Þórir Geir og Gyða Margrét syngja saman eitt af þeim tólf lögum sem keppast um að verða framlag Íslands í Eurovision í ár. Lagið sem þau syngja heitir Brosa og tóku þau á dögunum upp myndband við lagið.
Myndbandið var tekið upp á Suðurlandi og spila Gullfoss, Geysir og Kerið meðal annars stór hlutverk í því.
Hugmyndin var að gerast ferðamenn í okkar eigin landi í einn dag og heimsækja nokkrar af fallegustu náttúruperlum Suðurlands. Við vöknuðum eldsnemma til þess að ná birtunni, fórum á næstu bensínstöð og fengum okkur pylsu með öllu í morgunmat og lögðum svo af stað. Það var fáránlega kalt þennan morgun en maður gleymdi því fljótt því það var svo gaman hjá okkur yfir daginn. Það var ótrúlega skemmtileg upplifun að taka upp myndbandið í svona mikilli fegurð og erum við virkilega ánægð með útkomuna. Við vonum svo auðvitað að myndbandið fái fólk til að brosa sem er einmitt boðskapur lagsins,
segja Þórir og Gyða en mikil spenna er í hópnum sem mun flytja lagið á fyrra undankvöldinu þann 10. febrúar næstkomandi.
Höfundar lags og texta eru þeir Guðmundur Þórarinsson og Fannar Freyr Magnússon. Bassi Ólafsson sá um hljóðblöndun.