Guðlaug Sif Hafsteinsdóttir hefur tvisvar sinnum misst fóstur og tók sú lífsreynsla mikið á hana. Segir hún það algengt að fólk tali um það að missa fóstur sé ekkert mál. Fóstrið skolist einfaldlega út og konan eigi í kjölfarið að halda áfram með líf sitt líkt og ekkert hafi í skorist.
Ég hef misst fóstur í tvö skipti, þessi tvö skipti voru mjög ólík og ætla ég að segja aðeins frá þeim,
segir Guðlaug í einlægri færslu sinni á Amare.
Þetta er ekki auðvelt, þetta er þvílíkur missir þrátt fyrir að hafa gengið stutt á leið. Þetta er barnið mitt, litla fóstrið með fallegu vængina sína.
Í fyrra skiptið sem Guðlaug missti fóstur var hún einungis sextán ára gömul.
Ég var í bullandi áfengis- og vímuefnaneyslu og mér var skítsama um allt og alla í kringum mig. Þannig virkar neysluhausinn oft. Þegar ég missti fóstur í þetta skiptið hafði það ekki eins mikil áhrif á mig eða líf mitt eins og seinna skiptið gerði.
Guðlaug hafði verið á pillunni frá þrettán ára aldri þar sem hún var bæði með mjög óreglulegar blæðingar og mikla verki. Hún hafði þó tekið ákvörðun um að hætta að taka hana stuttu áður en hún varð ólétt þar sem henni leið ekki vel á henni.
Hún fór svo í skapið á mér og ég var alltaf að gleyma að taka hana. Ég var nú ekki mikið að spá í því hvenær ég væri á túr eða ekki, enda bara sextán ára gömul og ekkert að spá í barneignum.
Þegar Guðlaug missti fóstrið var hún stödd heima hjá vinkonu sinni og fær skyndilega gífurlegt verkjakast.
Ég hafði verið með verki í nokkra dag en var svo sem ekkert að spá í því, hélt bara að tími mánaðarins væri bráðum að byrja. En svo fæ ég þetta verkjakast og fannst eins og það væri eitthvað að leka. Ég bað vinkonu mína um túrtappa og fer inn á bað. Jú það var byrjað að blæða en mér leið ekki eins og vanalega, þetta var eitthvað skrítið. Ég satt á klósettinu og fann eitthvað renna niður með tilheyrandi verkjum og þá vissi ég það bara, ég var að missa fóstur.
Guðlaug segist hafa fengið mikið áfall þegar hún áttaði sig á því að hún væri að missa fóstur þar sem hún hafði ekki gert sér grein fyrir því að hún væri ólétt.
Ég var eiginlega ekki að trúa þessu. Ég gekk svo niður til stelpnanna og sagði þeim frá þessu, þær fengu örugglega meira áfall en ég sjálf. En ég man það vel að mér leið ekki beint illa þarna enda var ég í engu ástandi til þess að hugsa um þetta, það eina sem ég hugsaði um var næsta djamm. Ég er fegin í dag að ég hafi ekki eignast barn á þessum tíma þar sem ég var sjálf bara barn, týnd í heimi áfengis og fíkniefna og gat ekki einu sinni hugsað um sjálfa mig. Ég hefði líklega misst forræðið yfir barninu.
Guðlaug segir að seinna skiptið sem hún hafi missti fóstur hafi verið allt öðruvísi bæði tilfinningalega og líkamlega, enda hafi aðstæður hennar verið langt frá því að vera sambærilegar fyrri tíma.
Ég var í mjög miklu andlegu ójafnvægi. Óliver strákurinn minn var bara tíu mánaða, ég var ein að leigja íbúð og var í 120% vinnu. Ég var einstæð mamma sem náði ekki endum saman, ég vaknaði upp á hverri einustu nóttu í ofsakvíðakasti og hélt ég væri að deyja. Mér fannst erfitt að vera ein með barn og svaf lítið sem ekki neitt.
Guðlaug kynntist strák sem hún fór að hitta reglulega á þessum tíma.
Hann lét mér líða betur, var góður við mig og var til staðar. Ég hélt að ég hefði borið tilfinningar til hans en ég var bara svo sjúk í væntumþykju og góðmennsku eftir stormasamt samband með barnsfaðir mínum. Við vorum búin að sofa saman í rúman mánuð þegar ég fæ á tilfinninguna að ég verði að taka óléttupróf. Ég pissaði á prófið og það birtist mjög dauf lína. Ég hélt að ég væri orðin eitthvað rugluð og bað systur mína að skoða prófið líka, hún sá línuna líka en ég var samt ekki viss.
Guðlaug ákvað að láta strákinn vita strax og hringdi því í hann.
Hann fór í hálfgert sjokk þar sem honum langaði ekki í börn strax, ég sagði honum að ég ætlaði að fara til læknis til þess að staðfesta þungunina og heyra svo í honum.
Læknirinn sendi Guðlaugu í blóðprufu og sagði henni svo að hann myndi hringja í hana daginn eftir með fréttirnar.
Ég var svo stressuð, gat ekkert sofið og vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Ég vissi að strákurinn myndi ekki vilja taka þátt og hausinn á mér flakkaði fram og til baka. Ég gat ekki fundið nógu góða ástæðu fyrir mig til þess að fara í fóstureyðingu því ég vissi að það myndi trufla mig fyrir lífstíð.
Daginn eftir hringdi læknirinn í Guðlaugu og greindi henni frá því að um þungun væri að ræða.
Ég var eiginlega hálf dofin og vissi ekki hvernig mér ætti að líða en ég hringi strax í strákinn og tilkynni honum fréttirnar. Það fyrsta sem hann spyr mig að er hvort ég ætli ekki örugglega í fóstureyðingu. Ég sagði var mjög móðguð og sár og skildi ekki hvernig það ætti bara að vera ekkert mál að láta bara eyða barninu okkar út af okkar eigin kæruleysi. Hann lofaði mér öllu fögru ef ég skyldi fara í fóstureyðingu og sagðist ætla að styðja mig í því ferli.
Næstu daga reyndi Guðlaug að ræða við strákinn um hvað gera skyldi en hann lokaði alltaf á umræðurnar.
Nokkrum dögum síðar hafði ég tekið ákvörðun um að halda barninu og að hann fengi þá bara að ráða því hvort hann tæki þátt eða ekki. Ég var frekar sátt við sjálfa mig þetta kvöld, stóð við mitt sem ég hafði ekki gert í langan tíma.
Morguninn eftir vaknar Guðlaug upp við verki og sér að henni er byrjað að blæða.
Ég hringi í læknirinn minn sem bað mig að koma strax, sem ég gerði. Ég vissi alveg að fóstrið mitt væri að kveðja mig. Hann sendi mig aftur í blóðprufu og tilkynnti mér að óléttu gildin væru aftur dottin niður. Ég átti svo að koma aftur eftir tvo daga ef að fóstrið væri ekki búið að skila sér til þess að fara í aðgerð og láta fjarlægja það. Ég vissi ekki hvernig mér átti að líða, enn eitt áfallið að bætast í bankann. Ég var að missa barnið mitt sem ég var svo tilbúin til þess að taka á móti með opnum örmum.
Guðlaug segist aldrei gleyma því þegar hún lét strákinn vita af fréttunum.
Hann sagði við mig að þetta væri bara gott því núna þyrfti ég ekki að fara í fóstureyðingu. Ég var svo reið við hann vegna þess að ég fann engan stuðning frá honum að ég skellti á hann. Þegar ég talaði svo við hann á netinu kallaði hann mig lygara og sagði að ekkert af þessu væri satt. Ég átti mjög erfitt með að sætta mig við þá staðreynd að ég væri að missa fóstur. Ég var ótrúlega verkjuð og það blæddi endalaust, en fóstrið virtist ekki ætla að skila sér þar til nóttina áður en ég fór aftur til læknis til þess að fara í aðgerðina. Þá fékk ég slæman verk og fann að fóstrið væri að koma niður, ég fór á klósettið og sat þar og grét. Ég fann það detta niður og sat þarna í dágóðan tíma, ég var bara ekki tilbúin til þess að sturta niður. Ég vildi ekki sleppa takinu og hugsaði allan tímann um Óliver, hvað ef ég hefði misst hann.
Guðlaug segist eiga erfitt með það þegar fólk talar um það að missa fóstur eða það að fara í fóstureyðingu sé ekkert mál.
Þetta er heilmikið mál, í mínu tilfelli leið mér eins og ég væri að missa barnið mitt. Ég hugsa oft til þess í dag hvort þetta hafi verið stelpa eða strákur, ég elska barnið mitt sem fékk aldrei að sjá heiminn, ég elska barnið mitt sem ég fékk aldrei að snerta eða halda á. Sama hversu stutt ég var gengin, þetta var samt líf sem var að kvikna og nú á ég pínulítinn engil þarna uppi.
Guðlaug hvetur konur í hennar stöðu að tala um áfallið en ekki fela það.
Hægt er að fylgjast með Guðlaugu á Snapchat: gullysif