbrennsluna.
Ég vissi að ég þyrfti hjálp við þetta þar sem ég kunni ekkert á tækin né neitt sem viðkom æfingum og því leitaði ég til einkaþjálfara, sem er eitthvað sem ég mun aldrei sjá eftir að hafa gert. Hún Jóna Birna Óskarsdóttir, þjálfari í Átaki á Akureyri, átti eftir að hjálpa mér á svo marga vegu og með miklum erfiðismunum tókst henni að koma mér í réttan farveg. Ég hefði aldrei getað þetta án hennar.
Guðný viðurkennir að fyrstu skrefin í ræktina hafi verið henni gríðarlega erfið.
Ég taldi einfaldlega að ég væri allt of feit fyrir ræktina, ég fór því ekki fyrr en eftir að ég hafði lést um 13 kíló. Þegar ég fór svo loksins í minn fyrsta tíma átti ég alveg eins von á að mér yrði vísað á dyr og hlegið að mér fyrir að halda að ég ætti heima þarna inni. Púkinn á öxlinni öskraði á mig: „Fíflið þitt, þú ert 127 kíló, komdu þér heim áður en fólk sér þig.“ Ég reyndi því að stinga af áður en Jóna mætti en sem betur fer í hræðslukastinu hafði ég ekki vit á að nota hliðið heldur reyndi að fara út um glervegg sem haggaðist auðvitað ekki, hvort sem ég reyndi að toga eða ýta í hann. Þannig að ég komst ekki út, sem betur fer. Ég kveikti á tónlist með P!nk og hún róaði mig niður og þegar ég fór aftur inn í salinn þá, mér til mikillar undrunar, var enginn sem sagði mér að ég ætti ekki heima þarna. Það var enginn sem starði og enginn sem hló. Ræktin var í upphafi afskaplega ógnvekjandi staður en er í dag mitt annað heimili, það er yndislegt að vera þar, afskaplega góður andi, allir vingjarnlegir og hjálpfúsir. Ég æfi að meðaltali í tvo klukkutíma á dag, sex daga vikunnar og oftast fer ég í um klukkutíma göngu á kvöldin líka.
Guðný telur að hún hafi jafnvel verið of ströng á mataræðinu í upphafi og breytingarnar komið frekar ört.
Líkaminn var ekkert voðalega sáttur fyrstu vikurnar og mér gekk til dæmis illa að sofa þar til ég setti inn auka máltíð á kvöldin, auk þess var maginn allur undinn og snúinn og lét mig heyra það. Ég komst svo að því á erfiða mátann að góð næring er nauðsynleg, en stundum átti ég það til að ganga of langt hvað varðar hitaeiningafjölda. Tvisvar sinnum endaði það með yfirliði, annað skiptið í ræktinni, þar sem ég vaknaði kolrugluð á gólfinu með Jónu stumrandi yfir mér og dró þá ályktun að ég hlyti að hafa verið að gera magaæfingar og ætlaði að halda því áfram þegar Jóna þjálfari sagði mér hvað hefði komið fyrir og að hún hefði gripið mig og lagt á gólfið. Gamla ég hefði hætt þarna vegna þess hve mikið ég skammaðist mín, en ég mætti aftur daginn eftir og vonaði að ef einhver hefði tekið eftir þessu þá væri sá hinn sami búinn að gleyma því. En líklega tók enginn eftir því.
Þann 1. ágúst árið 2016 var Guðný rúmlega 140 kíló og leið mjög illa á marga vegu, líkamleg geta hennar var lítil, hún átti erfitt með að standa upp af gólfinu, varð móð og sveitt þegar hún gekk upp eina hæð og var oft aum í hnjánum.
Í september árið 2017 var ég komin niður í 82 kíló og þá var mér sagt að það væri komið nóg. Síðan þá hafa þó nokkur kíló farið í rólegheitum og í dag er ég 77 kíló eða um það bil 63 kílóum léttari en ég var. Það er erfitt að lýsa því hversu miklu betur mér líður í dag. Ég geng, ég hleyp, ég hjóla, sem ég hef ekki getað gert síðan ég var tuttugu og tveggja ára. Ég hef enga stoðverki lengur, ég borða hollt, ég fer í ræktina sex sinnum í viku og hlusta áfram á P!nk sem kom mér í gegnum fyrstu æfinguna. Þetta er alveg nýtt líf. Næsta skref er svo að fara í aðgerð núna 20. mars þar sem laus húð verður fjarlægð, því að sjálfsögðu er töluvert laust eftir svona mikið þyngdartap. Húð sem kemur ekki til með að ganga til baka og veldur mér ama. Eftir aðgerðina ætla ég að jafna mig og eftir það er bara að lifa nýju góðu lífi, með nýjar hefðir.
Guðný segir fordóma og neikvæðni vera í gangi varðandi of feitt fólk og að það sé alltaf einhver sem reyni að vera fyndinn á kostnað annarra.
Við þurfum bara að reyna að láta það ekki hafa áhrif á okkur, það er erfitt stundum, ég veit það. En jákvæða, hjálpsama og hvetjandi fólkið er líka þarna, ég komst að því. Ég viðurkenni að þetta er erfitt, en þetta er hægt og ávinningurinn er svo mikill. Ekki gefast upp við að ná markmiðunum og láta draumana rætast. Þrátt fyrir að síðasta tilraun hafi farið úrskeiðis þá þarf sú næsta ekki að gera það líka. Hún var ekki til einskis heldur góð reynsla í reynslubankann sem læra má af. Hafðu trú á sjálfum þér, þú getur það sem þú ætlar þér. Við þurfum að setja okkur markmið sem er ekki ómögulegt að ná en samt þannig að þau séu áskorun.
Guðný segir að í gegnum ferlið hafi hún lært að skyndilausnir virka ekki, heldur þurfi að brjóta upp gamlar, slæmar hefðir og búa til nýjar.
Til að mynda kemur alltaf sá dagur að maður nennir ekki að fara í ræktina en það er samt mikilvægt að fara og gera bara eitthvað smávegis, það þarf ekki að vera merkilegt. Það að fara gerir að verkum að líklegra er að nýtt hegðunarmunstur verði til, að þetta verði hluti af lífinu líkt og að klæða sig á morgnana. Það þarf líka að velja sér hreyfingu sem hentar manni vel því ef manni finnst æfingin skemmtileg þá er líklegra að mann langi að fara á æfingu. Mataræðið skiptir svakalega miklu máli en ef fólk telur að það sé að gera allt rétt í mataræði og hreyfingu en er samt ekki að léttast þá er mikilvægt að láta athuga það.
Guðný segir að myndir og málband segi oft meira en vigtin og hún vildi óska þess að hún hefði hugsað meira um það í upphafi.
Vigtin var það eina sem ég hugsaði um á þeim tíma – skítt með heilsuna, áfram með vigtina, var hugsunin, en sú hugsun er svo röng á alla vegu. Það er heilsa og líðan sem skiptir máli, en ekki vigtin. Það gleymist líka stundum að það sem hentar einum þarf ekki endilega að vera rétta leiðin fyrir þann næsta og við þurfum að hlusta á líkamann, hann segir oft margt en við hlustum ekki nógu vel.
Guðný segir einnig frá því að mikilvægt sé að hrósa.
Ég man þegar einhver ókunnugur hrósaði mér í fyrsta skiptið á degi þar sem ég var einmitt engan veginn að nenna í ræktina, engan veginn að nenna þessu öllu saman því það var ekkert að ganga. Ég sveif á skýi allan daginn og æfingin gjörsamlega breyttist og í stað þess að hún væri leiðinleg og allt ómögulegt, varð úr skemmtileg og krefjandi æfing. Eitt lítið hrós eða bros getur breytt erfiðum degi í góðan.