Írisi Backmann Haraldsdóttur finnst skortur á því í Íslensku samfélagi að fólk geti samglaðst náunganum og telur afbrýðisemi allt of algenga. Telur hún að líklegasta orsökin sé vegna þess hversu oft fólk ber sig saman við aðra.
Það er alltaf viss kjarni af fólki sem stendur alltaf með manni og svo er auðvitað alltaf einhver sem hreinlega getur ekki samglaðst öðrum og vill helst vera ofar og betri en allir aðrir,
segir Íris í einlægum pistli á bloggsíðu sinni.
Segir Íris yndislegt hversu margir séu að eltast við drauma sína í dag og framkvæma hugmyndir sem þeim hefur alltaf langað að gera.
En það sem ég er að meina er þessi blessaða afbrýðisemi, ég finn alveg fyrir henni hjá mér sjálfri af og til. Þrátt fyrir að ég reyni eins og ég get að styðja við allt og alla og koma vel fram við þá, þá kemur alltaf þessi tilfinning inn á milli. Maður fer að brjóta sig niður og bera sig saman við aðra og oft er það einhver sem er virkilega ólíkur manni.
Íris segist ekki skilja af hverju þessi tilfinning skuli alltaf koma upp og segist vita að hún sé ekki ein í þessum sporum.
Við berum okkur til dæmis saman við bestu vinkonu okkar og finnst alltaf eins og allir aðrir séu ofboðslega fallegir og fullkomnir en svo þegar kemur að okkur sjálfum þá er allt ómögulegt. Af hverju komum við svona fram við okkur. Flestir myndu aldrei koma svona fram við aðra.
Íris segir algengt að ef einhver einstaklingur sé að eltast við drauma sína þá séu einhverjir aðrir aðilar sem þurfa að hafa skoðanir á því hversu glötuð sú manneskja er og hvað það sem hún er að gera sé ekki nógu gott.
Þetta er ótrúlega ljótt, af hverju talar fólk svona. Mér finnst við öll geta bætt okkur og æft okkur í því að samgleðjast öðrum. Hættum að bera okkur saman, við erum öll öðruvísi og okkur var ætlað að vera það. Öll höfum við einhverja drauma sem okkur langar að fylgja eftir, sumir ná því aðrir ekki. En þrátt fyrir að ná því ekki gerir það okkur ekki að verri manneskjum, við verðum að reyna að samgleðjast þeim sem ná að fylgja sínum draumum.
Íris segist sjálf hafa fundið fyrir neikvæðri orku þegar henni hefur vegnað vel í lífinu.
Af hverju ætti einhver að gleðjast þegar manni gengur illa? Af hverju ekki að gleðjast þegar manni gengur vel? Hættum bara að leyfa neikvæðu hugsunum okkar að ná stjórn og detta í einhverja afbrýðisemi. Við erum öll fullkomin eins og við erum, enda getum við ekki verið neinn annar, sama hvað við reynum.
Hægt er að fylgjast með Írisi á Snapchat og Instragram undir nafninu: irisbachmann