Íris Bachmann Haraldsdóttir vildi óska þess að hún hefði gert hlutina í fortíðinni öðruvísi og ákvað því að skrifa sjálfri sér einlægt bréf.
Ég vildi óska þess að ég hefði hugsað öðruvísi til mín og hlustað á það sem mamma mín talaði um,
segir Íris Bachmann í bréfi sínu.
Ég æfði áhaldafimleika í mörg ár og það snerist allt um það, æfingar í fjóra tíma á dag og var fimleikasalurinn mitt annað heimili. Ég elskaði þessa íþrótt og geri enn, en það voru kröfurnar að halda sér í formi. Þá er ég ekki endilega að tala um kröfur frá þjálfurunum heldur frá sjálfri mér. Kröfurnar héldu áfram þegar ég var hætt að æfa og auðvitað kom að því að líkaminn minn tók þroskastökk. Ég fékk mjaðmir og bjóst og viðurkenni ég að þetta stökk var ótrúlega erfitt.
Íris segist reglulega skoða gamlar myndir af sér frá því að hún var til dæmis í utanlandsferðum og taki þá eftir því að á hverri einustu mynd haldi hún fyrir magann á sér.
Þegar ég var til að mynda sextán ára gömul og í mjög góðu formi, með „six pack-ið“ enn til staðar þá fannst mér ég samt þurfa að halda fyrir „bumbuna“. Ég man hvað ég var alls ekki nógu ánægð á þessum tíma. Það eru líklega margir sem tengja við þessa hugsun, hvort sem það sé núna eða frá því þeir voru yngri. En ég vildi óska þess að ég hefði gengið þarna um með höfuðið hátt og verið sátt með sjálfa mig.
Íris segir eitt af hennar stærstu markmiðum í dag vera að ganga um sátt með sjálfa sig nákvæmlega eins og hún er.
Lífið snýst ekkert um það hver er í flottasta forminu.
Íris segir það vera ótrúlega upplifun og algjör forréttindi að hafa fengið að ganga með barn.
Ég er sjálf núna að upplifa nýjan líkama eftir barnsburð og það hefur verið erfitt, en þrátt fyrir að ég sé með eitthvað utan á mér þá ætti ég að ganga stolt um. Stolt yfir því að hafa komið barninu mínu í heiminn , stolt af mér og því sem ég er að gera og stolt af líkama mínum sem gekk í gegnum þessa ótrúlegu upplifun.
Íris segir að fólk verði aldrei sátt í eigin skinni nema að samþykkja sjálft sig nákvæmlega eins og það er.
Þá meina ég samþykkja alla sína galla og nýta þá til góðs, samþykkja sig hvort sem maður hefur aukakíló eða ekki, samþykkja allt það stóra og það litla í fari okkar. Ég ætla að gera það núna, ég ætla að samþykkja mig nákvæmlega eins og ég er. Öll mín slit, mína mömmu bumbu, alla mína galla og kosti.
Hægt er að fylgjast með Írisi á Snapchat og Instagram undir notandanafninu: irisbachmann