Mér finnst þó frekar sorglegt að heyra sögur harðfullorðins fólks sem telur áfengi forsendu þess að geta átt í rómantískum samskiptum við aðra. Sumir geta ekki hugsað sér að skrá sig á Tinder eða önnur rafræn stefnumótaúrræði, en drekka sig í spað um hverja helgi í von um að lenda í sleik á barnum eða í einhverju þaðan af nánara í ókunnugu bóli. Stundum er viljinn meiri en getan, enda hefur of mikið áfengi truflandi áhrif á kyngetu allra kynja, stinning verður minni, píkur blotna síður og fullnægingin heldur sig kannski alveg fjarri. Ferlega glatað einmitt þegar við upplifum okkur kannski sem kynþokkafyllst. Þess ber þó að geta að fyrir suma eru áhrifin jákvæð, til dæmis fyrir karlmenn sem fá það eftir mjög litla örvun – þeir endast lengur – og fólk sem á erfitt með að slaka nægilega á til að fá fullnægingu alla jafna gæti hitt á passlega slökun ef ölvunin er akkúrat á því stigi.
Svo eru það áhrifin á dómgreindina. Almáttugur minn hvar á ég að byrja? Í nýlegri rannsókn voru tekin djúpviðtöl við 24 einstaklinga í New York-borg um reynslu þeirra af kynlífi bæði undir áhrifum áfengis og kannabisefna (þó ekki samtímis). (Palamar, JJ, ofl. (2018). A Qualitative Investigation Comparing Psychosocial and Physical Sexual Experiences Related to Alcohol and Marijuana Use among Adults. Archives of Sexual Behavior, 47(3), 757–770.) Rannsóknin er agnarsmá og því ekki óhætt að fullyrða neitt út frá niðurstöðunum, en vissulega gefur hún vísbendingar um veruleikann. Meðal þess sem kom fram í rannsókninni var að kynlíf undir áhrifum áfengis var líklegra til að hafa neikvæð áhrif varðandi val á kynlífsfélögum. Áfengisnotkun reyndist frekar tengjast kynlífi með ókunnugum, fólki sem annars hefði alls ekki lent á radarnum. Undir áhrifum kannabis var fólk hins vegar líklegra til að velja að stunda kynlíf með vini eða kunningja. Kannski tengist það bara staðsetningu notkunar – áfengi er löglegt vímuefni sem neytt er í almenningsrými á meðan kannabis er frekar notað í heimahúsum þar sem það er ólöglegt, eins og í New York og Reykjavík.
Hér eru nokkrir fleiri athyglisverðir punktar úr niðurstöðum rannsóknarinnar:
Margir þátttakendur sögðust upplifa sig kynþokkafyllri undir áhrifum – þó var þetta líklegra við notkun áfengis en við notkun kannabisefna.
Kynlíf undir áhrifum áfengis var líklegra til að valda móral og eftirsjá daginn/dagana eftir, miðað við kannabis. Mórallinn tengist þá gjarnan vali á kynlífsfélaga eða ákvörðunum í kynlífinu, eins og til að mynda að sleppa því að nota smokk.
Áfengi tengdist frekar vandamálum varðandi kynsvörun og frammistöðu – líkt og nefnt er hér að framan. Undir áhrifum kannabisefna voru neikvæðu áhrifin frekar sálræn, til að mynda kvíðatilfinning eða aðsóknarkennd á meðan kynlíf stóð yfir.
Í báðum tilfellum voru neikvæð áhrif tengd magni efna sem neytt hafði verið. Meira áfengi og meira gras leiddu til verra kynlífs.
Þátttakendur lýstu því að kannabis yki á líkamlega næmni, á meðan áfengi virkaði deyfandi.
Kynlíf undir áhrifum kannabisefna virtist vara lengur – virtist er hér lykilorð, því í raun var tíminn ekki lengri en kannabis hefur brenglandi áhrif á tímaskyn neytenda.
Bæði vímuefnin höfðu áhrif á fullnægingar, en í allar mögulegar áttir. Fyrir suma voru fullnægingar undir kannabisáhrifum sterkari, en aðrir upplifðu erfiðleika vegna vangetu til að halda fókus.
Kannabis leiddi frekar til kynlífs í hægagangi og nánd á meðan áfengi var líklegra til að leiða til hamfara og láta í bólinu. Bæði efni virkuðu hvetjandi á fólk til að gera hluti í kynlífi sem það hefði ekki gert edrú.
Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir er hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi
Spurningar og tímapantanir: raggaeiriks@gmail.com
www.raggaeiriks.com