Telma Kristóbertsdóttir skammaðist sín lengi fyrir þær tilfinningar sem hún upplifði þegar hún átti frumburð sinn og komst að því hvort kynið hún hafði gengið með.
Um leið og ég fékk jákvætt óléttupróf var það sameiginleg ákvörðun hjá okkur kærastanum að við ætluðum ekki að fá að vita kynið. Mér fannst tilhugsunin ótrúlega spennandi að fá ekki að vita það fyrir fram enda var okkur alveg sama hvort kynið við fengjum því mestu máli skipti að það væri allt í lagi með barnið,
segir Telma í einlægri færslu sinni á Uglur.
Þegar Telma var hins vegar gengin 10 vikur á leið fékk hún sterka tilfinningu fyrir því að hún gengi með strák.
Ég hugsaði um litla bumbukrílið mitt sem strák og þegar ég talaði um það sagði ég alltaf hann. Mig langaði líka miklu meira til þess að eignast strák. Undir lok meðgöngunnar var kærasti minn alveg viss um að þetta væri lítil pabba stelpa en fólk var farið að segja við okkur að vera ekki með of miklar væntingar. Ég var hins vegar alveg tilbúin til þess að velja ansi hárri peningaupphæð á það að ég hefði rétt fyrir mér.
Þegar Telma mætti svo á fæðingardeildina voru ljósmæður hennar sammála henni og töldu víst að hún gengi með strák.
Ég veit ekki hvort mín sannfæring hafi haft áhrif á þær en þær voru sammála mér. Eftir marga klukkutíma af sársauka og vanlíðan fæddist loksins litla kraftaverkið okkar. Fljótlega heyrist í kærasta mínum „ég held ég hafi haft rétt fyrir mér! Þetta er stelpa!“ Ég gat engan vegin meðtekið hvað hann hafði sagt og upplifði mikla hamingju þegar ég fékk hana í fangið.
Dóttir Telmu þurfti að fara á vökudeild strax eftir fæðinguna og fór kærasti hennar ásamt fleira fagfólki með henni þangað.
Fljótlega var ég ein með mömmu minni og ljósmóðurinni og var í miklu áfalli. Ég talaði endalaust um það að ég gæti ekki átt stelpu, að ég kynni ekkert á þær og kynni bara á stráka. Í raun varð ég fyrir miklum vonbrigðum því mér var farið að þykja mjög vænt um litla strákinn sem var í bumbunni og hlakkaði mikið til að sanna fyrir öllum að ég hafði haft rétt fyrir mér.
Í kjölfarið tók það Telmu lengri tíma að tengjast dóttur sinni.
Mér fannst ég upplifa einskonar missi af því að ég fékk eitthvað annað en ég vildi. Ég elska Halldóru Líf meira heldur en lífið sjálft í dag og ég vil allt fyrir hana gera. Hún litar heiminn minn í allskonar litum hvern dag og er og verður alltaf mín besta vinkona.