Lestrarátak Ævars vísindamanns hófst í fjórða sinn þann 1. janúar síðastliðinn.
Síðustu þrjú ár hafa samanlagt verið lesnar rúmlega 177 þúsund bækur í átakinu og því spennandi að sjá hvernig til tekst í þetta skiptið. Sú nýlunda verður höfð á í ár að krakkar í unglingadeild mega taka þátt og þess vegna geta nú allir í 1.-10. bekk verið með.
Fyrir hverjar þrjár bækur sem krakkarnir lesa fylla þau út miða sem má finna á næsta skólabókasafni og skilja eftir þar. Því fleiri bækur sem þú lest, því fleiri miða áttu í pottinum. Þann 1. mars, þegar átakinu lýkur, verða allir miðarnir sendir til Ævars, sem mun af handahófi draga fimm miða úr lestrarátakspottinum. Þessir fimm krakkar verða gerðir að persónum í ævintýralegri ofurhetjubók sem kemur út í vor, sem er um leið fjórða bókin í Bernskubrekum Ævars vísindamanns. Athygli er vakin á því að íslenskir krakkar í útlöndum geta líka tekið þátt, en hægt er að nálgast lestrarmiðana og prenta þá út í gegnum www.visindamadur.is.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Ævars vísindamanns.