Ninna Karla Katrínardóttir setur upp grímu til að fela kvíða sem hún hefur glímt við frá unglingsaldri. Hún vill vekja athygli á því að kvíðinn er ósýnilegur og hvetja okkur öll til að vera góð við hvert annað, en fyrst og fremst okkur sjálf.
Þetta er gríma mín. Meik, maskar, varalitur, hyljari, highlighter, sólarpúður. Filterað í drasl. Og brosið sem nær ekki alla leið til augnanna.
Svona hefst Facebook- færsla Ninnu Körlu Katrínardóttur sem glímir við kvíða. „Ég svaf ekkert í nótt. Ég reyndi, en ég gat það ekki. Svona hagar vinur minn, kvíðinn sér stundum,“ segir hún í hjartnæmri færslunni, en hún vill vekja athygli á því að kvíði er ósýnilegur kvilli ólíkt fótbroti, öðrum slysum eða veikindum og að kvíðasjúklingar beri oft grímu til að felast.
Syngur burt kvíða
Ninna er 33 ára gamall kvíðasjúklingur. Vinur hennar kvíðinn gerði fyrst vart við á unglingsárunum og þurfti hún upp frá því að læra að lifa með honum. Kvíðinn hefur orðið henni svo yfirþyrmandi að hún hefur misst úr vinnu. Gerir hann helst vart við sig á álagstíma á borð við jólin, sem einmitt eru á næsta leiti. Hún segir í færslu sinni: „Síðasti sólarhringurinn sést ekki á þessari mynd. Grátköstin, vanlíðanin, áhyggjurnar, hugsanirnar.“
Kvíðinn er aldrei velkominn en hann gerir ekki boð á undan sér. Ninna hefur tileinkað sér ýmsar leiðir til að kljást við kvíðann. Hún gaf blaðamanni nokkur dæmi um hennar leiðir til að vinna gegn honum. „Ég fer til dæmis í sturtu, og syng eða bara syng og spila á hljóðfæri. Mér finnst líka afslappandi að mála mig eða kíkja út í göngutúr.“ Stundum hellist kvíðinn þó yfir af slíkum ofsa að ómögulegt er að kæfa hann í fæðingu. „Síðasti sólarhringur var þannig.“
Kvíði
Kvíði er náttúrulegt viðbragð mannskepnunnar við hættu. Sjónin okkar skerpist, heyrnin líka, hjartsláttur eykst til að dæla blóði hraðar í vöðva líkamans til að búa okkur undir að slást eða flýja. Í kvíðasjúklingum er þetta viðbragð hins vegar ýkt og fer líkaminn í þennan baráttuham við minnsta áreiti, jafnvel bara hversdagslegar hugsanir. Heilinn virðist túlka allskyns aðstæður sem hættu og sendir líkamanum boð um að búa sig undir það versta. Á vef Geðhjálpar segir að um 12 prósent Íslendinga þjáist af kvíða og þá frekar konur heldur en karlmenn. Ýmsar meðferðarleiðir eru í boði í dag og að mati Geðhjálpar er undarlegt að fleiri leiti sér ekki hjálpar, sérstaklega þegar horft er til þess hversu neikvæð áhrif kvíðinn hefur á líf manna.
Verum okkar eigin bestu vinir
Ninna deilir færslu sinni ekki til fá vorkunn og hún er ekki á höttunum eftir ráðleggingum. „Ég vil einfaldlega að þið hafið það bak við eyrað að kvíðinn er ekki sýnilegur. Það er mjög einfalt að setja á sig grímu og fela hann.“
„Ég er mín eigin besta vinkona“ segir hún, enda er það Ninna sjálf sem þarf að lifa með kvíðanum á hverjum einasta degi.
https://www.instagram.com/p/Bq8BagFA5IA/?utm_source=ig_web_copy_link