fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024

Reynir hefur háð baráttu við fíkniefni frá unglingsaldri: Ótrúleg upprisa frægasta snappara landsins – Sjáðu myndbandið

Aníta Estíva Harðardóttir
Fimmtudaginn 11. október 2018 20:00

Reynir Bergmann Reynisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reynir Bergmann opnar sig um baráttuna við fíkniefnadjöfulinn

Reynir Bergmann er einn þekktasti snappari landsins í dag en hann opnaði snapp sitt, reynir1980, fyrir rúmlega ári. Upphaflega fór fólk að fylgja honum vegna þess hve ótrúlega opinn, hress og skemmtilegur karakter hann er, en eftir að hann tók sér tveggja mánaða frí frá snappinu síðasta haust varð sprenging í fylgjendafjölda hans. Ástæðan fyrir gífurlega auknu áhorfi var sú að Reynir ákvað að segja frá því í einlægni af hverju hann tók sér raunverulega frí frá Snapchat.

Reynir er þrjátíu og sjö ára gamall fjölskyldufaðir sem býr á Selfossi. Æska hans var góð og einkenndist af umhyggju og góðu uppeldi á ástríku heimili. Þegar Reynir var þrettán ára fór hann eins og margir aðrir unglingar að fikta við áfengi, stuttu síðar varð líf hans barátta upp á líf og dauða.

„Ég ætlaði alls ekkert að enda sem eiturlyfjafíkill. Ég hafði plön um að verða alveg brjálaður fótboltamaður. Þegar ég var að alast upp þá var Ásgeir Sigurvinsson karlinn og mig langaði bara að vera þannig. En ég einmitt gerði þessa vitleysu, að prófa einu sinni og það varð ekkert úr neinum plönum sem hafði. Framtíðarplönin fóru bara öll. Ég var þrettán ára þegar ég prófaði fyrst áfengi, þá var ég bara unglingur að prófa mig eitthvað áfram. En um áramótin 1998–1999 gjörbreyttist líf mitt. Þá prófaði ég kókaín í fyrsta skiptið, við vorum fjórir strákar saman og keyptum okkur eitt gramm. Eftir það hef ég ekki litið við neinu öðru, hef bara ekki notað neitt annað,“ segir Reynir í einlægu viðtali við blaðakonu DV.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér:

 

Byrjaði sem saklaus skemmtun og endaði sem vandamál

Áður en Reynir fór að nota kókaín hafði hann prófað nánast öll önnur fíkniefni en aldrei ánetjast þeim.

„Ég prófaði að drekka, svo fór ég og reykti kannabisefni eða hass, það var lítið um gras á þessum tíma. Ég prófaði sýru, amfetamín og landa. Tók amfetamín á djammið með landa í bakpoka í sjoppunni. En þetta var ekki ég. Mér fannst þetta ekkert spes. Ég vildi frekar fara að selja eiturlyf og græða peninga. En áramótin 1998—1999 þá bara hvarf ég. Þá fann ég eitthvert efni sem tók mig, pakkaði mér saman, traðkaði á mér og ég hlýddi bara.“

Reynir segist strax hafa fundið mun á kókaíni og öðrum efnum sem hann hafði notað.

„Eftir fyrsta skiptið þá hugsaði ég; „Vá, mig langar að gera þetta aftur, þetta var geðveikt.“ Og þetta var þannig fyrst um sinn. Þá leið manni eins og maður væri tveir metrar, voða breiður og svaka karl. Þetta var skemmtilegt í byrjun en svo fór þetta að vera semi-skemmtilegt með smávegis af vandamálum og í lokin var þetta ekkert nema vandamál. Mér finnst það svolítið góð lýsing á þessu ferli.“

Allt frá þessum afdrifaríku áramótum, þegar Reynir missti tökin á neyslu sinni, hefur hann háð baráttu við fíkniefnadjöfulinn sem hefur birst honum í mörgum myndum.

„Ég hef farið í ógeðslega margar meðferðir og þar á meðal oft inn á Vog. Ég er þannig alkóhólisti að ef ég dett í það og fer á fyllerí þá þarf ég bara að komast inn á lokaða stofnun til þess að geta hætt. Ég vakna ekkert og ákveð að nú sé ég hættur. Ég þarf að komast einhvers staðar inn þar sem ég er bara lokaður af og ég er trappaður niður, þá get ég byrjað að hugsa rétt. Líf mitt hefur verið þannig að ég fer í meðferð og verð edrú í tvö til þrjú ár. Næ alltaf svolitlum tíma og svo dett ég í það. Ég byrja kannski að laumast og ég held að ég sé voða laumulegur og enginn viti neitt en foreldrar mínir og konan mín átta sig strax á hvað ég er að gera. Svo spring ég og eftir kannski tvo mánuði þá kemur „Fokk-idið“, þá eru allir búnir að loka á mig og ég hryn.“

Fíkniefnaheimurinn mikið svartari en fólk grunar

Reynir ásamt konu sinni Sólveigu Ýr Sigurjónsdóttur sem hefur staðið við bakið á honum í átta ár.

Það var einmitt síðasta haust sem Reynir féll síðast og þurfti að fara í meðferð í tvo mánuði. Eftir meðferðina ákvað hann að vera heiðarlegur við fylgjendur sína á Snapchat og láta þá vita af hverju hann hefði verið fjarverandi undanfarna mánuði. Það var þá sem fylgjendum honum fór hratt fjölgandi og áður en hann vissi af var hann farinn að svara um tvö hundruð skilaboðum á hverju kvöldi frá áhyggjufullum foreldrum eða hræddum unglingum.

„Ég setti söguna mína út í maí, málið var að ég var búinn að vera að snappa og datt svo í það. Fór í meðferð í janúar og þá var ég kominn með um tíu þúsund fylgjendur á Snapchat. Ég snappaði ekkert í tvo mánuði og þurfti að útskýra það fyrir fólki. Það var „heavy“ erfitt en ég ákvað að segja fólki hvað var í gangi og það varð einhver sprenging út af þessari sögu. Allt í einu voru 21 þúsund manns að hlusta á mig og fólk bað mig um að segja söguna aftur og aftur. Ég fékk örugglega um tvö til þrjú þúsund skilaboð frá örvæntingarfullum eiginkonum og foreldrum og ég var í tvo mánuði að svara öllum þessum skilaboðum. Ég var með grátandi mömmur í símanum og var farinn að hjálpa fólki. Ég fékk líka mörg falleg skilaboð frá mömmum um að börnin þeirra hefðu farið í meðferð.

Ég þekki konu sem var að vinna á Vogi og hún sagi mér að helgina eftir að ég sagði sögu mína þá hefði verið mikil fjölgun í innhringingum. Þetta hjálpaði mér, ég hef rosalega gaman af því að hjálpa fólki. Ég er ekki að segja að ég sé meðferðarráðgjafarsnappari en fólk leitar til mín og ég svara því og hef gaman af. Ég get bara sagt af minni reynslu og hvað ég er að gera. Að geta hjálpað fólki með þetta fíknidæmi í gegnum snappið er magnað. Það er æðislegt. Þetta er hrottafengin heimur, þetta er miklu svartara heldur en fólk gerir sér grein fyrir. Ég fór sem dæmi á myndina Lof mér að falla um daginn og ég hafði heyrt að hún væri alveg sjúk og að fólk gengi út í hléi. En mér fannst hún ekkert sjúk, mér fannst hún alveg „hardcore“ en ég hef verið á þessum stað. Ég hef verið þessi stelpa, verið á götunni og átt kost á að fara inn og ég hef líka verið ógeðslegi gaurinn sem átti dópið. Ég hef reyndar ekki sprautað mig, það er eina prinsippið sem ég hef haldið í. Ég hef alltaf sagt að sprautufíklar séu nískupúkar en þeir eru samt ekkert veikara fólk en aðrir.“

Níddist á fólki til þess að fá peninga

Það sem hefur bjargað lífi Reynis í gegnum allt sem á hefur gengið er að hann hélt alltaf vinnu.

„Ég hef alltaf unnið, í dag þakka ég vinnuveitendum mínum og verkstjórum fyrir að gefa mér alltaf sénsinn,“ segir Reynir. „Ég hef farið í meðferðir og heyrt fólk vera að tala um það að komast á endurhæfingarlífeyri til þess að geta hlúð að sjálfu sér. En þetta er yfirleitt fólkið sem er fyrst á fyllerí. Ef ég tæki þennan pakka, væri heima að hlúa að sjálfum mér í sex mánuði þá færi ég bara á fyllerí. Maður þarf að komast út í lífið. Borga skatta og skyldur, vera með, hitta fólk og spjalla við strákana í vinnunni. Það er þetta sem hjálpar mér mest því það er hausinn á mér sem er alltaf verstur. Það er hann sem fær mig til þess að hugsa að það sé allt í lagi að fá sér smá. En á meðan ég er að vinna þá er ég ekki í þessum pælingum. Þá þarf ég bara að glíma við hausinn á mér þegar ég kem heim á kvöldin. Mér finnst svo sorglegt að fara í meðferð og sjá unga krakka sem hugsa bara um að komast á endurhæfingarlífeyri, mér finnst það svo grátlegt.“

Reynir hefur þurft að gera ýmislegt til þess að fjármagna neyslu sína í gegnum árin enda er fíkniefnaneysla alls ekki ódýr.

„Þetta er ógeðslega dýrt. Við erum tvisvar sinnum búin að safna okkur fyrir útborgun fyrir íbúð. Með fimm milljónir inni á bankareikningi og ætlum að fara að hjóla í íbúðarferli þegar ég hef dottið í það. Einum og hálfum mánuði seinna á ég ekki krónu. Ég hef þurft að bjarga mér á ýmsan hátt, ég hef flutt inn haug af eiturlyfjum, ég hef þurft að níðast á fólki til þess að fá peninga, ég hef þurft að vingast við kvenfólk til þess að geta sent það til útlanda til þess að sækja eiturlyf. Þetta er búið að vera ógeðslegt ferli.“

Krakkneysla skemmdi taugaboðkerfið í heilanum

Eftir eina meðferðina sem Reynir fór í ákvað hann að flytja til Noregs til þess að reyna að halda sér edrú. Líf hans gekk ótrúlega vel og hann var kominn í góða vinnu og farinn að safna sér pening til þess að geta keypt sér íbúð á Íslandi.

„Allt var æðislegt, ég var búinn að safna mér fullt af pening en þá datt ég í það í Noregi og það var mjög erfitt að komast í kókaín þar þannig að ég fór að reykja uppsteypt kókaín, í rauninni krakk. Ég brann út á einum mánuði, var búinn að selja allar eigur mínar og veiktist mikið. Ég þurfti að liggja á spítala í Stavanger og það vissi í rauninni enginn hvað gerðist. Ég hálfpartinn missti málið, gat ekki talað, var allur skakkur og átti erfitt með að ganga. Mér skildist á læknunum að þetta væri bara út af krakkneyslu, eitthvað í taugaboðkerfinu í heilanum. Þegar ég kom svo heim var ég með talsvert magn af eiturlyfjum með mér og ætlaði þá að byrja edrú líf, nýtt líf. Ég kom heim, datt í það og ég bara datt út. Ég man að ég fór í sjúkrabíl upp á taugadeild Landspítalans þar sem ég var í þrjár vikur. Þá var ég búinn að vera vakandi á kókaíni heima hjá mér í einhverja daga. Taugakerfið hrundi.“

Þegar Reynir hefur fallið er neysla hans sjaldnast tengd einhverju neikvæðu í lífi hans né er hann að neita eiturlyfja vegna þess að hann sé að skemmta sér með vinum sínum.

„Ég hef oft farið upp á Landspítala með hjartaflökt og óreglulegan hjartslátt. Alltaf kem ég út af spítalanum og hugsa að nú sé ég hættur. Aldrei aftur. Allt er voða fínt og gengur voða vel, en áður en ég veit af þá fer hugurinn að spila með mig; „Heyrðu það gengur geðveikt vel hjá þér, þú ert ekki búinn að fá þér lengi, þú getur alveg fengið þér smá.“ Ég reyni að rífast við þessa rödd en áður en ég veit af þá er ég bara búinn að fá mér. Ég er orðinn svo lasinn af kókaíni að ég er orðin úttaugaður. Ef ég dett í það þá fer ég bara að gráta, fer inn í mig og segi engum frá því. Ekki einu sinni strákunum sem ég er að ná í efnin hjá. Það er kannski hringt í mig og ég látinn vita að þeir séu með fullt af efni en ég segi bara nei, ég er edrú og er einn heima hjá mér. Ég hef eytt ófáum dögum hérna niðri í kjallara heima hjá mér, sitjandi þar hágrátandi. Ég man eftir einu tímabilinu áður en ég fór í meðferð síðast þá var ég búinn að vera hérna niðri í einhverja daga, pissandi í flöskur og kúkandi í poka. Sat þar einn með smá ljós á símanum undir teppi þannig að enginn sæi mig. Niðri í geymslu hjá mér, ég hefði alveg geta verið inni í þessari íbúð en þetta er taugaveiklunin, geðveikin, geðrofin. Ég meika ekki að fólk sjái ljós og geti kíkt inn.“

Vill ekki fá efnið inn í líkamann en verður að fá það

Sólveig Ýr Sigurjónsdóttir, kona Reynis til átta ára, hefur í ófá skipti þurft að keyra með hann í geðrofi upp á bráðamóttöku geðdeildar vegna neyslu sinnar. Saman eiga þau tvær dætur sem eru sjö ára og þriggja mánaða, en fyrir á Reynir eina tólf ára dóttur sem hann hefur forræði yfir. Sjúkdómur Reynis er svo alvarlegur að þrátt fyrir ást hans á fjölskyldu sinni þá hefur hún þurft að ganga í gegnum ýmislegt með honum undanfarin ár.

Reynir umvafin konunum í lífi sínum Fv. Sólveig Ýr, Indíana, Reynir, Katrín og Viktoría.

„Já, ég hef farið í geðrof eftir neyslu því þegar ég byrja að fá mér þá get ég ekki stoppað fyrr en ég sofna og dett út. Ég er búinn að reyna það svo oft ég hugsa með mér að ég ætli bara að fá mér eitt stykki og fara svo heim, en áður en ég veit af er ég búinn með tíu stykki og tveimur dögum seinna er ég bara röltandi hérna um svæðið að hugsa um að stökkva í Ölfusána af því að lífið er svo ömurlegt. Ég er ánetjaður einhverju efni sem ég hata og elska. Ég vill ekki fá það inn í líkama minn en ég verð að fá það. Sem er bara bilað. Ég elska börnin mín og lífið en áður en ég veit af er ég dottinn í það og ég veit að ég er að fara að missa allt.

Ég skal segja þér gott dæmi. Ég var í forræðisdeilu og fékk elstu dóttur mína til mín árið 2010. Málið var að fara að lokast hjá barnavernd og ég átti að mæta á mánudeginum og skila þvagprufu. Ég var edrú og ekkert vesen. Svo kom vinur minn til mín á föstudeginum og spurði mig hvort við ættum ekki að fá okkur aðeins því ég væri að vinna málið. Ég sagði; „Neeeiiiiiieðajú, aðeins“. Ég hugsaði að ég ætlaði bara að fá mér smá og drekka svo heilmikið af vatni og pissa því alla helgina, þá yrði ég góður. En svo var ég á fylleríi fram á þriðjudag og dóttir mín var tekin. Þetta er ógeðslega veikt. Þetta er sjúkdómurinn, þetta er ekki það að ég sé svo ömurlegur pabbi. Ég var búinn að berjast fyrir barninu mínu í þrjú ár með lögfræðistríði og geðveiki. En ég er búinn að fá hana í dag og nú á ég þrjár dætur.“

Skar upp sína eigin hönd til þess að ná út míkrófón

Í eitt af þeim skiptum sem kona Reynis þurfti að keyra hann inn á geðdeild hafði hann skorið upp höndina á sér vegna taugaveiklunar.

„Ég hélt að það væri míkrófónn inni í höndinni á mér og var búinn að skera mig allan. Konan horfði á mig og þá var ég kominn með puttann inn í höndina til að taka míkrófón út. Ég hélt að það væri verið að taka mig upp uppi á geðdeild, var vakandi í einhverja daga. Ég lét tattóvera yfir saumana. En það er oft erfitt að komast inn á geðdeild, ég hef komið þangað alveg ógeðslegur en verið vísað frá með jafnvægislyf. Eitt skipti þegar ég kom upp á geðdeild þá var ég kominn með svo mikla sýkingu í augun að það draup gröftur úr þeim. Þá hafði ég fengið sýkingu í ennisholurnar sem leiddi upp í augu. Þá var ég að nota og í hvert skipti sem ég fékk mér þá draup gröftur úr augunum á mér og ég sá ekkert, ég skreið bara um og blindaðist alveg. Svo hálftíma seinna þegar verkurinn fór að minnka þá fékk ég mér aftur þrátt fyrir að ég vissi alveg að verkurinn kæmi aftur. Geðveikin var það mikil að ég gat ekki hætt en ég gat samt ekki tekið í nefið því það var svo mikil sýking í andlitinu. Um leið og það fór þá fékk ég mér aftur og það sýnir bara hvað maður er sjúkur.“

Reynir: „Sumir fara í eina meðferð á meðan aðrir fara í nítján.“

Að berjast við fíknisjúkdóm á hverjum degi ásamt því að vera þriggja barna fjölskyldufaðir getur tekið mikið á en Reynir þakkar konu sinni og dætrum fyrir þolinmæðina og þrautseigjuna.

„Það er auðvitað best í veröldinni að vera fjölskyldufaðir en oft er þetta bara ógeðslega erfitt,“ segir Reynir. „Ég er að vinna frá hálf átta til sex á daginn en ég á frábæra konu og hún er búin að bjarga mér. Ég hef alltaf sagt við fólk sem leitar til mín á snappinu, sem á börn í neyslu, að það eigi alltaf að gefa börnunum séns. Því það eiga allir skilið séns. Ég vil til dæmis meina að það hafi bjargað lífi mínu að hafa Sólveigu hérna ennþá og vinnuna mína. Það er oft ótrúlega erfitt að reyna að vera edrú, fara á fundi og hjálpa fólki, með þrjú börn, og stundum þarf ég bara að fara út. En ég er viljasterkur og ég held að á einhverjum tímapunkti þá nái maður þessu. Sumir fara í eina meðferð á meðan aðrir fara í nítján. Svo bara kemur þetta, maður lærir eitthvað í hverri meðferð.

Konan mín og dætur hafa upplifað margt, þær hafa gert það. Ég hef gengið hérna út með þær grátandi, mér var alveg skítsama og gekk út. Það er þegar ég verð að fá mér. Svo var ég búinn að vera edrú og græt því ég sé svo eftir þessu. En þær eru ánægðar með mig í dag. Ég held að þær myndu ekki vilja eiga neinn annan pabba. Þær vita að ég er óvirkur í dag, þessi elsta veit allt um sjúkdóminn en mamma hennar er mjög veikur alkóhólisti. Hún veit þetta allt, hún er búin að lenda í þessu öllu. Fölsku loforðunum. Hún veit nákvæmlega hvernig þetta er. Börn skynja þetta alveg, þau smitast af meðvirkni. Meðvirkni smitast af því að alast upp með fíkli, það er bara svoleiðis. Svo er oft sagt að meðvirkar konur leiti í alka. Konan mín fann veikasta kókaínfíkil á Íslandi. En hún er jafn ánægð með það og hún er það ekki þegar ég dett í það.“

Keyrði með dóttur sína í bílnum á 150 kílómetra hraða að sækja efni

Reynir segist í raun hafa verið að berjast við það að vera tveir persónuleikar alveg síðan hann hóf að nota.

„Ég verð bara allt annar persónuleiki þegar ég fer á fyllerí. Ég geri ekki neitt og fjölskylda mín lokar á mig. Einu skipti sem einhver leitaði þá til mín var ef það þurfti að meiða einhvern, þá var hægt að reiða sig á mig. En ég er ekki gaurinn sem meiði einhvern sjálfur, ég hef aldrei skilið menn sem eru út úr dópaðir niðri í miðbæ að berja menn, þá hristi ég bara hausinn þar sem ég er með svo lítið hjarta sjálfur,“ segir Reynir en það sem hefur hjálpað honum í gegnum hans verstu tíma er hve lengi hann hefur verið í þessum heimi, þeir allra hættulegustu séu orðnir vinir hans.

„Eftir eina meðferðina þá skuldaði ég 4,2 milljónir og það sem bjargaði mér var að þegar maður hefur verið í þessu svona lengi þá eru þessir karlar, þessir hættulegustu brjálæðingar, orðnir vinir manns og maður getur komist langt á því. Það er enginn að fara að gera neitt við mann.“

Reynir segir ekkert geta stöðvað hann þegar hann hefur tekið ákvörðun um að nota, en að það sé ekki efnið sjálft sem stjórni honum heldur hugur hans.

„Það sem ég sækist mest í, eða sóttist mest í, það er ekki upplifunin, það er ekki það að fá mér sem er kikkið sem ég sækist í, því þá brotna ég niður um leið. Kikkið er þegar ég er búinn að taka ákvörðunina, búinn að hringja og segist vera að koma að sækja tíu grömm. Þá kikka ég allur inn og fer að iða. Ég hef staðið mig að því að keyra hérna yfir heiðina með dóttur mína aftur í á 150 kílómetra hraða seint um kvöld, þegar börn eiga að vera farin að sofa. Sjúklegheitin eru það mikil. Þá er ég með tónlistina í botni, allt alveg geggjað en um leið og ég fæ efnið í hendurnar þá hugsa ég; „Fokk, hvað er ég að gera?“ og svo fæ ég mér og þá kemur vanlíðanin. Ég er í rauninni farinn að fá mér áður en ég fæ mér. Hugmyndin og leiðin, þá tryllist ég að innan. En inntakan er ömurleg, þá hellist helvítið inn. Dóttir mín vakin klukkan eitt á laugardagsnótt, hvað er ég að spá? Ég á fullt af aumkunarverðum, ógeðslegum mómentum og sem betur fer er ég ekki kona því þá hefði ég selt mig alveg grimmt. Það er gríðarlega algengt, það er allt morandi í þessu. Það er alveg svakalegt en fyrir mér er þetta bara eðlilegt.“

Vill ekki gefast upp

Það sem Reynir segir algengt meðal fíkla er að þegar þeir séu að nota eiturlyf þá geri þeir allt til þess að finna fólk sem er í verri stöðu en þeir sjálfir til þess að upphefja sjálfa sig.

„Ég hef staðið mig að því að vera í partíi með sprautufíklum, þá er ég búinn að mála mig út í horn alls staðar. Þá hef ég dottið í eitthvert partí með sprautufíklum og verið þar að taka í nefið. Svo sit ég og segi við þá; „djöfulsins aumingjar eru þetta, ertu að sprauta þig aulinn þinn.“ Þá er ég að reyna að bjarga mínu stolti á meðan ég er jafnvel ennþá veikari en þessi sprautufíkill. Er í einhverjum kippum með blóðnasir, alveg ógeðslegur, en maður reynir að hífa upp stoltið alls staðar. Maður reynir að benda á þennan og hinn og segja að þeir séu miklu verri en maður sjálfur. Maður reynir alltaf að finna einhvern veikari, þeir eru bestu vinir manns þegar maður er á botninum sjálfur. Finna einhvern sem er alveg í ræsinu, þá getur maður verið flotti karlinn. En hjá mér undir lokin þá get ég aldrei fundið neinn verri en ég. Ég er alltaf sá versti.

Ég hef oft setið hérna og hugsað af hverju ég drepi mig ekki bara. Það elski mig enginn og ég sé búinn að skíta á mig. Kannski búinn að missa vinnuna. Það sem hefur bjargað mér er að ég hef alltaf fengið séns, ég hef aldrei hætt að reyna og ég hef alltaf haldið áfram. Ég hef aldrei gefist upp, ég fer aftur í meðferð, ég vil ekki gefast upp. Þetta er eins og fólk með krabbamein, þú getur fengið bakslag. Nú verður allt brjálað – að ég sé að bera þetta saman, en þetta er bara sjúkdómur. Það er enginn sem hraunar yfir þig ef þú ert kominn í bata með krabbameinið og færð svo bakslag og þarft að fara aftur í krabbameinsmeðferð. Það segir enginn við þig; „helvítis krabbameinsfíkillinn þinn, af hverju ertu að fara í þessa meðferð hún virkar ekkert.“ Maður fer áfram, maður reynir að halda í lífsreipið, ekki gefast upp.“

Það hættir enginn við sem ætlar að nota

Síðan Reynir ákvað að segja sögu sína á Snapchat hefur hann mikið verið að hjálpa fólki sem á við fíknivanda að stríða og aðstandendur. Með því hefur hann reynt að hjálpa við forvarnir sem honum þykir þó ekki virka vel í dag.

„Sko, ef ég myndi hitta ungan einstakling sem væri að spá í að fá sér og ég myndi segja eitthvað við hann, þá er hann ekkert að fara að hætta við. Það er mín reynsla og ég veit að þetta er sönn reynsla. Ég hef farið með hundruð funda út á Vog og Krýsuvík og hingað og þangað og svo talar maður við fólk sem segist ætla að fara og detta í það en þá minnir maður það á hvernig það var síðast, búið að missa allt og reyna að drepa sig. Þá segja þau alltaf; „já, en ekki núna“. Ég held að besta forvörnin fyrir ungt fólk sé að halda því sem mest nálægt foreldrum sínum og heilbrigðu lífi. Foreldrarnir saman með börnunum. Reynslan mín sýnir þetta allavega.

Ég er ekki að segja að forvarnir séu glataðar og að það eigi ekki að nota þær, en ég meina, ég kynntist heilmiklu af forvörnum í skólanum en ég byrjaði samt að reykja hass og varð kókaínfíkill. Af hverju hlustaði ég ekki á Marita hérna í gamla daga? Þeir sögðu mér þetta allt. Ég er einmitt þannig að ég gæti fengið góða hugmynd á forvarnarfræðslu. Ég man ekki hvort ég var þannig í gamla daga en allt sem ég má ekki finnst mér spennandi og allt sem var óheiðarlegt fannst mér spennandi. Ef ég gat hagnast á einhverju óheiðarlega þá var það góð hugmynd. Hagnast hratt og mikið, á semi-gráu svæði, já, af hverju ekki? Svona er ég og ég er ekki eini Íslendingurinn sem er svona. Skjótfenginn gróði, gylliboð. Ég er búinn að vera svo oft edrú og áður en ég veit af er ég farinn að flytja inn eiturlyf bara til þess að ná mér í pening hratt. Þá verð ég voða karl, á fullt af pening, „looka“ vel með allt 100%, flúraður og fínn. Þá ákveð ég að fá mér aðeins og þá fellur þetta allt með sjálfu sér.“

Stöðug sjálfsskoðun að viðhalda edrúmennskunni

Lífsglaður Þrátt fyrir erfitt líf þá er Reynir ávallt jákvæður og slær á létta strengi

Þrátt fyrir erfitt líf og alvarlegan sjúkdóm getur Reynir þó ávallt slegið á létta strengi og tekur hann lífið ekki of alvarlega.

„Ég er ekkert að berja mig niður fyrir þetta. Það sem bjargar mér er að ég tek þessu svo létt. Ég er með eitt stærsta Snapchat á Íslandi og allir vita að ég er óvirkur fíkill. Maður á ekki að skammast sín ef maður er með hvítblæði eða einfættur, þú ert bara þannig. Eftir allar meðferðirnar mínar og edrútímabilin mín þá hugsa ég alltaf þegar ég dett í það að ég geti fengið mér smá. En eftir tíu, fimmtán, átján skipti þá hefur mér aldrei tekist þetta. Samt hugsa ég þetta í skipti sautján og átján. Ég er búinn að hlaupa á þennan vegg átján sinnum. Átján sinnum sko, en samt alltaf jafn öruggur og fyrst þegar ég klúðraði þessu. Það sýnir hvað þetta er sjúkt.

Ef maður er ekki alltaf að gera eitthvað til þess að viðhalda þessari edrúmennsku, fara á fundi, vera með edrú fólki þá togar þetta í mann. Ég þarf stöðugt að vera að skoða sjálfan mig. Það er ekkert hægt að fara bara í meðferð og gleyma því svo að hugsa um sjálfan sig og halda bara áfram, þetta er stöðug ræktun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Gervihnattarmyndir varpa ljósi á leynimakk Rússa og Norður-Kóreumanna

Gervihnattarmyndir varpa ljósi á leynimakk Rússa og Norður-Kóreumanna
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Furðar sig á ummælum Helga sem fór mikinn í gærkvöldi – „Hann átti varla fyrir salti í grautinn“

Furðar sig á ummælum Helga sem fór mikinn í gærkvöldi – „Hann átti varla fyrir salti í grautinn“
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Ellert ráðinn fjármálastjóri hjá Merkjaklöpp

Ellert ráðinn fjármálastjóri hjá Merkjaklöpp

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.