Leikarinn ástsæli Jóhannes Haukur Jóhannesson segist vera með myndbandsupptöku undir höndum sem sanni tilvist jólasveinanna. Hann hyggst afhenda Þjóðskalasafni Íslands upptökuna til varðveislu.
Fyrsti jólasveininn af þrettán, Stekkjastaur kom til byggða í gærnótt, yngstu kynslóðinni til mikillar ánægju.
Í færslu á facebook segir Jóhannes Haukur frá því að tíu ára dóttir hans hafi gengið einu skrefi lengra en aðrir og freistast þess að ná myndskeiði af sveinka. Brá hún á það ráð að setja símann sinn á þrífót og stilla á myndbandsupptöku áður en hún lagðist til svefns.
„Eftir að hafa skoðað gaumgæfilega þá rúmu þrjá klukkutíma sem náðust á upptöku má sjá glitta í eitthvað sem virðist vera óhrekjanleg sönnun þess að jólasveinarnir þrettán lifa góðu lífi enn,“
ritar Jóhannes Haukur en meðfylgjandi er skjáskot úr upptökunni, þegar rúmar tvær klukkustundir eru liðnar.
Hefur færslan vakið heilmikla lukku og hafa fjölmargir skrifað athugasemd undir færsluna þar sem þeir hrósa uppátækinu. Einn af þeim sem fagnar þessari uppgvötvun er Gunnar Helgason leikari og leikstjóri: „LOKSINS SÖNNUN!!! Í fyrsta sinn í heiminum!!! VEL GERT.“