Jæja, það hlaut að koma að því.
Fertug.
já, ég verð fertug núna seinna í mánuðinum. Og í fyrsta sinn á ævinni er ég að upplifa það að mér finnst ég vera að eldast. Já, í fyrsta sinn, finnst mér erfitt að eiga afmæli. Ég veit ekki hversvegna, en það kom eitthvað yfir mig þegar ég fór að hugsa þetta og að ég verði fertug. Fjörtíu ára. Komin á fimmtugsaldurinn. Miðaldra.
Nei, það held ég ekki. Ég er á þeirri skoðun að það sem mótar okkur sem manneskju, eru ekki hversu mörg ár við höfum lifað, hversu mörg afmæli við höfum átt. Það sem mótar okkur er að sjálfsögðu hvernig við höfum lifað þessi ár, hvað við höfum gengið í gegn um og hvað við höfum tekist á við í gegn um lífið. Og ekki bara það, heldur hvernig við höfum tekið á þeim verkefnum sem fyrir okkur hafa verið lögð.
Fyrir nokkrum árum tók ég meðvitaða ákvörðun um það, eftir erfiða reynslu sem við fjölskyldan gengum í gegn um að ég skyldi ALLTAF halda upp á afmælið mitt og afmæli maka míns og barnanna okkar.
Og þrátt fyrir það að í fyrsta sinn á ævinni, hlakka ég ekki til að eiga afmæli, þá ætla ég samt að fagna því með ástvinum mínum og vinum. Því að það sem skiptir mestu máli í lífinu er að eiga góða að. Góða fjölskyldu og trygga vini.
Ég held að það sé hollt fyrir alla að líta á lífið sem reynslu. Líta á hvert ár sem auka innlegg í bankann og að með hverju árinu öðlast maður meiri reynslu og þroska. Og þar með geti maður miðlað þeirri dýrmætu reynslu sem við búum að til annarra. Ekki satt?
Til hamingju með afmælið ykkar, njótið þess að lifa hvert ár og fagnið því í hvert sinn með þeim sem ykkur standa næst.
Færslan birtist upphaflega á bloggsíðu Fríðu.